c

Pistlar:

17. júní 2021 kl. 21:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bretland: Útilokun skellur á nýrri sjónvarpsstöð

Kaldir straumar hafa mætt hinni nýju bresku sjónvarpsstöð GB fréttastöðin (GB News) sem hóf útsendingar um síðustu helgi eins og greint var frá í síðasta pistli. Vinstri sinnaðir fjölmiðlar telja greinilega að stöðin verði í hugmyndafræðilegri andstöðu við þá og með henni sé ætlunin að endurvarpa hægri sinnuðum sjónarmiðum. Blöð eins og The Guardian hafa verið með allskonar getgátur um fréttastefnu og fjármögnun stöðvarinnar. Að hún verði byggð upp í líkingu við Fox-fréttastofuna en vinstri menn telja það augljóslega skammaryrði. Breytir engu þó að Fox njóti helmingi meiri vinsælda en CNN í Bandaríkjunum. Öll þessi átök birtust með skýrum hætti í kringum fréttaflutning af forsetatíð Donalds Trumps fyrrverandi forseta Bandaríkjanna eins og var vikið að alloft í pistlum hér.aneil

Nú hefur meðal annars BBC upplýst að þrýstihópar hvetji auglýsendur til að auglýsa ekki á hinni nýstofnuðu stöð sem sjónvarpsmaðurinn kunni Andrew Neil kom á koppinn, að eigin sögn til að berjast gegn útilokunarmenningu en um leið styðja við opna og frjálsa umræðu. Neil, fyrrverandi stjórnmálaskýrandi BBC, hefur vísað samanburði við Fox á bug sem „bulli“. Greint hefur frá fyrirætlunum um að senda út frá fleiri löndum, svo sem Spáni og einstaka löndum Austur-Evrópu.

Stórfyrirtæki útiloka

Stórfyrirtæki eins og Nivea, Grolsch, Ikea, Octopus Energy, Open University og Kopparberg ákváðu innan 48 stunda að auglýsa ekki á GB News. Allt umdeilanlegt, en sérstaklega þó ákvörðun Open University sem er fjármagnaður með opinberum framlögum. Í tilkynningu drykkjaframleiðandans Kopparberg sagði að vörur þeirra væru fyrir alla og þeir myndu ekki auglýsa á miðlum sem væru ekki fyrir alla! Áhugaverð nálgun.

Sem gefur að skilja hefur þetta mælst misjafnlega fyrir og sjónvarpsmaðurinn kunni, Piers Morgan, hefur gagnrýnt Ikea harkalega eftir að það varð eitt fjölda fyrirtækja til að afturkalla auglýsingar sem áttu að birtast á GB News. Þessi fyrrum stjórnandi þáttarins Good Morning Britain sagði að sænsku húsgagnaframleiðendurnir væru „aumkunarverðir dyggðaskreytar“ og að hann hygðist sjálfur sniðganga þá. Ikea brást við með að segjast ekki hafa vitað af pöntunum í þeirra nafni á GB News og sagði að það væri ekki í samræmi við „gildi“ fyrirtækisins að auglýsa þar.

Fraser Nelson, ritstjóri Spectator þar sem Neil er einnig formaður, sagði við BBC fréttastofuna að sniðganga Kopparberg gæti leitt til bakslags þeirra gagnvart neytendum. „Slík útilokunarmenning verður aldrei vinsæl. Ef stjórnendur Kopparberg eru nógu snjallir til að selja enskum almenningi eplasafa (sem eiga bestu eplin á jörðinni) þá ætti þeir að vera nógu gáfaðir til að átta sig á mistökum sínum. Við ættum að búast við skýringu fljótlega.“

Ikea ætti að líta í eigin barm

Andrew Neil, stjórnarformaður GB News, svaraði Ikea af fullri hörku. „Ikea hefur ákveðið að sniðganga GB News vegna gilda okkar eða hvernig þeir meta þau,“ skrifaði hann á Twitter og bætti við: „Hér eru gildi Ikea - franskur forstjóri sem er dæmdur glæpamaður með tveggja ára skilorðsbundið fangelsisdóm fyrir að njósna um starfsfólk.“ Þar er hann að vísa til þess að franskur armur fyrirtækisins var sektaður um eina milljón evra í vikunni eftir að fyrirtækið hafði verið fundið sekt um að hafa notað einkaspæjara og lögreglumenn til að safna gögnum um starfsfólk sitt. Jean-Louis Baillot, fyrrverandi forstjóri Ikea í Frakklandi, hlaut tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og 50.000 evra sekt. Lögfræðingur hans sagðist íhuga áfrýjun.

En þessi tilhneiging stórra auglýsenda til að þóknast einhverjum hluta samfélagsins með slíkri útilokun verður án efa umdeild og nú þegar hefur risið mikil umræða um það í Bretlandi.