c

Pistlar:

18. maí 2021 kl. 10:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Dráp og pyntingar í Venesúela

Ekkert lát er á þeirri neyð sem ríkir í Venesúela en landið þarf á mikilli aðstoð að halda þar sem milljónir landsmanna geta ekki nálgast grunnþjónustu og fullnægjandi næringu. Þá hefur takmarkaður aðgangur að öruggu vatni á heimilum og heilsugæslustöðvum stuðlað að útbreiðslu kórónuveirunnar (Covid-19). Ástandið í Venesúela er eitthvert það alvarlegasta sem þekkist í heiminum þó alla jafnan sé það utan kastljós fjölmiðla en um það hefur verið fjallað oft hér í pistlum.

Í september fór rannsóknarnefnd, sem skipuð var af mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (HRC), til Venesúela til að framkvæma skoðun á ástandi mála. Skemmst er frá því að segja að nefndin sagði yfirvöld bera ábyrgð á voðaverkum sem hún taldi jafngilda glæpum gegn mannkyninu. Ríkisstjórn Nicolás Maduro og öryggissveitir hennar bera ábyrgð á aftökum utan laga og skipulegum mannshvörfum og hafa auk þess dæmt andstæðinga í fangelsi, sótt óbreytta borgara til saka fyrir herdómstólum, pyntað fanga og tekið hart á mótmælendum. Maduro-stjórnin notaði neyðarástand, sem var hrint í framkvæmd til að bregðast við Covid-19, sem afsökun til að refsa fyrir alla pólitíska andstöðu og festa þannig ógnarstjórn sína á íbúunum í sessi.maduromask

Dráp og pyntingar

Á árunum 2016 til 2019 drápu lögreglu- og öryggissveitir meira en 19.000 manns og var það skráð sem „andspyrna gegn valdi,“ í bókum yfirvalda. Skrifstofa mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (OHCHR (UN Office of the High Commissioner for Human Rights (OHCHR)), sem rýnir í heimildir og gögn um þetta, komst að því að 2.000 einstaklingar hefðu verið drepnir í öryggisaðgerðum yfirvalda á tímabilinu janúar til ágúst 2020. Margir þessara dauðsfalla tengjast aftökum utan laga og réttar, samkvæmt OHCHR.

Í júlí á síðasta ári tilkynnti OHCHR 16 tilvik um meintar pyntingar og illa meðferð frá júní 2019 til maí 2020 og sögðu að raunverulegur fjöldi gæti verið „verulega hærri“. Þessi tilvik fela í sér alvarlegar barsmíðar, köfnun með plastpokum og efnum, vatnsbretti, rafstuð í augnlok og kynfæri, fólk skilið eftir berskjaldað fyrir kulda og stundum handjárnað í lengri tíma. Í sumum tilvikum gáfu læknar út fölsuð eða ónákvæm læknisvottorð sem sýndu þá engin merki um pyntingar.

Pólitísk blindgata

Venesúela hefur verið í pólitískri blindgötu síðan Juan Guaidó, forseti þingsins, hélt því fram að hann tæki við völdum sem bráðabirgðaforseti Venesúela í janúar 2019. Þrátt fyrir yfirlýsinguna og stuðning við hana víða hélt Maduro áfram að stjórna öllum stofnunum landsins nema löggjafarvaldinu. Í júlí, fyrir þingkosningar sem fyrirhugaðar voru í desember 2020, heimilaði Hæstiréttur yfirtöku stuðningsmanna Maduro-stjórnarinnar á þremur leiðandi stjórnarandstöðuflokkum og skipaði stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem yfirmenn landskjörstjórnar (CNE). Stuðningsmenn Maduro unnu síðan tvo þriðju þingsæta á þinginu í kosningum sem haldnar voru 6. desember en þær voru sniðgengnar af meirihluta stjórnarandstöðuflokkanna. Innan við þriðjungur skráðra kjósenda tók þátt. Margar ríkisstjórnir í S-Ameríku og Evrópu sögðu kosningarnar ekki hafa uppfyllt lágmarksskilyrði til að teljast frjálsar og sanngjarnar.madurorust

Ofsóknir á ofsóknir ofan

Flótti fólks frá Venesúela, sem flýr kúgun og skort á mat, lyfjum og lækningavörum er stærsta fólksflutningskreppa í seinnitímasögu Suður-Ameríku. Erfiðleikar við að fá viðurkennda stöðu flóttamanns í öðrum löndum og efnahagsþrengingar vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu Covid-19 hafa leitt til þess að um það bil 130.000 þeirra hafa snúa aftur heim frá því í mars 2020. Þeir sem snúa til baka verða fyrir ofsóknum.

Mannréttindasamtök segjast hafa viðvarandi áhyggjur vegna hrottalegra lögregluaðgerða, lélegar aðstæðna í fangelsum landsins, refsileysi vegna mannréttindabrota, skorts á sjálfstæði dómstóla og ofsóknir gagnvart talsmönnum mannréttinda og óháðum fjölmiðlum.

5,5 milljón manna flúið Venesúela

Um 5,5 milljónir af áætluðum 32 milljónum íbúa Venesúela hafa flúið land sitt síðan óöldin hófst árið 2014, að því er Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna greindi frá í október. Þessar tölur eru ófullkomnar og ljóst að margir Venesúelamenn erlendis eru ekki þarna meðtaldir. Orsakir fólksflóttans eru pólitískar, efnahagslegar, alvarleg brot á mannréttindum og skortur á mannúð í þessu margyfirlýsta ríki sósíalista.

Margir Venesúelamenn erlendis eru áfram í erfiðri stöðu sem grefur undan getu þeirra til að fá atvinnuleyfi, senda börn í skóla og fá aðgang að heilbrigðisþjónustu. Um leið eru flóttamennirnir í viðkvæmri stöðu gagnvart misnotkun hverskonar.

Lokanir stjórnvalda til að hemja útbreiðslu Covid-19 hafa valdið því að farandfólk missir vinnuna og um það bil 130.000 þeirra hafa farið aftur til Venesúela þó ferðin sé erfið og flestir þurfi að ferðast gangandi. Í Venesúela hefur þeim sem koma til baka verið haldið, oft í margar vikur, í yfirfullum, óheilnæmum sóttvarnamiðstöðvum sem líklega stuðla að frekari útbreiðslu Covid-19. Yfirvöld og vopnaðir hópar, sem kallaðir eru colectivos, hafa hótað og áreitt þá sem snúið hafa til baka og oft misþyrmt þeim.venefat

Kerfisbundnar pólitískar handtökur

Ríkisstjórn Venesúela hefur fangelsað pólitíska andstæðinga og meinað þeim að bjóða sig fram til starfa. Hinn 30. september voru 348 pólitískir fanga í fangelsi eða í höndum leyniþjónustunnar, samkvæmt Penal Forum, samstarfshópi lögfræðinga í Venesúela sem veita ákærðu aðstoð þeim að kostnaðarlausu.

Í ágúst tilkynnti Maduro um náðun 110 pólitískra fanga, en innan við helmingur þeirra hafði verið fangelsaður vegna pólitískra starfa, að því er Penal Forum greindi frá, og sumir höfðu ekki verið ákærðir. Margir aðrir eru áfram í farbanni að geðþótta yfirvalda eða hafa sætt handahófskenndri handtöku og verið saksóttir í framhaldi þess. Sumir hafa verið neyddir í útlegð, þar á meðal Leopoldo López stjórnarandstæðingur, sem flúði í október. López hafði verið dæmdur í 13 ára fangelsi eftir órökstuddar ákærur fyrir að hvetja til ofbeldis meðan á mótmælum stóð gegn stjórnvöldum árið 2014 og sat árum saman í herfangelsi og stofufangelsi. Vargöldin í Venesúela virðist engan enda ætla að taka.