c

Pistlar:

21. maí 2021 kl. 21:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hversu umhverfisvænt er íslenska kvótakerfið?

Í nýrri skýrslu um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi (sem virðist ætla að fá furðu litla umfjöllun) kemur fram að íslensk stjórnvöld leggja mikla áherslu á að draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda í fiskveiðum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess en áður hefur verið vikið að góðum árangri við að draga úr olíunotkun fiskveiðiflotans hér í pistlum. Í nýlegu viðtali við Eyjafréttir segir dr. Stefán B. Gunnlaugsson, dósent við Háskólann á Akureyri, að íslenska kvótakerfið sé umhverfisvænt en ekki er langt síðan hann varði doktorsritgerð sína um íslenskan sjávarútveg.ofveiði

Það blasir við að fyrirtæki í sjávarútvegi hafa staðið sig vel í þessum málum og náð markverðum árangri í að draga úr olíunotkun. Alkunna er að olíunotkun íslenskra fiskiskipa hefur dregist saman um 45% frá 1990 til 2017. Betra fiskerí, fækkun skipa og betri nýting stuðlar að þessu segir dr. Stefán. Tækifæri er þó til að gera betur þó enn umtalsverð segir í skýrslunni en vissulega er það ákveðnum takmörkunum háð hve langt er að ganga í orkuskiptum eða orkunýtingu fiskiskipa. Þótt það sé tæknilega mögulegt að knýja fiskiskip með öðrum orkugjöfum en jarðefnaeldsneyti, þá eru ýmsar takmarkanir enn í vegi slíkrar umbreytingar sem vonandi verður rutt úr vegi á allra næstu árum. Þá hafa tæknibreytingar leitt til betri nýtingar á sjávarafurðum sem er stórt umhverfismál þar sem komið er í veg fyrir sóun með aukinni tæknivæðingu. Eitt það athyglisverðasta við íslenskan sjávarútveg er sú mikla nýsköpun og sá frumherjakraftur sem þar er að finna.

Dregur úr álagi á vistkerfið

Stjórnkerfi fiskveiða hefur haft áhrif á alla virðiskeðju íslensks sjávarútvegs. Bætt gagnasöfnun og skipulag hefur auðveldað sjávarútvegsfyrirtækjum að stýra veiðum þannig að fiskur er veiddur á þeim árstíma og svæðum þar sem gæði hans eru mest og markaðsaðstæður hagkvæmastar. Samfara minni sókn til að ná sama afla hefur dregið úr álagi veiða á vistkerfið sem dregur olíunotkun eins og áður sagði og með því úr kolefnisspori sjávarútvegs.

Losun í sjávarútvegi er stór hluti af þeirri losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda og til að markmið stjórnvalda um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og kolefnishlutleysi geti gengið eftir, er mikilvægt að fyrirtæki í sjávarútvegi dragi úr sinni losun. Neytendur víða um heim hafa á undanförnum árum lagt æ meiri áherslu á umhverfismál, ekki síst lágt kolefnisspor matvæla, og rannsóknir sýna að losun við fiskveiðar og fiskeldi er minni en við framleiðslu á flestu kjöti. Sú staðreynd styrkir íslenskan sjávarútveg og fiskeldi gagnvart framleiðendum annarrar matvöru. Kolefnisspor við íslenskar þorskveiðar virðist einnig vera lágt og það styrkir stöðu sjávarútvegs enn frekar.

Kröfur neytenda

Ein er sú krafa sem sjávarútvegurinn getur ekki hundsað og neytendur framtíðarinnar munu gera auknar kröfur um öryggi og hollustuhætti í matvælaframleiðslu, sem og um að rétt sé hugað að sjálfbærni og umhverfismálum í allri virðiskeðju sjávarafurða. Neytendur vilja borða hreinan mat og gera mikla kröfur til öryggis og hreinlætis og rekjanleika - þeir vilja vita hvaðan afurðirnar koma. Hér liggja tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg.

„Hlutfallslega lágt kolefnisspor sjávarafurða miðað við kjöt og góður árangur íslensks sjávarútvegs í að minnka það enn frekar gæti nýst við markaðssetningu og styrkt samkeppnisstöðu íslensks sjávarfangs á erlendum mörkuðum,“ segir í skýrslunni.