c

Pistlar:

14. júní 2021 kl. 0:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Uppgangur á Vestfjörðum

Eins og lesendur þessara pistla hafa orðið varir við þá ferðaðist pistlahöfundur um Vestfirði fyrir stuttu og hef verið upptekin af þessum hluta landsins síðan. Leið lá um Hólmavík, inn í Ögurvík í Djúpinu þar sem gist var í tvær nætur. Þaðan var farið inn á Ísafjörð og bærinn skoðaður og síðan yfir á Flateyri þar sem gist var. Þaðan lá leiðin um nýju Dýrafjarðargöngin upp á Dynjandisheiði og niður að Bíldudal. Þaðan var farið yfir til Patreksfjarðar og síðan yfir í Flókalund þar sem gist var en nú eru 32 ár síðan pistlaskrifari gisti þar síðast. Þokkaleg hraðferð að þessu sinni en sumir samferðamenn voru að sjá suma þessa staði í fyrsta sinn.bildudalur

Það er einstakt að koma á Vestfirðina. Landslagið er tilkomumikið, náttúran fögur og mannlífið og sagan áhugaverð. Ósjálfrátt byrjar maður að hugleiða hvernig búseta hafi verið áður fyrr og á hvaða hátt hún verði tryggð áfram þannig að íbúar Vestfjarða geti notið þessara einstöku heimkynna og lifað um leið við sömu kjör og tækifæri og aðrir landsmenn. Nú bregður svo við að uppgangur er í atvinnulífinu á Vestfjörðum með tilkomu fiskeldis. Bíldudalur er líklega einn mesti uppgangsstaður landsins, þar sem unnið er að mikilli hafnargerð, verið að stækka kalþörungaverksmiðjuna og miklar framkvæmdir vegna fiskeldis. Það á líka við um Tálknafjörð og Patreksfjörð en þar er fiskeldi einnig í örum vexti og stærstu hús Vestfjarða eru risin á Tálknafirði en þau eru notuð undir seiðaeldi. Hinar risastóru sjókvíar sem eru nú í firðinum eru 200 metrar að þvermáli og rista 30 metra. Í Patreksfirði er nú komnar kvíar aftur eftir að fjörðurinn hafði verið hvíldur í eitt ár. Mikilvægt er að tryggja að vistkerfi svæðisins þoli þetta mikla eldi og ekki ástæða til að halda annað en að menn fylgist vel með og fari ekki framúr hinu náttúrlega þoli svæðisins.

Mikilvægi fiskeldis

Um mikilvægi fiskeldis fyrir Vestfirði hefur áður verið fjallað hér í pistlum og ekki síður þeim tækifærum sem eru í því fyrir hagkerfi okkar Íslendinga. Framundan er að reisa stórt sláturhús og vinnslu fyrir suðurfirðina og mun nú vera nokkur samkeppni um hvar það rís á milli hinna einstöku byggðalaga.

Eins og oft áður eru samgöngur lykilþáttur fyrir byggð á Vestfjörðunum. Dýrafjarðargöngin eru glæsileg og viðbót við Vestfjarðagöngin sem tengja norðurfirðina og byggðalögin þar. Halda þarf áfram að byggja upp samgöngur á svæðinu en nú kallar atvinnulífið (fiskeldið) eftir áreiðanlegum samgöngum. Það er verið að setja upp mikið matvælavinnslufæriband á svæðinu sem þýðir að mörg hundruð tonnum af fiski er slátrað í hverri viku og þessum afurðum verður að koma hratt og vel til neytenda. Enginn annar kostur er en að keyra fiskinn suður en á þeirri leið hafa verið erfið fjallvegir. Nú loksins eru hafnar framkvæmdir við vegalagningu í gegnum Teigsskóg en ótrúlegt er að hún skuli hafa tafist í 16 ár! Mikilvægt er að ljúka þeim framkvæmdum sem fyrst en núverandi vegur er ómalbikaður og fer um tvær erfiðar heiðar. Halda þarf áfram að bæta tengingar milli atvinnusvæða og stefna á að frekari jarðgangnagerð.bildud2

Slakt afhendingaröryggi rafmagns

Það er því augljóst að það þarf að efla mjög innviði á Vestfjörðum. Þar hefur afhendingaröryggi rafmagns lengi verið lakara en annars staðar á landinu eins og ný þingsályktunartillaga segir til um. Vestfirðingar eru háðir innflutningi orku af meginflutningskerfi landsins og þaðan fá þeir ríflega 40% þeirrar raforku sem notuð er í landshlutanum. Enginn landshluti á að þurfa að búa við slíkt ástand en þrátt fyrir að margir hagkvæmir virkjunarkostir séu á Vestfjörðum hefur ekki náðst sátt um nýtingu þeirra. Því er nauðsynlegt að tryggja afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum með hringtengingu. Til þessa hafa forsendur útreikninga Landsnets gengið út á að Hvalárvirkjun geti rekið kerfið á Vestfjörðum ef það einangrast frá meginflutningskerfinu án þess að til truflunar komi á afhendingu raforku. Mikil óvissa ríkir nú um virkjun Hvalár og því er nauðsynlegt að koma á öflugri hringtengingu, óháð því hvort af virkjun Hvalár verður eða ekki. Fleiri virkjanakostir bíða á Vestfjörðum.