c

Pistlar:

23. maí 2021 kl. 22:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Jöfn tækifæri og örlögin

Eitt af því mikilvægasta sem hvert samfélag þarf að huga að er tryggja öllum tækifæri. Að samfélagið og þjóðfélagið allt sé þannig að allir hafi tækifæri til að komast til þroska óháð uppruna eða félagslegri aðstöðu. Það gerum við með því að reka skóla og aðrar stofnanir og tryggja að fólk frá efnaminni heimilum geti stundað langskólanám kjósi það svo. Nú eða komist til þroska á þann hátt sem það kýs. Til þess að þetta sé unnt rekum við meðal annars Lánasjóð íslenskra námsmanna og hægt er að fara í gegnum skólakerfið án þessa að greiða há skólagjöld. Á fræðimannamáli er þetta kallað félagslegur hreyfanleiki, að fólk geti bætt stöðu sína með dugnaði og hæfileikum standi hugur þess til þess en sé ekki bundið á klafa stéttar eða efnahags. Undir niðri er þó alltaf hugsunin að hver sé sinn gæfu smiður. Auðvitað er erfitt að tryggja að allir geti nýtt hæfileika sína og lifað góðu og innihaldsríku lífi. Sjúkdómar, fíkn og margvísleg áföll geta komið í veg fyrir það. Sumt er á valdi fólks en stundum grípa örlögin inní líf þess.gamalt

Íslenskt samfélag hefur breyst gríðarlega á síðustu hundrað árum eða svo, aðstæður og efnahagur fólks í dag er alsendis ólíkur því sem áður var. Helstu áskoranir heilbrigðiskerfisins lúta að lífsstílssjúkdómum sem eru ansi langt frá þeim veruleika sem blasti við til dæmi afa og ömmu minni. Um leið og unga fólkið í dag hefur gríðarleg tækifæri til að fræðast og lifa innihaldsríku lífi eru tímaþjófarnir margir, og sumir reynast þeir hættulegir sálarheill unga fólksins okkar. Hóplíf samfélagsmiðlanna og einangrun tölvuleikjanna eru ekki alltaf heppilegir förunautar í uppeldi ungs og viðkvæms fólks. Það staðfestist þegar við lesum að bráðainnlögnum á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans hefur fjölgað um 80 prósent á einu ári. Tilvísunum vegna sjálfsvígshugsana og sjálfsvígstilrauna ungmenna fjölgar einnig hratt. Við öll hljótum að velta fyrir okkur hverju þetta sætir.

Átthagafjötrarnir eru trosnaðir

En breytingarnar á samfélaginu eru ótrúlegar eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson skáld og fjölmiðlamaður rekur skemmtilega í pistli í Fréttablaðinu um helgina. Hann bendir á þær einstöku breytingar sem hafa átt sér stað á einni öld og sækir dæmi úr eigin fjölskyldu. „Við höfum flust úr afskekktustu sveitum landsins – og þaðan í kaupstaðinn, síðar borgina og að lokum út í heim. Við veljum okkur íverustaði til frambúðar eftir menntun okkar og áhugamálum, atvinnutækifærum og ástinni sem er farin að leiða okkur um allar álfur. Átthagafjötrarnir eru trosnaðir – og gamla taugin sem rakka dró föðurtúna til, er ekki lengur jafn römm og áður.

Við höfum skipt út einangrun fyrir alheiminn – og lítum á það sem sjálfsagt mál að geta sótt okkur skemmtun og menntun, vinnu og verkefni um alla jarðarkringluna. Og það helst í beinu flugi, en ekki fótgangandi yfir heiðar og dali eins og forfeðra okkar beið ef þeir vildu bregða sér af bæ,“ skrifar Sigmundur Ernir og bendir á að alla sína búskapartíð héldu afi hans og amma, gömul hjón af Ströndum, sig heima. „Þau fóru aldrei til útlanda. Það var bara ekki til siðs. Þau höfðu ekki erindi þangað. Og þar með var það útrætt. Afi minn og amma. En þau fóru eitt sinn í tjaldútilegu í Atlavík,“ skrifar Sigmundur Ernir sem fyrir nokkrum árum var með þáttaröð sem hét Örlögin. Þar ræddi hann við venjulegt fólk sem ratað hafði í óvenjulegar aðstæður í lífi sínu, brotlent svo að segja, en náð að rísa upp að nýju. Þannig geta örlögin leikið marga grátt og að rekja þetta er stór hluti þeirrar sögu sem fjölmiðlar eru að segja.gamalt2

Sagan um ferðina frá örbyrgð til alsnægta

Í nýlegri umræðu á Facebook mátti lesa ábendingu um að það sé verðugt rannsóknarefni að skoða för okkar frá örbyrgð til alsnægta. „Amma mín var lánuð milli bæja og stundum í höfuðborgina. Hún ól ein upp tvo drengi sem báðir börðust til efna og náðu því að eignast bæði fullt af börnum og efnuðust líka.“ Margir tóku undir þetta og annar þátttakandi í umræðunni sagði: „Mér finnst allt of lítið gert af því þessi misserin að minna á allt það fólk, sem braust af fádæma elju og þreki úr fátækt, iðkaði borgaralegar dygðir og gerði skyldu sína við foreldra sína og börn.“ Þessi saga er ekki mikið sögð en er þó stór hluti af mörgum endurminningabókum eins og vikið hefur verið að hér.

Við erum mörg sem undrumst þessa breytingu og veltum einmitt fyrir okkur hvort fólk taki henni sem sjálfsögðum hlut, muni ekki þá miklu vinnu sem fór í það hjá foreldrum okkar og foreldrum þeirra að byggja upp velferðarkerfi nútímans. Og sannarlega eru tímarnir aðrir og tækifæri ungs fólks virðast nánast endalaus, ef heilsa og gæfa leyfir. Í dag er heimurinn allur eitt þorp og ferðastoppið sem við höfum öll orðið að þol síðasta árið minnir okkur bara á hvað við ferðuðumst mikið áður fyrr. Svo virðist sem margir telji kost sinn þröngan en erum við þá ekki búin að gleyma því hvernig afar okkar og ömmur höfðu það fyrir ekki svo löngu síðan?