c

Pistlar:

30. mars 2021 kl. 21:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað á að gera við Ríkisútvarpið?

Ríkisútvarpið er óvenjulegur kvistur í stofnanatré ríkisins. Það hefur háværa rödd sem á að hljóma almenningi til uppfræðslu og ánægju. Um það gilda nefnilega sérstök lög sem taka til aðskiljanlegustu þátta. Þau bera yfirskriftina „Lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu“ en þar er einnig að finna ýmsar aðrar sérreglur sem eru að mörgu leyti strangari en hinar almennu reglur sem gilda um alla fjölmiðla. Í ákvæði 1. greinar laga um Ríkisútvarpið segir meðal annars að það skuli rækja hlutverk sitt af fagmennsku og heiðarleika. Einnig segir að Ríkisútvarpið skuli miðla vönduðu efni og veita áreiðanlega frétta- og fréttaskýringaþjónustu. Þá er sérstaklega tilgreint að Ríkisútvarpið skuli vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð, sannreyna að heimildir séu réttar og stunda vandaða fréttamennsku. Settar hafa verið vinnureglur og siðareglur sem taka mið af þessum lagaákvæðum.ruv

Margt í þessu ferli er matskennt og erfitt að sjá hvernig tryggt verður að eftir lögum og reglum sé farið. Reyndar er það svo að þegar nýlegar skýrslur Ríkisendurskoðunar og Fjölmiðlanefndar um Ríkisútvarpið eru skoðaðar þá sést að þar má finna margar alvarlegar athugasemdir sem ekki verður séð að hafi verið brugðist við innanhús. Nú síðast hefur orðið mikil umræða í kjölfar úrskurðar Siðanefndar Ríkisútvarpsins sem ætlað er að meta sem sjálfstæður aðili hvort fréttamenn hafi farið eftir umræddum siðareglum. Það hefur verið kostulegt að fylgjast með umræðu starfsmanna Ríkisútvarpsins í kjölfar úrskurðarins sem var að sumu leyti vægur og tillitssamur við þá. Þannig hefur mátt sjá umræðu þeirra á meðal um það að enginn viti hver hafi sett siðareglurnar og í sumum spjallþráðum á Facebook hafa starfsmenn og stjórnarmenn kastað þessu á milli sín og varpað ábyrgðinni hvor á annan. Stundum virðist sem svo að starfsmenn Ríkisútvarpsins telji að það fylgi því engin aukakvöð að vinna hjá ríkisstofnun á fjölmiðlamarkaði, opinberri stofnun sem rekin er fyrir skattfé almennings.

Valdamiðja

Um starfsemi Ríkisútvarpsins hefur staðið mikill styr undanfarin ár og hefur hann aukist ef eitthvað er samfara því hve staða einkarekinna fjölmiðla hefur versnað. Ríkisútvarpið, með sitt mikla fjármagn, hefur þannig orðið ákveðin valdamiðja í fjölmiðlaheiminum. Á fréttasviðinu sést það meðal annars á því að stofnunin hefur tekið upp náið vinnusamband við vinstrisinnaða vefmiðla, eins og Stundina og Kjarnann, þegar kemur að stórum fréttamálum sem beinast að stórfyrirtækjum eða borgaralega sinnuðum stjórnmálamönnum. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá hafa vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins breyst á undanförnum árum og fréttastefnan að sumu leyti harðnað. Það er ekki nóg að segja fréttir, það þarf líka að stýra umræðunni og sögunni að baki fréttinni (narratífinu á vondri íslensku). Spyrja má líka af hverju stofnunin velur samstarfið við Stundina og Kjarnann, en ekki til dæmis Viðskiptablaðið eða Fréttablaðið?

Fréttaheimurinn hefur breyst á frekar stuttum tíma. Nú er hægt að draga saman gríðarlegt gagnamagn og stundum er hefur sá sem segir söguna miklu meira af gögnum undir höndum en sá sem um er fjallað. Upplýsingastreyminu er síðan stýrt í gegnum lekaveitur sem sækja sér fjármagn í kringum stóra gagnaleka eins og afhjúpaðist í málaferlum rekstrarfélags WikiLeaks, Sunshine Press Productions, og þjónustuaðila þess, DataCell, við Valitor. Valdið hefur færst til og það virðist örla á því að starfsmenn stofnunarinnar líti á sig sem almenna dagskrárstjóra í þjóðmálaumræðunni. Hið sérstaka hugtak í íslenskri fjölmiðlagsögu, „drottnandi þjónar“ sem Þorbjörn Broddason fjölmiðlafræðingur bjó til hefur þannig fengið nýja merkingu. Hér var fyrir stuttu vitnað í samantekt fjölmiðlamannsins Sigmundar Ernis Rúnarssonar sem lýsti ágætlega þeim vanda einkarekinna fjölmiðla sem fylgir yfirburðastöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaðinum. Fullt tilefni er því nú til að endurhugsa stöðu Ríkisútvarpsins í hinu breytta starfsumhverfi einkarekinna fjölmiðla, sem nú eru allir komnir að hluta á ríkisstyrki. Augljóst er að það gengur ekki upp í lýðræðisþjóðfélagi að Ríkið, með sínum fjölmiðli, gangi næstum frá öllum samkeppnisaðilum, og setur þá svo í öndunarvél á kostnað skattgreiðenda. Er það fyrirkomulag sem menn vilja hafa til langs tíma?

Uppeldis- og mótunarhlutverk Ríkisútvarpsins

Það hefur sýnt sig að það hefur fremur litla merkingu að efna til umræðu um efni og efnistök við starfsmenn Ríkisútvarpsins. Eðlilegar og sanngjarnar fyrirspurnir og umkvartanir eru í besta falli hundsaðar. Stofnunin fer sínu fram í krafti síns mikla fjárstyrks, eyðir þeim fjármunum sem hentar og án afleiðinga. Hún aflar tekna með mjög skapandi hætti og keyrir áfram umfjöllunarefni eins og hún hafi tekið pólitíska afstöðu í þeim. Og alltaf er sú afstaða með vinstri slagsíðu. Umfjöllun um umhverfismál er gott dæmi um þetta. Þar virðist stofnunin hafa tekið að sér ákveðið hlutverk í hræðsluáróðri sem beinist ekki síst að börnum landsins. Þessi tilhneiging til þess að taka að sér uppeldis- og mótunarhlutverk birtist líka í furðuþættinum Krakkafréttum sem hvað eftir annað hefur verið staðinn að því að flytja hreinan og kláran áróður og ganga þannig blygðunarlaust inn í störf kennarastéttar landsins!

Þegar þetta allt er skoðað má velta fyrir sér hvort ekki sé einfaldast að höggva á hnútinn og gefa almenningi kost á því að merkja við í skattframtali hvort fólk vilji að útvarpsgjald sitt renni til Ríkisútvarpsins eða einhverra hinna frjálsu fjölmiðla eins og hefur verið flutt tillaga um á Alþingi. Með þeirri framkvæmd myndi Ríkisútvarp allra starfsmanna óhjákvæmilega gæta hlutleysis síns betur í fréttaflutningi. Ef slíkt reynist ekki unnt, þá getur sá hluti almennings sem líkar ekki við vinstri slagsíðuna, látið útvarpsgjald sitt renna til miðla sem þeim er meira að skapi. Þannig væri um leið hægt að tryggja eitt af markmiðum Ríkisútvarpsins, að sem flest sjónarmið fái að heyrast.