c

Pistlar:

9. júní 2021 kl. 17:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flateyri horfir fram á veginn

Það er upplifun að ferðast um Vestfirðina. Í senn undrast maður stórbrotna náttúruna sem er að taka við sér um leið og skammvinnt sumar er framundan, sumar sem verður að duga íbúum Vestfjarða til að safna í forða fyrir næsta vetur. Fuglar himinsins hamast við að koma upp ungum og safna orku fyrir vetrarstöðvarnar. Gróðurinn dafnar og búsmalinn fær langþráða útiveru, sama á við um mannfólkið. Það er einnig hægt að undrast það mannlíf sem þarna fær þrifist og ýmist virðist vera að gefa eftir eða sækir i sig veðrið. Vestfirðirnir eru ansi margir og staðirnir líka, allstaðar má finna merki um byggð fyrri ára og margt að skoða. Pistlaskrifari kom til dæmis í fyrsta skipti til Flateyrar og var einhverra hluta vegna með hugann við þær miklu hamfarir sem þar urðu fyrir tæplega þremur áratugum. Þær nánast grönduðu byggðinni allri og sumir töldu rétt að kasta inn handklæðinu og leggja af fasta búsetu. Sem betur fer varð ekki af því en vitaskuld er vandasamt að tryggja byggð þarna. Vonandi að nýjar atvinnugreinar, svo sem fiskeldi og ferðamennska, nái að gera það í bland við aðrar greinar.

En byggðin lagðist sem betur fer ekki af og nú reyna að heimamenn í bland við annað að lokka til sín ferðamenn. Sofið var í Símstöðinni sem nú bíður upp á gistirými og fyrirtækjahótel. Einn starfsmaður þar sagðist halda að 7% íbúa staðarins væru á fyrirtækjahótelinu. Með fylgdi glott en íbúar eru innan við 300 talsins og þegar svo er komið er erfitt að halda úti sjálfbæru samfélagi. Það má þó víða finna von, hús hafa verið gerð upp og önnur bíða endurnýjunar, dugmikið fólk annars staðar af landinu styður við þá sem eru fyrir, sumir með rætur í samfélaginu. Lýðháskólinn á Flateyri virkar hálf undarlega staðsettur en hefur gert sitt til að lyfta bæjarbragnum. Þrátt fyrir allt virðist margt ungt fólk vilja dvelja þar vetrarlangt og stunda nám.vagnin

Mannlífið blómstrar

Nú þegar sumarið er gengið i garð þá hafa nýir íbúar lagt leið sína til Flateyrar. Við snæddum á Vagninum og nýir vertar boðuð að innan skamms yrði þar boðið upp tapasrétti eða um leið og spænsku kokkarnir eru lausir úr sóttkví! Þarna blómstrar mannlíf og auglýsingar um tónleika blasa við, gott ef stórsöngvarinn Valdimar er ekki á leiðinni en hann er nú á ferðalagi um landið. Við komum við á kaffistaðnum Bryggjukaffi og fengum heimilislega þjónustu og uppi á vegg héngu nýleg málverk eftir heimamann, bara nokkuð nostursamlega gerð. Allir virtust glaðir og ánægðir og reyndu að þjónusta sem best. Það var merkileg upplifun að labba inn í gömlu Bókabúðina og fara nánast öld aftur í tímann. Verslunarmaðurinn virtist áhugsamari um söguna en að selja vörur. Allt nánast óbreytt og íbúð afa hans og ömmu er óhreyfð til hliðar við búðina, þar gat maður skoðað íslenskt heimili eins og það var í upphafi 20. Aldarinnar, einstök sýning og ekki annað hægt en að hvetja fólk til að skoða þetta merkilega safn. Eignirnar höfðu verið afhentar til varðveislu en þartilbær yfirvöld gáfust upp á verkinu og skiluðu eignunum. Nú er það í höndum einkaaðila að tryggja varðveisluna.flat2

Fiskeldi veitir nýja von

Þegar grannt var skoðað þá kom í ljós að Símstöðin hafði verið við jaðar snjóflóðsins mikla sem teygði sig ótrúlega langt niður í bæ með eyðileggingarmátt sinn. Einhverra hluta vegna slapp kirkjan en auð svæði eru nú þar sem flóðið rann, risastór varnargarður fyrir ofan byggðina breytti öllu landslagi. Þegar til átti að taka var hann ekki nógu stór, áfram þarf að huga að vörnum á Flateyri. Það er skylda okkar allra að tryggja að þær verði í lagi.

Fyrir utan gistiheimilið unnu færeyskir handverksmenn í akkorðsvinnu langt fram á kvöld við að setja saman sjókvíar. Fiskeldið er að halda innreið sína á Flateyri og er að breyta öllu atvinnulífi þarna vestra. En til þess að byggðirnar nái vopnum sínum þarf að tryggja að innviðir séu í lagi. Ég mun víkja að því í næsta pistli.