c

Pistlar:

10. júní 2021 kl. 17:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hákarlalýsi og sauðasala sköpuðu auðinn

Þegar gengið er um götur Flateyrar sést að elstu húsin eru undantekningalaust byggð af hákarlaskipstjórum. Augljóst er að á seinni helmingi 19. aldar hafa hákarlaveiðar skapað mikla atvinnu á þessum slóðum og hagnað sem gerði mönnum kleift að byggja ágætlega myndarleg hús. Í bókinni Sjósókn og sjávarfang eftir Jón Þ. Þór sagnfræðing segir að á 17. og 18. öld hafi Vestfirðingar og Norðlendingar verið mestir hákarlaveiðimenn hér á landi. Veiðarnar náðu svo hámarki á 19. öldinni þegar þilskip komu til sögunnar auk áraskipanna. Fyrsta þilskipið kom til Flateyrar 1815 sama ár og Vínarfundurinn stillti af Evrópu eftir Napóleonsstyrjaldirnar. Upphaflega var þilskipunum trúlega ætlað að veiða þorsk og hákarl jöfnum höndum en þegar kom fram yfir 1830 voru hákarlaveiðarnar orðnar burðarás þilskipaútgerðarinnar. Olli þar mestu að verð á lýsi hækkaði hlutfallslega gagnvart fiskverði.flat1

Lifrin úr hákarlinum var brædd í landi og lýsið flutt út og notað sem ljósmeti til að lýsa upp borgir Evrópu. Lýsisverðið hækkaði ár frá ári vegna aukinnar eftirspurnar. Hákarlaveiðarnar gáfu mikinn og skjótfengan gróða og sköpuðu fyrsta umtalsverða uppgangsskeiðið í sögu íslensks sjávarútvegs á síðari öldum, segir Jón Þ. Þór í bók sinni. Þegar best lét gátu eigendur þilskipanna greitt kaupverð skipanna eftir eina vertíð. Margir tugir þilskipa stunduðu þessar veiðar. Þessa sögu má sjá þegar gengið er um götur Flateyrar en vikið var að bænum í síðasta pistli. Þar sést líka að fyrsta steypta húsið í bænum var byggt árið 1922 og var það bakarinn sem stóð að því en húsið hýsti bakaríið og heimili bakarans. En þá höfðu hákarlaveiðar að mestu liðið undir lok. Ekki þurfti lengur hákarlalýsi til að lýsa upp borgir Evrópu. Eyfirðingar segja gjarnan sögur af Hákarla-Jörundi sem gerði út frá Hrísey og var bæði fengsæll og kynsæll. Honum græddist mikið fé af veiðunum og gerði á tímabili út nokkur skip til hákarlaveiða.flat2

Sauðasala til Englands

En um svipað leyti og hákarlaveiðar voru í hvað mestum blóma hljóp á snærið hjá bændum landsins þegar sauðasala hófst til Englands. Sú sala stóð í á þriðja áratug og varð þess valdandi að margir bændur fengu greitt í beinhörðum gjaldmiðli í fyrsta sinn á ævinni. Í ævisögu Bjargar Þorláksdóttur, sem varð fyrst íslenskra kvenna að klára doktorsgráðu, kemur fram að foreldrar hennar gátu fjármagnað nám hennar vegna hagnaðar af sauðasölu.

Sauðasalan var á tímabili mjög umfangsmikil, eitt árið voru sent úr landi 80 þúsund fjár. Víða komust jarðir aftur í byggð vegna þessa og sauðasalan hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag og er stofnun kaupfélaga rakin til hennar. Lög sem sett voru í Bretlandi árið 1896 bundu endi á þessa sölu en þá var bannað að flytja inn lifandi fé en breskir bændur höfðu gjarnan tekið sauðina og fitað þá fram að slátrun. Lok sauðasölunnar var mikið áfall víða og olli kreppu í landbúnaði á Íslandi.

Þessi tvö dæmi úr atvinnusögu okkar Íslendinga gleymast oft þegar saga landsins er rakin. Þrátt fyrir erfiðleika og óáran gátu dugmiklir einstaklingar nýtt sér aðstæður og glugga sem opnuðust á hinum fjárlægu mörkuðum. Þá sem nú skiptir máli að fólk nýti sér tækifæri og hafi athafnafrelsi til þess eins og var með þá sem seldu sauði og veiddu hákarl og efnuðust af því.