c

Pistlar:

11. apríl 2021 kl. 15:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Umboðið fyrir ESB og Cocoa Puffs

Nú þegar hálft ár er til kosninga er ekki með öllu ljóst hver fer með Evrópusambandsumboðið á Íslandi. Tveir flokkar gera væntanlega tilkall til þess í ljósi þess að bæði Samfylkingin og Viðreisn telja að það sé best fyrir framtíð landsins að ganga inn í Evrópusambandið. Hér er rétt að nota orðið innganga en ekki hið hógværa orð aðild. Þegar inn er komið yrðum við Íslendingar orðnir hluti af þessum 27 þjóða klúbbi sem reynir að reka sig sem eina heild gagnvart utanaðkomandi aðilum. Að margra dómi er þarna um að ræða heldur gamaldags tollabandalag, rekið af þunglamalegu og miðstýrðu embættismannakerfi. Látum það liggja milli hluta að sinni.

Undanfarið hefur Viðreisnar-fólkið sótt það fastar að tryggja sér umboðið fyrir Evrópusambandið. Satt best að segja er erfitt að átta sig á áhuga Samfylkingarfólks þessa stundina enda flokkurinn að endurraða frambjóðendum sínum og endurskilgreina áherslur sínar. En Viðreisnarfólk segir stundum að það sé synd að innganga í Evrópusambandið skuli ekki verða að kosningamáli. Rétt væri að þjóðin tæki almennilega afstöðu til þess, rétt eins og að kosningar séu einhvers konar skoðanakönnun. En nú hefur semsagt þingflokkur Viðreisnar gefið upp boltann og lagt fram þingsályktunartillögu um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Sumir hentu að því gaman að þetta gerðist daginn fyrir 1. apríl, sama dag og það spurðist út að regluverk frá Evrópusambandinu, sem gildir hér á landi vegna EES-samningsins, hefði orðið til þess að vinsælt morgunkorn væri að hverfa af borðum landsmanna.cocap

Verður ESB aðild að kosningamáli?

En er það einlæg ósk Viðreisnar að gera aðild að Evrópusambandinu að kosningamáli? Sannarlega er það svo stórt mál í allri stjórnskipun landsins að ef það er til umræðu ætti það með réttu að fá athygli. En eru þingmenn Viðreisnar sjálfir nógu áhugasamir að þeir vilji í raun gera þetta að kosningamáli? Til þess þurfa þeir nefnilega að útskýra hvaða merkingu málið hefur í komandi stjórnarmyndunarviðræðum. Þegar á reynir hefur Viðreisn verið tilbúin að víkja þessu baráttumáli til hliðar fyrir ráðherrastóla, rétt eins og Samfylkingin kaus að gera þegar hún myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum árið 2007. Tveimur árum síðar sveik síðan Vinstrihreyfingin - grænt framboð eigið kosningaloforð um að fara ekki í inngönguviðræður við Evrópusambandið, þá komin í stjórn með Samfylkingunni. Af þessu sést að þegar á reynir þá eru þeir flokkar sem segjast vilja setja inngöngu í Evrópusambandið á oddinn ekki tilbúnir að ganga alla leið. Önnur lögmál taka einfaldlega yfir við myndun ríkisstjórna. Þetta gæti útskýrt tregðu ESB-sinna við að gera inngöngu að kosningamáli. Þegar á reynir vilja þeir ekki að það bindi sig.

Mikilvægar viðræður við Breta

Frá 1. janúar 2021 gilda evrópskar reglur um frjálsa vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga því ekki lengur milli Bretlands og ESB – og þar með ekki heldur EES eða Íslands. Í framhaldi af útgöngu Breta þurfa íslensk stjórnvöld að semja við Breta um áframhaldandi samstarf. Í grein sem Gunnar Þór Þórarinsson, lögmaður í Bretlandi, skrifaði í Morgunblaðið fyrir helgi kom fram að hann telur margvísleg tækifæri í viðræðum við Breta og mikilvægt að leggja við hlustir en Gunnar Þór hefur starfað í Bretlandi um árabil. Hann telur óhjákvæmilega að þessu fylgi breytingar á viðskiptum gagnvart Bretlandi og bætir við. „En breytingum fylgja jafnan ný tækifæri. Aldalöng saga samskipta og viðskipta Íslendinga og Breta og sérstaða þjóðanna innan Evrópu vekur vonir um að þau kaflaskil sem mörkuð voru með útgöngu Breta úr ESB geti eflt viðskipti og samskipti þjóðanna enn frekar.“

Undir þetta má taka en hafa verður í huga að um leið og Bretar fara úr Evrópusambandinu má gera ráð fyrir að sambandið taki breytingum enda hafa Bretar í gegnum tíðina hvað harðast staðið gegn stöðugri tilraun Brussel-valdsins til að auka hið yfirþjóðlega vald. Því gæti hæglega orðið enn meiri samruni innan sambandsins eftir útgöngu Breta með tilheyrandi aukinni miðstýringu og reglugerðafrumskógi enda voru Bretar helstu talsmenn frjálslyndis og viðskiptafrelsis innan þess. Samruninn verður auðveldari í framhaldinu.

Hverjum er treystandi fyrir fullveldinu?

En allt þetta vekur líka upp spurningar um hverjum sé í raun að treysta þegar kemur að því að halda á hagsmunum íslensku þjóðarinnar, bæði í áframhaldandi samskiptum (og hugsanlega viðræðum) við Evrópusambandið og þeim samningaviðræðum sem eru framundan við Breta. Þegar helstu talsmenn Evrópusambandsaðildar innan Viðreisnar ræða um fullveldi Íslands þá setja þeir gjarnan gæsalappir utan um orðið fullveldið. Er slíku fólki treystandi til að gæta hagsmuna Íslands ef þeir hafa ekki einu sinni fullveldið með þegar sest er að samningaborðinu? Hvernig getur ein þjóð samið við aðra (nú eða ríkjasamband) ef samningamennirnir trúa ekki á eigið fullveldi? Við þekkjum nýleg og slysaleg dæmi um slíka nálgun í samningaviðræðum um Icesave - einmitt hjá þeirri ríkisstjórn sem taldi sig vera sesta við samningsborðið um inngöngu í Evrópusambandið. Er það ekki eitthvað til að horfa til verði Viðreisn að ósk sinni um að innganga í Evrópusambandið verði kosningamál 25. september næstkomandi?