c

Pistlar:

15. júní 2021 kl. 17:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bretland: Ný sjónvarpsstöð í loftið

Það er óhætt að segja að það hafi gustað um breska ríkissjónvarpið BBC undanfarin misseri. Hvert hneykslið hefur rekið annað og miklar efasemdir verið meðal Breta um að það sé rétt að halda úti starfsemi stöðvarinnar í núverandi mynd. Stjórnendur hafa komið og farið, rannsóknarskýrslur skrifaðar og reglur og þá sérstaklega siðareglur endurskoðaðar. Óhætt er að segja að vinsældir og áhrif BBC hafi minnkað verulega undanfarin ár.neilll

Í kjölfar fjármálakreppunnar fyrir 12 árum var upplýst að á meðal æðstu stjórnenda BBC ríkti mikil lúxuslifnaður og þeir hikuðu ekki við að leigja einkaþotur og gista á glæsihótelum og gáfu hvor öðrum gjafir, allt á kostnað ríkisins. Óhófið var afhjúpað í gögnum sem lekið var til fjölmiðla en þar kom fram að flestir af 50 hæstsettu stjórnendum BBC höfðu margföld laun þingmanna. Fyrir og eftir þetta hefur hvert hneykslið á fætur öðru dunið yfir fólk, nú síðast í kjölfar heim­ild­ar­mynd­arinnar Di­ana: The Truth Behind the In­terview sem var sýnd á Chann­el 4 síðasta haust. Rannsókn leiddi í ljós að þáttagerðarmaðurinn Martin Bashir hafði beitt margskonar svikum og blekkingum til að fá viðtal við Díönu og í raun hagað sér á einstaklega ósiðlegan máta. Bækur eins og The Fake News Factory: Tales from BBC-land hafa verið gefnar út og öll spjót staðið á BBC.

Kveðja frá Ólafi Ragnari

Nú hefur ný sjónvarpsstöð farið í loftið í Bretlandi en GB fréttastöðin (GB News) hóf útsendingar á sunnudagskvöldið kl. 20. Henni veitir forstöðu sjónvarpsmaðurinn kunni, Andrew Neil, sem var áður hjá BBC en hætti vegna óánægju með efnistök þar. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti vék að þessu í Tvíti í gær en Andrew Neil er vinur Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrúar. Ólafur Ragnar sagði réttilega að þetta væru talsverð tíðindi í breska fjölmiðlaheiminum.

Þetta er fyrsta nýja sjónvarpsstöðin í Bretlandi í 24 ár en BBC News 24 hóf göngu sína árið 1997. Nýja stöðin státar af stórum nöfum í breskum fjölmiðlaheimi, þar á meðal Simon McCoy, Colin Brazier og MailOnline dálkahöfundinn Dan Wootton. Andrew Neil, sem mun kynna fréttir fjögur kvöld í viku og er auk þess andlit og stjórnarformaður GB News. Fréttastjóri sjónvarpsstöðvarinnar er John McAndrew sem hefur 25 ára reynslu í starfinu, meðal annars hjá BBC, Sky News, ITN og NBC.

Stefnt gegn útilokunarmenningunni

Þetta er semsagt fyrsta nýja breska fréttastöðin á þessari öld og boðar nýjan tón. Neil hefur heitið því að vinna gegn útilokunarmenningunni og styðja við tjáningarfrelsið. Hann segir að stöðin muni ekki vera enn einn bergmálshellir stórborgarinnar heldur hafa allt landið undir og segja fréttir sem eiga erindi við almenning og aðrir vanrækja að fjalla um.

Neil hefur leynt og ljóst reynt að staðsetja GB News sem uppreisnarafl í breska fjölmiðlalandslaginu. Stöð sem mun tala máli þeirra sem telja að „rödd þeirra hafi ekki heyrst í almennum fjölmiðlum“ - sérstaklega í samfélögum utan London. Í opnunarávarpi sínu sagði Neil: „Við erum stolt af því að vera bresk eins og nafn stöðvarinnar vísar til.“ The Guardian skensar hann fyrir að hann gefi Frakkland upp sem sína helstu búsetu á opinberum skjölum. Ljóst er hvaða stefnu hið vinstrisinnaða Guardian tekur í málinu.sjonvneill

Nái til alls Bretlands

Til stöðvarinnar er stofnað af fjölmiðlamönnum Andrew Cole og Mark Schneider. Þeir ætla að rásin nái til 96% breskra sjónvarpsheimila í gegnum Freeview, Sky og Virgin Media. Að sama skapi gerir Guardian að umtalsefni að meðal þeirra sem fjármagni stöðina, sem er með skrifstofur á Paddington-svæðinu í höfuðborginni, sé framkvæmdastjóri vogunarsjóðs, sem studdi Brexit, Sir Paul Marshall. Meðal fjárfesta eru einnig Farmer lávarður og Spencer lávarður, sem báðir hafa gegnt starfi gjaldkera íhaldsflokksins, bandaríska sjónvarpshópsins Discovery og fjárfestingarsjóðsins Legatum í Dubaí.

Margir voru áhugasamir um stöðina og horfðu meira en þrisvar sinnum fleiri á fyrsta þáttinn en fréttaþáttinn sem var sýndur á sama tíma á BBC. Óhætt er að stöðin fari vel af stað. Samkvæmt sjónvarpsiðnaðartímaritinu Broadcast náðu GB News hámarki á upphafsmínútum sínum með 336.000 áhorfendur, sem þýðir að það stóð sig betur en BBC þar sem 100.000 horfðu á fréttir þeirra allan klukkutímann og mun betur en Sky News þar sem 46.000 horfðu. Broadcast hafði einnig greint að 57% áhorfenda opnunarþáttar GB News hefðu verið karlkyns, 52% áhorfenda voru 65 ára eða eldri.