c

Pistlar:

22. apríl 2021 kl. 21:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskeldi: 100 milljarða verðmæti?

Á síðasta ári var slátrað ríflega 40 þúsund tonnum af eldisfiski og útflutningsverðmæti hans nam tæplega 30 milljörðum króna eða heldur meira en langþráð loðnuvertíð skilaði okkur. Þegar horft er til þess að verðmæti útfluttra sjávarafurða nam um 270 milljörðum króna á síðasta ári þá sést að gríðarleg tækifæri eru í fiskeldi. Ekki er fráleitt að ætla að heildarútflutningsverðmæti þeirra verði komið yfir 100 milljarða króna innan nokkurra ára en hafa má í huga að Færeyingar hafa á á síðasta áratug tvöfaldað verðmæti sjávarafurða með átaki í fiskeldi. Fiskeldið stefnir því í að verða einn af grunnatvinnuvegum Íslendinga. Það hefur burði til að vaxa, ólíkt öðrum sjávarútvegi sem sækir í takmarkaða auðlind byggðri á sjálfbærri nýtingu. Á þessa möguleika fiskeldis hefur áður verið bent í pistlum hér um leið og brýnt hefur verið að hugað sé að burðarþoli náttúrunnar. Mikilvægt er að finna skurðpunkt þar á milli.fiskeldi

Útflutningsverðmætið í 100 milljarða?

Nýsamþykkt tillaga Hafrannsóknastofnunar um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar laxeldis, gerir ráð fyrir að heimilt sé að ala 106 þúsund tonn í sjó hér við land. Vaxi það nærri gildandi áhættumat fiskeldisins, gæti útflutningsverðmæti sjóeldisins orðið nærri 80 milljarðar króna. Auk þessa verðmætis í sjóeldi er á næstu árum stefnt á landeldi á lax, bleikju og öðru fiskeldi fyrir um 15 milljarða króna. Það lætur því nærri að útflutningsverðmæti fiskeldis geti orðið tæplega hundrað milljarðar króna á næstu árum eins og áður var sagt. Gengi þetta eftir verður fiskeldið stór hluti útflutningsverðmæta íslenskra sjávarafurða.

Síðasta ár náði framleiðsla laxa í sjókvíum ríflega 32 þúsund tonnum og hefur 13 faldast frá árinu 2015. Í landeldi nam lax ríflega 2 þúsund tonnum árið 2020. Landeldið gefur nýja möguleika en hafa verður í huga að framleiðslu- og fjárfestingakostnaður landeldis er margfaldur á við kostnað sjókvíeldis. Að auki er talið að kolefnisspor laxeldis á landi sé hærri. Liggur það meðal annars í orku- og landnýtingu ásamt endingartíma eldisstöðva. Engu að síður gætu falist tækifæri í landeldi á landi þó meginframleiðslan á laxi yrði í sjókvíum.

Stórkostleg breyting fyrir landsbyggðina

Byggðastofnun telur að jafnaði hafi mátt rekja um 81 prósent atvinnutekna í fiskeldi til landsbyggðarinnar. Það gefur því auga leið að vaxtarþróun fiskeldis er mikilvæg fyrir atvinnuuppbyggingu landsbyggðar.

Tækni í fiskeldi hefur fleygt mikið fram síðustu ár. Bæði vegna virkrar stefnumótunar stjórnvalda fiskeldisþjóða og aukinnar þekkingar og reynslu fiskeldisfyrirtækja. Hvort tveggja á stóran þátt í mikilli og hraðri framþróun eldisbúnaðar og eldistækni.

Ræktun fisks er í dag orðin stærri hluti sjávarútvegs en fiskveiðar á heimsvísu. Þrátt fyrir að vera öflug sjávarútvegsþjóð höfum við Íslendingar lengi verið eftirbátur annarra í þessari þróun. Á sama tíma óx fiskeldinu ásmegin hjá nágrannaþjóðum okkar við Norður-Atlantshafið. Færeyingar ala nú um 80.000 tonn af hágæðalaxi og hafa náð miklum árangri. Sem fyrr leiða þó Norðmenn þetta starf og hafa fjárfest verulega nú þegar hjá okkur. Það er ánægjulegt en mikilvægt að við náum samhliða tökum á þessari atvinnugrein sem er mikilvæg í hungruðum heimi.