c

Pistlar:

21. mars 2021 kl. 18:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fossvogsskóli og ábyrgð opinberra aðila

Mygla greindist í Fossvogsskóla í byrjun árs 2019. Síðan hefur verið farið í miklar framkvæmdir sem hafa kostað í kringum 500 milljónir króna og skólanum lokað um tíma. Í nýrri skýrslu kemur hins vegar fram að varasamar myglutegundir séu enn að finnast í skólanum og börn enn að veikjast. Foreldrar barna í Fossvogsskóla segja traust þeirra til stjórnenda Reykjavíkurborgar brostið í kjölfar upplýsinga- og aðgerðarleysis vegna endurtekinnar myglu sem hefur fundist í skólanum. Foreldrar eru sumir hættir að senda börn sín í skólann. Nú er svo komið að keyra þarf öll börn úr Fossvogsskóla í annað hverfi.

Þetta er auðvitað erfitt mál að fást við en það er ekki hægt að segja að þeir opinberu aðilar sem hafa komið að málinu hafi staðið sig neitt sérstaklega vel eins og kom fram í spjalli þeirra Tinnu Traustadóttur, foreldris í Fossvogsskóla og Skúla Helgasonar borgarfulltrúa og formanns skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í útvarpsþættinum Sprengisandi í dag. Satt best að segja virkuðu svör skólamannsins ekki sannfærandi. Enn á ný á að setja upp aðgerðahóp og þá duga engir sérfræðingar í hinu fjölmenna starfsliði Reykjavíkurborgar heldur þarf að kaupa þjónustu utanfrá. Látum það vera, sérfræðiþekking kostar sitt en þetta er dæmigert fyrir stjórnsýsluuppbyggingu hins opinbera, þar eru kannski fyrst og fremst sérfræðingar í stjórnsýslu! Þegar þarf að setja upp þekkingar- og aðgerðahópa verður að leita út fyrir hana.fossv

Skaðinn skeður

En það verður að taka ákvörðun um framhaldið og heilsufar barnanna verður að vera í forgangi. Það er einu sinni svo að ef þú hefur komist í tæri við myglu og ert veikur fyrir þá ertu útsettari fyrir að veikjast af henni í framtíðinni. Þeir sem hafa veikst vegna fyrra ástands þola þess vegna alla myglu og myglugró oft afar illa. Það fólk lendir í miklum vandræðum og getur ekki verið á mygluðum stöðum og breytir engu þó að myglan sé mjög lítil. Fyrri einkenni geta þá tekið sig upp og fólk jafnvel verið veikt í nokkra daga eftir snertingu við myglu. Það er svo víða einhver mygla í húsum að þetta getur skapað þessum einstaklingum miklum vandræðum. Skaðinn er skeður. Þess alvarlegra er að vanrækja viðhald á skólum borgarinnar. Hugsið ykkur nú umræðuna ef einkaaðilar bæru ábyrgð á þessu!

Þegar vandinn kom upp fyrst voru færanlegar kennslustofur notaðar fyrir þá nemendur sem höfðu veikst. Augljóslega þarf að taka þær aftur í notkun fyrir þessa nemendur. Svo getur verið að þeir nemendur sem eru með mygluóþol verði mögulega að færa sig annað í umhverfi. Líklega er skynsamlegt fyrir skólayfirvöld að hafa færanlegar skólastofur á lager sem hægt er að koma strax með inn fyrir þá nemendur sem verða fyrir sýkingu enda ljóst að þetta getur haft varanleg áhrif á þá. Um leið verða borgaryfirvöld og aðrir eigendur fasteigna að endurmeta viðhald og heilbrigðiseftirlit sitt. Það ástand sem nú hefur skapast í Fossvogsskóla ætti að verða öðrum víti til varnaðar.