c

Pistlar:

16. maí 2021 kl. 10:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kjöraðstæður á hlutabréfamarkaði

Augljóslega eru nú kjöraðstæður fyr­ir fy­ritæki hér á landi að sækja fé á hluta­fjár­markað. Mikið fé er í um­ferð og fjár­mögn­un hluta­bréfa virðist ganga greiðlega fyr­ir sig og útlit er fyrir að árið 2021 verði sögulegt á íslenskum hlutabréfamarkaði. Augljóslega er eft­ir­spurn eft­ir nýj­um kost­um á markaðinum en síðustu ár hefur heldur lítið verið að gerast í kauphöllinni, utan að Icelandair sótti sér nýtt fjármagn síðasta haust og bjargaði þannig tilveru sinni. Fyrr í þessari viku lauk vel heppnuðu útboði Síldarvinnslunnar þegar sex þúsund og fimm hundruð áskriftir bárust fyrir um 60 milljarða króna. Niðurstaða sem er með ólíkindum og sýnir glögglega að mikið fé er í umferð um leið og það markar athyglisverða komu sjávarútvegsfyrirtækis inn í kauphöllina.kaupo

Í Morgunblaðinu í gær er farið yfir þessa breytingu og rætt við forstjóra Kauphallarinnar, Magnús Harðarson. Hann segir að leita þurfi allt aftur til ársins 2000 til að finna sambærilegan áhuga fyrirtækja á að skrá bréf sín á markað. „Við náðum ákveðnum toppi um aldamótin þegar 10 félög komu ný inn á markaðinn og markaðurinn taldi þá alls 75 félög. Að sumu leyti tel ég að árið í ár sé það mest spennandi á markaðnum frá aldamótum,“ segir Magnús. Já, það þykja sjálfsagt mörgum tíðindi ef við íslendingar erum nú að hefja flugtakið á hlutabréfamarkaði í líkingu við það sem var eftir aldamótaárið og lauk með bauki og bramli árið 2008.

Risaútboð Íslandsbanka

Fyrir nákvæmlega átta árum ritstýrði sá er þetta skrifa sérstöku kauphallarblaði þar sem reynt var að meta hvaða fyrirtæki ættu möguleika á skráningu. Satt best að segja hefur gengið fremur hægt að skrá félög en nú eru horfur á að verði breyting á ef taka má mark á væntingum kauphallarfólks. Í júní næstkomandi er von á hlutafjárútboði Íslandsbanka þar sem bjóða á til sölu 25-35% hlut í bankanum. Eigið fé bankans er nú 185,5 milljarðar króna. Morgunblaðið veltir fyrir sér að ef bankinn verður metinn á eina krónu á móti eigin fé yrði stærð útboðsins á bilinu 60-70 milljarðar króna. „Útboð Íslandsbanka verður sannkallað risaútboð og verður með þeim allra stærstu í sögu Kauphallarinnar,“ segir Magnús en önnur útboð af sambærilegri stærð á nýliðnum árum eru útboð á bréfum Marels og Arion banka.

Mörg félög í startholunum

Þá er ekki langt síðan Morgunblaðið greindi því að tölvuleikjafyrirtækið Solid Clouds einnig á hlutafjárútboð og skráningu á First North-markað kauphallarinnar. Enn fremur hefur flugfélagið Play lýst því yfir að það vilji safna 20 milljónum bandaríkjadala, eða um 2,5 milljörðum króna, í hlutafjárútboði í júní og skrá hlutina á First North-markaðinn. Þetta eru eftirtektarverð tíðindi en oft er það svo að íslenskir fjárfestar hugsa út fyrir landsteinanna, nú eða jafnvel selja félög sín áður en þau komast á flug. Fyrirtæki eins og Össur og Marel gátu nýtt sér skráningu til að sækja hlutafé, sameinast og styrkjast og teljast nú til alþjóðlegra fyrirtækja. Gaman væri ef álíka félög næðu sér á strik núna en hér hefur áður verið lýst eftir skemmtilegum félögum! Þó greinin minni einnig á að ekki eru allar ferðir til fjár.

Magnús segir að auk framangreindra fyrirtækja sem eru á leið í Kauphöllina sé ýmislegt kraumandi undir niðri. „Ég man ekki eftir jafn mörgum samtölum um skráningu síðan ég byrjaði í Kauphöllinni fyrir nítján árum. Við eigum í uppbyggilegum viðræðum við nokkur félög sem mögulega koma á markað á þessu ári eða því næsta.“ Já, það eru horfur á áhugaverðum tímum í Kauphöllinni sem mun hafa mikil áhrif um allt hagkerfið.