c

Pistlar:

25. júní 2021 kl. 13:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vísindalegur þorskur á undanhaldi

Það er að sumu leyti merkilegt hve litla athygli ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar um afla í íslensku fiskveiðilögsögunni fiskveiðiárið 2021/2022 hafa vakið í hinni almennu umræðu. Rétt svo að vikið sé að þeim öðru hvoru þó óhætt sé að segja að þær hafi komið sem skrattinn úr sauðarleggnum til þeirra sem starfa í sjávarútvegi í landinu. Þar á bæ hafa þessi tíðindi kallað á mikla endurskipulagningu og sum fyrirtæki, sem treysta meðal annars á karfa, verða að breyta rekstrarforsendum sínum verulega. Það blindar kannski mönnum sýn að þau tvö fyrirtæki sem eru í Kauphöllinni, Síldarvinnslan og Brim, virðast ekki finna mikið fyrr þessum breytingum. Sem áður þola stærstu fyrirtækin best áföll sem þessi.

En auðvitað er þetta áfall fyrir okkur sem höfum trú á því að vísindaleg ráðgjöf sé undirstaða framþróunar og viðhalds íslensks sjávarútvegs. Hvernig á að skilja þessa miklu skekkju sem nú hefur birst? Því hefur verið haldið fram að með rannsóknum og tölfræðilegum greiningum og 20 prósent aflareglu sé unnt að byggja upp vaxandi hrygningarstofn. Þannig myndu veiðarnar aukast, þar til stofninn hefði náð þolmörkum. Menn töldu þeim mörkum enn ekki vera náð og því gældu margir við að veiðiráðgjöfin yrði áfram uppávið. En nú eru efasemdir um það. Þetta eru því mikil tíðindi en ekki í fyrsta skipti en árið 2001 komu upp svipaðar efasemdir um áreiðanleika rannsókna Hafrannsóknarstofnunar.

Við verðum að viðurkenna að við verjum furðu litlum fjármunum til hafrannsókna miðað við mikilvægi greinarinnar en hafa má í huga að undir er lífríki einnar stærstu efnahagslögsögu heims. Það er ljóst að efla þarf hafrannsóknir mjög en til þeirra er varið núna sem svarar verðmæti skötusels og löngu!haf

Áfall fyrir vísindin?

Nú hefur verið upplýst að vísindamenn telja sig hafa ofmetið þorskstofninn um 267 þúsund tonn eða 28 prósent. Við leikmenn sem fylgjumst með sjávarútvegi af áhuga hljótum að velta fyrir okkur hve varanleg þessi niðurstaða er og hvernig þetta gat gerst. Er þorskurinn farinn, varanlega? - spyrja margir. Staðreyndin er sú að vísindamennirnir virðast ekki hafa svör við því. Það er auðvitað alvarlegt. Hafrannsóknarstofnun er háborg sjávarútvegsrannsókna á Íslandi og starfi undir rýni alþjóðlegs vísindasamfélags. Hefur henni orðið alvarlega á í messunni? Ekki er óeðlilegt að fara fram á að hún geri raunhæfa áætlun um úrbætur með viðeigandi kostnaðaráætlun, sem stjórnsýslan og fjárveitingavaldið geti tekið afstöðu til. Helst sem fyrst. Ekki er ólíklegt, að setja þurfi samþykkta kostnaðaráætlun á fjármálaáætlun ríkisins, því að við svo búið má ekki standa svo vitnað sé til skrifa Bjarna Jónssonar rafmagnsverkfræðings sem rýnt hefur af skynsemi í sjávarútvegsmál um árabil.

Aukin ábyrgð í umræðunni

Bjarni bendir á áhrif þessarar niðurstöðu á umræðuna um sjávarútveg: „Það sýnir sig nú svart á hvítu, að engin glóra er í, að stjórnvöld fari að ráðum sérvitringa og óvita um sjávarútveg og taki að spila einhvers konar rússneska rúllettu með stórhækkun veiðigjalda eða uppboði á þjóðnýttum aflaheimildum. Slíkt er hreinræktuð dilla þröngsýnna pólitískra hugmyndafræðinga og skemmdarverkastarfsemi á undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.“ Undir það verður tekið hér.

Niðurstaðan núna sýnir hve mikilvægt er að samhengi sé á milli vísinda, stjórnkerfis, kerfisuppbyggingar og rekstrarskilyrða í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er eins og annar fyrirtækjarekstur að leita að fyrirsjáanleika og stöðugleika þannig að hægt sé að gera rekstrar- og kostnaðaráætlanir sem standast. Þannig getur sjávarútvegurinn tryggt markaðsstöðu sína á þeim erfiðu og síbreytilegu mörkuðum sem íslenskur sjávarútvegur keppir á. Það er hlutur sem gleymist oft í umræðunni. Þá blasir við að innan núverandi kerfis er unnt að takast á við áfall sem þetta og halda áfram að byggja upp sjávarútveginn. Önnur kerfi, hvernig sem þau litu út, dygðu líklega síður til þess. Það hefði til dæmis ekki verið þægileg staða að vera með stórtækar breytingar á sjávarútvegnum í gangi núna þegar þetta áfall dynur yfir. Er það ekki umhugsunarvert?

Taka má undir með Bjarna sem bendir á að áður fyrr hefðu þessi tíðindi haft í för með sér gengisfellingu krónunnar en þrátt fyrir tíðindin stendur hún nokkuð stöðug. Vissulega hafa aðrar gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar komið til en miklu skiptir að sjávarútvegurinn er nú stöndugur og sveigjanlegur með mikla aðlögunargetu enda virðist engin efast um að hann standi þetta af sér. En það er síður en svo sjálfgefið.