c

Pistlar:

13. apríl 2021 kl. 21:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Daniel Ortega: Bankaræningi og byltingaleiðtogi

Mið-Ameríkuríkið Níkaragúa er hvorki ríkt né stórt og eins og mörg önnur ríki á þessum slóðum hefur það átt í erfiðleikum með að byggja upp sanngjarnt og lýðræðislegt þjóðfélag sem veitir þegnum sínum mannsæmandi velferð. Ástandið í Níkaragúa hefur verið til umræðu í pistlum hér með reglulegu millibili eins og á reyndar við um mörg önnur lönd þessarar heimsálfu sem hafa fengið yfir sig umdeilda stjórnmálaleiðtoga sem hafa kallað yfir þegna sína vonda hugmyndafræði og enn verra stjórnarfar.

Hin 74 ára gamli Daniel Ortega hefur verið örlagavaldur í lífi íbúa Níkaragúa síðustu fjóra áratugi. Segja má að hann sé einn eftirlifandi af þremur sósíalísku leiðtogum álfunnar, þeim Fidel Castro (1926-2016) og Hugo Chavez (1954-2013) sem ásamt Ortega gerðu sitt besta til að skera upp þjóðfélagsgerðina, ala á hatri á Bandaríkjamönnum og kapítalismanum (í þessari röð) og að lokum steypa undan efnahag landa sinna í tilraun sósíalista við að innleiða hagstjórn sem hvergi hefur gengið upp. Og allir kenndu þeir viðskiptabanni Bandaríkjanna um, sem er skiljanlegt enda einstaklega heimskuleg ráðstöfun. Án þess að geta búið til sameiginlegan óvin í Bandaríkjamönnum hefðu hin sósíalísku stjórnkerfi þessara landa án efa mætt meiri óánægju innanlands og líklega fallið fyrr. Um það er erfitt að segja þar sem allir þessir leiðtogar börðu niður alla óánægju með harðri hendi, Castro og Ortega sínu verstir en myndin hér til hliðar sýnir stuðningsmenn hans murka lífið úr andstæðingi stjórnarinnar.nikagoofbeldi

Bankarán til að fjármagna byltinguna

Ortega er af verkamannaættum, faðir hans hafði barist með hreyfingum sem tókust á við bandarískar hersveitir sem dvöldust í landinu um lengri og skemmri tíma og dróst inn í skæruliðastyrjöld sem háð var gegn hinni gjörspilltu stjórn Anastasio Somoza. Ortega var einn þeirra sem mótuðu baráttu sandinista, skæruliðahreyfingar sósíalista sem auðnaðist að lokum að fella stjórn Somoza en fjölskyldan hafði ráðið mestu í Nígaragúa frá því á fjórða áratug síðustu aldar þegar Bandaríkjamenn höfuð stutt Anastasio Somoza García til valda. Eftir það ríkti ættarveld í landinu og baráttan við það var blóðug og harðvítug og Ortega þurfti stundum að dveljast í fangelsi við illan aðbúnað og þola pyntingar. Eftir að hafa stundað bankarán og gripdeildir til að fjármagna skæruliðastarfið dvaldi Ortega megnið af þriðja áratug ævi sinnar í fangelsi. Þegar hann var látin laus árið 1974 segja félagar hana að út hafi komið breyttur maður. Hann var fjarlægur, uppstökkur og vantreysti öllum. Hann var ekki samur maður, segir Sergio Ramírez, rithöfundur og samstarfsmaður Ortega til margra ára í samtali við Washington Post og bætir við: „Ortega var alltaf dálítið inní sig en eftir fangavistina treysti hann fáum.“

„Byltingin þolir engar undanþágur.“

Eftir að sandinistar höfðu náð að steypa stjórninni af stóli árið 1979 tókst Ortega smám saman að þrýsta sér upp raðir þeirra og varð að lokum forseti árið 1984. Að sumu leyti nýtti hann sér að enginn sá hann sem ógn fyrr en um seinan. Fljótlega fór mörgum að þykja óþægilegt að búa við stjórn sandinista sem ástunduðu ekki beinlínis lýðræðisleg vinnubrögð. Stjórn þeirra hóf að ritskoða fjölmiðla og vinna gegn kosningastjórnum og þeim stjórnsýslueiningum sem áttu að tryggja réttmætar kosningar. Um leið tóku sósíalistar yfir skömmtunarseðlakerfið og beittu þeim til að umbuna og refsa fyrir tryggð eða ótryggð. Í samræmi við vinstri stefnu sandinista kom stjórnin á miðstýringu og beitti sér fyrir víðtækri þjóðnýtingu. Í Svartbók Kommúnista er nokkru plássi varið undir þróunina í Níkaragúa og segir þar að framkoma sandinista við þá indjánaflokka sem bjuggu á Atlantshafsströnd landsins hafi verið sýnu verst. Fyrri stjórnir höfðu látið þá að mestu í friði en skömmu eftir að sandinistar tóku völd, snéru þeir sér að þessum indjánaþjóðflokkum, sem vildu halda í land sitt og tungu. Segja má að þeir hafi byrjað skipulegar ofsóknir gegn indjánunum, drápu foringja þeirra, sveltu þá og knúðu tugþúsundir þeirra á flótta. Þetta þrennt, fjöldaaftökur, nauðungaflutningar og útlegð, fékk mannfræðinginn Gilles Bataillon til að tala um „skipulegt þjóðarmorð“ í Nígaragúa. Innan sandinista örlaði meira að segja á óánægju með þetta framferði en hinn marxíski innanríkisráðherra, Tomas Borge, svaraði: „Byltingin þolir engar undanþágur.“carter ortega

Með alla þræði valdsins í sínum höndum

Eftir að Ortega komst til valda fékk hann fljótt á sig orð fyrir að vasast í öllum hlutum og vilja hafa alla þræði valdsins í sínum höndum. Hann treystir engum nema nánustu fjölskyldumeðlimum og ef hann getur ekki stýrt ríkisstjórnarfundum lætur hann það í hendur konu sinnar, Murillo, sem er varaforseti landsins. Hún tjáir sig þannig oft í nafni stjórnvalda. Þetta er breyting frá því sem áður var segir Mónica Baltodano við Washington Post en hún starfaði með Daniel Ortega í skæruliðasveitum sandinísta. Mónica segir að á þeim árum hafi hann getað tengst einstaka stjórnendum og verið duglegur að ferðast um sveitahéruð landsins, þar sem sandinistar höfðu oft sótt styrk sinn. Á þeim árum lagði Ortega grunn að þeim áhrifum sem hann hafði innan sandinistahreyfingarinnar og meðal annarra sem höfðu trú á honum.

Þá þurfti Ortega að heyja baráttu við andspyrnuhreyfingar sem studdar voru af Bandaríkjamönnum og sprengdu upp brýr, lögðu jarðsprengur og stunduðu almenn skemmdaverk og aðrar ógnir eins og slíkar hreyfingar gera gjarnan. Í átökum slíkra hreyfinga (contras) og sandinista létust tugþúsundir manna. Þegar Ortega var kosinn forseti beindi hann gjarnan máli sínu beint til Bandaríkjanna um leið og hann sagði að alvöru lýðræði fælist í auknu læsi, útdeilingu lands, betri menntun og betra heilsufari. Landsmenn tóku undir það en eftir eitt kjörtímabil féll hann í kosningum og varð að láta af völdum árið 1990.

Marxisminn lagður til hliðar

Ortega tapaði næstu þremur forsetakosningum en náði aftur völdum árið 2006, þá með talsvert breytta hugmyndafræði í farteskinu. Þá var Ortega búinn að leggja marxisma til hliðar, hafði tónað niður hatur sitt á Bandaríkjamönnum og talaði um frið og kristileg gildi en myndin hér að ofanverðu sýnir hann með Jimmy Carter fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. Þannig reyndi hann að ná til einkageirans og vildi draga til landsins erlenda fjárfestingu. Hundruð milljóna dala streymdu til landsins í formi ódýrar olíu, þökk sé Venesúela undir stjórn Hugo Chávez. Þannig reyndu menn að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og örva félagslegar framfarir. Þetta hafði áhrif. Níkaragúa var næst fátækasta land álfunnar, næst á eftir Haíti, en efnahagurinn tók við sér og næstu 10 ár var 4% hagvöxtur á ári.

„Okkur kom á óvart hvernig hann stýrði efnahag landsins,“ sagði Francisco Aguirre Sacasa sem var utanríkisráðherra Níkaragúa árin áður en Ortega tók við og bætti við: „En um leið jók hann tökin á þinginu og helstu valdastofnunum ríkisins, þar á meðal dómstólunum. Á þessum tíma hafði hann náð algerri stjórn á kosningakerfinu. Lýðræðið var að gefa eftir, að hluta til sambærileg þróun og hefur verið áberandi undir stjórn Nicolás Maduro, eftirmanns Hugo Chávez í Venesúela.

Það voru endurteknar ásakanir um kosningasvindl árið 2006 og yfirleitt í kosningum eftir það en Ortega hefur ekki látið það stöðva sig. Þegar hann hafði unnið í kosningunum 2011 gerðu kosningaeftirlitsmenn frá Evrópusambandinu alvarlegar athugasemdir og sögðu kosningarnar „ógegnsæjar og handahófskenndar.“ Fyrir kosningarnar 2016 gerði Ortega margvíslegar breytingar á kosningalögunum sem augljóslega var ætlað að tryggja betur völd hans. Um leið hlýddi hæstiréttur landsins og úrskurðaði Eduardo Montealegre frá þátttöku í kosningum en hann var talin líklegastur til að berjast við Ortega. Þannig virðist hann hafa náð að tryggja völd sín þó að veikindi dragi nú mátt úr þessum sósíalíska harðstjóra. Það gæti verið að koma að endalokunum.