c

Pistlar:

31. maí 2021 kl. 21:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Atvinnuþróun og stærri myndin

Í skýrslu Viðskiptaþings 2021, sem Viðskiptaráð gefur út, er vikið að skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey, Charting a Growth Path for Iceland, sem kom út árið 2012 og hefur haft mikil áhrif á stefnumótun Viðskiptaráðs og atvinnulífsins og reyndar einnig hjá stjórnvöldum. Óhætt er að fullyrða að til þeirrar skýrslu hafi verið mikið vitnað og hún gjarnan ratað inn í ræður stjórnmálamanna þegar hefur átt að ræða stefnumörkun í atvinnumálum. Stundum finnst manni hins vegar að skýrslan byggist á of mikilli afmörkun og sjá ekki með öllu stærri myndina í mögulegri atvinnuþróun.fyrirt

Í skýrslu McKinsey var rík áhersla lögð á að vöxtur alþjóðageirans væri forsenda sjálfbærs hagvaxtar hér á landi til langs tíma. Á þeim tímamótum horfðu í raun fáir til þeirra miklu breytinga sem voru að eiga sér stað á ferðaþjónustunni sem nánast ruddist framfyrir í röðinni og gerði sig að þriðju stoðinni undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Alþjóðageirinn og iðnaðurinn var skilin eftir að hluta til og þessi uppgangur ferðaþjónustunnar hefur gert marga hagfræðinga hálf undrandi og þeir virðast stundum eiga erfitt með að sætta sig við þann vöxt sem varð í ferðaþjónustunni. Þannig hafa þeir sumir hverjir aldrei getað horft ferðaþjónustuna réttum augum og tala um að hún framleiði láglaunastörf öðru fremur. Sem er rangt. Höfum í huga að frá 2010 til 2018 jókst útflutningur mikið eða um 57% að raunvirði, að langmestu leyti vegna ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan hefur skapað mörg störf og góð laun fyrir marga enda fólk sótt inní hana sem hefði vel getað gert sig gildandi annars staðar. Fólk endar ekki í ferðaþjónustunni vegna grimmra örlaga heldur velur sér þá leið.

Vantar 500 milljarða

Í kjölfarið skýrslu McKinsey setti Samráðsvettvangur um aukna hagsæld fram tillögur þar sem einnig var lögð áhersla á alþjóðageirann sem drifkraft hagvaxtar eins og bent er á í áðurnefndri skýrslu Viðskiptaþings. Nú kveður við alvarlegan tón og bent er á að nú, nær áratug síðar, hafa þau markmið ekki gengið eftir. Það lýsir sér hvað best í að árlegur vöxtur útflutningsverðmæta í alþjóðageiranum hefur verið tæplega 3% en hefði þurft að vera um 10% til að metnaðarfullar áætlanir McKinsey gengju eftir. Staðan er sú að árið 2020 vantaði um 500 milljarða króna útflutningstekjur til að markmiðið næðist. Heimsfaraldurinn skekkir þá mynd en minnir okkur jafnframt á hve berskjaldað hagkerfið er fyrir ytri áföllum. Ekki síst þess vegna þarf að byggja undir fjölbreyttari stoðir útflutnings.

Hvað á Viðskiptaráð við þegar talað er um alþjóðageirann? Það er í einföldustu mynd sá útflutningur sem telst ekki til landbúnaðar, stóriðju, sjávarútvegs eða ferðaþjónustu, en þær greinar flokkast undir auðlindageirann. Megnið af alþjóðageiranum er borið uppi af hugvitsdrifinni starfsemi og því er stundum talað um hugverkageira eða -iðnað. Stundum finnst manni örla á elítu-isma í þessari atvinnuvegagreiningu. Er til dæmis mikilvægara að þróa tölvuleiki en framleiða mat eins og í gegnum fiskeldi?

Án takmarkana

Alþjóðageirinn var eins og áður sagði fyrst kynntur til leiks í skýrslu McKinsey, Charting a Growth Path for Iceland. Þar voru færð rök fyrir mikilvægi þess að skapa öflugan alþjóðageira.
Helsta ástæðan er sögð vera sú að þar með séu engin takmörk á þeim verðmætum sem skapa má. Til samanburðar er verðmætasköpun tengd náttúruauðlindum sögð vera takmörkuð í eðli sínu. Helstu atvinnugreinar auðlindageirans standa því frammi fyrir vaxtarskorðum í framtíðinni segir í skýrslunni. Í slíkum greinum eru möguleikar fremur fólgnir í auknum gæðum en magni. Hugsanlega er það rétt. Hér hefur verið vikið að því að verðmætasköpun í sjávarútvegi getur margfaldast, meðal annars með betri nýtingu og auknum gæðum. En einnig með aukinni framleiðslu eins og birtist í fiskeldi þar sem í raun er verið að stunda vöruþróun byggða á þekkingu sem notast við náttúrugæði. Vöruþróunin byggist hins vegar að mestu á aukinni þekkingu í samspili við markaðsstarf og nýtingu atvinnutækja.

Eitt útilokar ekki annað

En Viðskiptaráð er ekki búið að gefast upp á þeirri hugmynd að alþjóðageirinn taki auðlindageiranum fram. Það er í þessu ljósi sem alþjóðahópur Viðskiptaráðs leggur nú fram tillögur í 22 liðum um hvernig megi stuðla að því að byggja upp alþjóðageirann. Tillögurnar eru fjölbreyttar og endurspegla að margt þarf að ganga upp samtímis til að alþjóðgeirinn geti vaxið með krafti. Einnig snúa þær að mörgu leyti almennt að rekstrarumhverfi fyrirtækja, sem nýtist því vel fyrirtækjum í auðlindageiranum og á innlendum markaði sem standa ekki síður frammi fyrir kröftum alþjóðlegrar samkeppni.

Stóra málið er þó að sett verði fram heildstæð stefna um hugvitsdrifinn útflutning sem stjórnvöld, viðskiptalífið og menntakerfið geta sameinast um þá verði í grunninn að notast við auðlindir og hugvit og fjárfestingar sem byggðist upp í kringum þær. Höfum hugfast að eitt útilokar ekki annað.