c

Pistlar:

20. apríl 2021 kl. 20:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tæknifyrirtækin: Of stór til að ráða?

Það er ekki alltaf ljóst hvað menn eiga við þegar rætt er um tækniheiminn en vissulega geta stærstu tæknifyrirtæki heims fallið þar undir, en það eru fyrirtækin sem í dag hafa líklega hvað mest áhrif á daglegt líf fólks um allan heim. Þau eru í eigu ríkustu manna heims sem í öllum tilvikum eru frumkvöðlar sem hafa skapað óvenjuleg fyrirtæki sem veita einstaka þjónustu á heimsvísu. Um það hefur alloft verið fjallað hér í pistlum. Tilvera þessara fyrirtækja, stærð þeirra og framganga er að sjálfsögðu til daglegrar umfjöllunar enda velta þeirra og starfsmannafjöldi eins og hjá meðalstórum ríkjum. Áhrif þeirra eru að sumu leyti meiri og stundum er eins og tilvera þeirra sé sérstök áskorun fyrir þjóðríkið og regluverk þess.

Það sem knýr líklega á um enn frekari umfjöllun og athugasemdir við störf þeirra er sú staðreynd að heimsfaraldurinn (kórónuveiran/Covid-19) hefur reynst hafa sáralítil áhrif á starfsemi þeirra. Þau voru risavaxin fyrir og kórónuveirufaraldurinn hefur fyrst og fremst stuðlað að vexti þeirra, svo mjög að þau eru verulega miklu stærri í dag en þegar veiran kom til sögunnar. Það virkar síðan á verðmæti þeirra sem eykst og eykst og setur í raun öll viðmið á hliðina.bigteck

Fjórir átakaþættir

Staðreyndin er sú að á til þess að gera stuttum tíma hafa þessi fyrirtæki tekið yfir stóra þætti í lífi jarðarbúa. Þau láta okkur flestum í té mikið af þeim tækjum og hugbúnaði sem við notum og stýra samskiptum okkar. Flest venjulegt fólk í þokkalega tæknivæddu samfélagi fer ekki í gegnum daginn án þess að nýta sér búnað frá þessum fyrirtækjum, hvort sem það er í starfi eða frítíma. Upp á síðkastið hafa komið upp efasemdir um áhrif þeirra, bæði á daglegt líf og skoðanamyndun í samfélaginu eins og áður hefur verið rætt hér. Segja má að það sé tekist á um fjóra þætti þegar starfsemi þeirra er skoðuð. Það er í fyrsta lagi þættir sem snúa að einkalífi fólks, þar er kannski vandinn sá að fólk virðist meðvitað afhenda það þessum félögum og ganga í björg aðildarskilmála. Þá er áreiðanleiki þeirra umdeildur. Í þriðja lagi hafa skattgreiðslur eða skortur á þeim orðið að umfjöllunarefni og í fjórða lagi telja menn að þau hafi náð einstöku samkeppnisforskoti sem geti stuðlað að einokun. Alla þessa þætti er nú verið að skoða af stjórnvöldum víða um heim. Öfugt við það þegar Bandaríkjamenn tóku sig til og skiptu upp Standard Oil árið 1911 þá er allur heimurinn undir. Á þeim tíma réði Standard Oil yfir 90% af olíumarkaði Bandaríkjanna og niðurstaðan var að skipta félaginu upp í 34 félög. Erfitt er að sjá fyrir sér slíka aðgerð á heimsvísu.

En til einföldunar getum við talað um fimm stóru fyrirtækin en mörgum er tamara að tala um þau fjögur stóru. Þar skilur á milli hvort menn vilji hafa elsta félagið, Microsoft, með í upptalningunni. Starfsemi þess er með öðrum hætti og að sumu leyti hafa nýju félögin, og þá sérstaklega Google, unnið gegn yfirburðastöðu Microsoft enda félögin í augljósri samkeppni. Þetta er kannski ekki höfuðatriði en hefur þó vissulega áhrif á það þegar heildarmyndin er metin. Í allri umræðu í tækniheiminum skipta skoðanir stofnenda og stjórnenda fyrirtækjanna öllu eins og var bent á hér.

En sú staðreynd að þau virðast ósnert af áhrifum faraldursins sýnir annars vegar hve stór hluti af tækni nútímans kemur frá þeim og hve samofið það er okkar daglega lífi. Sömuleiðis að vörur þeirra eru metnar nauðsynlegar af almenningi.

Undraverð velgengni

Fyrirtækin fimm hafa átt undraverðri velgengni að fagna á síðast ári. Apple Inc., Microsoft Corp., Amazon.com Inc., Google-móðurfyrirtækið Alphabet Inc., og Facebook Inc uxu samtals um fimmtung á síðasta ári eða um sem svarar 1,1 trilljón bandaríkjadala (milljón billjónum). Samanlagður hagnaður jókst um fjórðung og samanlagt markaðsvirði þeirra hefur tvöfaldast á síðasta ári og nemur núna um 8 trilljónum dala.

Efnahagsleg áhrif fyrirtækjanna jukust á alla kanta. Þannig bætti Amazon eitt og sér við sig um 500.000 starfsmönnum á síðasta ári eða sem jafngildir öllum mannfjölda Atlanta-borgar. Það sem meira er, það eru litlar sem engar horfur á að það dragi úr vextinum. Nýlega var haft eftir Satya Nadella, forstjóra hjá Microsoft, að fyrirtækið gerði ráð fyrir að hlutfall hugbúnaðar í hagkerfinu myndi rísa verulega eða úr 5% af landsframleiðslu upp í 10% af landsframleiðslu. Sé það rétt er óhætt að halda áfram að fjárfesta í félögunum. En löggjafinn þarf líka að gera upp við sig hvernig hann ætlar að fást við þennan nýja veruleika sem augljóslega er að hafa stórkostleg áhrif á samfélög nútímans.