c

Pistlar:

11. maí 2021 kl. 13:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Frakkland: Þriðja skuldugasta ríki heims

Frakkar ganga til forsetakosninga á næsta ári og þó að flestir hallist að því að Emmanúel Macron verði endurkjörin ríkir margvísleg óvissa í frönsku þjóðlífi eins og vikið hefur verið að hér í pistlum upp á síðkastið. Engin vafi er á því að efnahagslegir þættir munu gegna veigamiklu hlutverki í kosningabaráttunni og að sögn Matthew Lynn, pistlahöfundar hjá The Telegraph, er vandi fransks efnahagslífs mikill. Hann bendir á að Frakkland upplifi nú ný tímamót í ríkisfjármálum sínum, tímamót sem kalli á aðgerðir í kjölfar mesta falls í framleiðslu landsins síðan í síðari heimsstyrjöldinni.banmkifrak

Nú eru þeir til sem trúa því að aukning skulda þjóðríkja skipti litlu máli en það er ekki veruleiki sem fjármálaráðherrar og ríkisstjórnir upplifa. Alltaf komi að skuldadögum í einni eða annarri mynd. Frakkland er nú þriðja skuldugasta ríki heims, næst á eftir Bandaríkjamönnum og Japönum. Flestir trúa því að þó að ríkisskuldir Bandaríkjanna séu miklar þá skipti höfuðmáli að Bandaríkjadalurinn er heimsgjaldmiðill og því geti menn „seðlaprentað“ sig út úr vandanum þó enginn sem vill láta taka sig alvarlega leggi það til. Það kemur ekki í veg fyrir að það sé gert. Skuldir Japana eru að mestu við innlenda aðila.

Ofurskuldir Ítala en Draghi er með plan

Það á ekki við um Frakka, þeir ráða hvorki eigin gjaldmiðli og skuldir þeirra eru að stærstum hluta við hið alþjóðlega fjármálamarkað. Meira að segja hinir ofurskuldsettu Ítalir, sem núna búa við hagstjórn Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, eru með skynsamari áætlun að mati Lynn. Draghi er að reyna að keyra upp framleiðslu á Ítalíu sem fór mjög illa út úr kórónuveirunni en ríkisskuldir Ítala eru að ná einstöku hlutfalli, eða 160% af landsframleiðslu. Að sumu leyti eru menn orðnir ónæmir fyrir skuldastöðu ESB-suðursins og sannarlega hefur Ítölum tekist að vefja Evrópska seðlabankanum inn í fjármál sín en með kaupum sínum á skuldabréfum Seðlabanka Ítalíu. Björgunarpakki ESB vegna kórónuveirunnar hefur stöðugt verið að stækka og 17. desember síðastliðin kynnti sambandið stærstu stuðningsaðgerð sína frá upphafi en þá var ákveðið að verja sem svaraði 750 milljörðum evra í aðgerðir vegna veirunnar en heildarumfang aðgerðarinnar er talið um 1,8 billjón evra. Fjármál ESB ríkjanna vefjast stöðugt meira saman með aðstoð seðlaprentunar Evrópska seðlabankans.

Frakkar í gamla farinu

En víkjum aftur að Frökkum. Þeir tóku sem svaraði 211 milljörðum evra að láni á síðasta ári og hafa haldið áfram að auka skuldir sínar á sama hraða á fyrsta ársfjórðungi. Skuldir þeirra nema nú 2,67 billjónum evra. Samsvarandi tölur yfir opinberar skuldir eru 2,64 billjónir hjá Ítölum, 2,3 billjónir hjá Þjóðverjum og 1,3 billjónir hjá Spánverjum. Auðvitað skiptir stærð hagkerfisins máli þegar verið er að meta hina hlutfallslegu stöðu og Frakkar skulda nú sem svarar 115% af landsframleiðslu sinni. Betri staða en hjá Ítölum en flestir eru á því að skuldir yfir 90% af landsframleiðslu sé nálægt því að vera ósjálfbærar. Í nýjustu fjármálaáætlun okkar Íslendinga er miðað við að þær séu 64% af landsframleiðslu hér á landi.

En Matthew Lynn segist hafa áhyggjur af skuldastöðu Frakka. Það þurfi ekki mikið að gerast til að þær skapi verulegan vanda fyrir næst stærsta hagkerfi Evrópusambandsins. Lynn virðist hafa nokkra trú á plani Draghi á Ítalíu eða hann hafi í það minnsta áætlun! Frakkar séu hins vegar á verri stað og efnahagur þeirra í raun fastur í sama farinu. Macron hafi dottið það helst í hug að dæla fjármunum út í eldri starfsgreinar og ekki tekið áhættuna af því að þær næðu að aðlagast í kjölfar kórónuveirunnar sem hefur leikið franskan efnahag hart. Þetta sjáist best á þeim miklu fjármunum sem hafa verið settir í að bjarga flugfélaginu KLM-Air France sem hefur í reynd verið þjóðnýtt. Lyn telur að betra hefði verið að láta markaðinn um að stýra endurröðun flugfélagsins.