c

Pistlar:

1. júlí 2021 kl. 11:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fróðlegt viðtal við forstjóra Century Aluminum

Áliðnaðurinn hefur verið starfandi hér á landi í fjóra áratugi og skiptir gríðarlegu máli fyrir okkar litla hagkerfi. Af þeirri erlendu fjárfestingu sem hingað hefur komið hefur fjárfesting í áliðnaði skilað mestri verðmætaaukningu til langs tíma litið. Óhætt er að segja að þetta hafi reynst farsælt skref á sínum tíma og innkoma orkufreks iðnaðar hefur gerbreytt starfsskilyrðum heilu starfsstéttanna og skapað bæði verðmæti og þekkingu. Af heildarútflutningi álvera á Íslandi árið 2020 urðu um 93 milljarðar króna eftir í gjaldeyristekjum. Þessum fjármunum er meðal annars varið til kaupa á raforku, innlendum vörum og þjónustu og til greiðslu launa og opinberra gjalda á Íslandi.

En þrátt fyrir þetta er ekkert sérlega vinsælt að tala um áliðnaðinn eða stóriðju. Því hefur pistlaskrifari kynnst en hann hefur þrjóskast við og fjallað um þessa mikilvægu iðngrein með reglulegu millibili. Umræðan hefur oftar en ekki þróast í neikvæða átt og áliðnaðurinn gerður ábyrgur fyrir þeim breytingum sem hafa orðið í umhverfismálum og þróun atvinnulífs, meðal annars með breyttri sýn á verðmæti og inntak starfa. Það birtist meðal annars í efasemdum um gildi iðnstarfa eða frumframleiðslu. En það er tilefni sérstakrar umræðu.Michael bless

Ástæða er til að vekja athygli á fróðlegu viðtali við Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminum, sem var í markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í gær. Mike Bless er hreinskilin og upplýsandi í viðtalinu og útskýrir með ágætum starfsemi og áherslur Century Aluminum hér á landi og ekki síður það sem er að gerast á alþjóðamörkuðum. Því er ástæða til að mæla með viðtalinu.

Samkeppnisforskot Íslands

Það er til að mynda fróðlegt að lesa það sem Mike Bless segir um nálgun fyrirtækisins hér á landi og hve mikilvæg tenging við raforkuverð er fyrir jafn lítið félag, já Century Aluminum er eitt af smærri félögum hins risavaxna alþjóðlega áliðnaðar. Hann benti á að upphaflega hafi álframleiðendur komið upp starfsemi á Íslandi vegna samkeppnishæfs orkuverðs. Núna sé hins vegar orkuverð víðar lægra en á Íslandi. Aðspurður hvort samkeppnisforskot Íslands sé enn þá fyrir hendi með tilliti til raforkuverðs, segir Bless að svo sé og bætir við:

„Málið snýst ekki endilega um lægra eða hærra verð. Það sem okkur þótti aðlaðandi var tengingin við álverð. Við borgum glaðir hærra raforkuverð ef okkar afurðaverð er hátt. Century Aluminum er ekki stór álframleiðandi á alþjóðlegan mælikvarða og samkeppnisaðilar okkar, sem eru með ýmiss konar aðra starfsemi en álframleiðslu, þola betur sveiflur í álverði en við. Þess vegna er álverðstengingin afar mikilvæg fyrir okkur. Við erum líka með álverðstengingu í aðfangakaupum okkar, til að mynda við innkaup á súráli. Á sama hátt og við raforkuinnkaup þá borgum við súrálsbirgjum okkar glaðir hærra verð ef álverð hækkar. En það var fyrst og fremst álverðs­tengingin sem var aðlaðandi í okkar augum, hún þýðir að við getum haft betri stjórn á okkar rekstraráhættu.“

Þetta er fróðlegt að fá fram en um skeið var áhersla Landsvirkjunar á að rjúfa þessa tengingu raforkuverðs og álverðs. Fyrir því voru vissulega rök en umdeilanleg eins og kemur fram í orðum forstjórans.

Raforkuverð til álvera að lækka

En verðstefna Landsvirkjunar byggðist á trú á samkeppnisstöðu íslensks orkumarkaðar og því að raforkuverð myndi óhjákvæmilega hækka, nánast óendanlega.. Það virðist ekki vera þróunin að sögn Mike Bless en hann segir að hröð aukning í framboði endurnýjanlegrar orku í Bandaríkjunum hafi breytt raforkulandslaginu þar á skömmum tíma. „Við erum núna í viðræðum við orkufyrirtæki í Bandaríkjunum um að byggja upp sólarorkuver við hlið einnar verksmiðju okkar í Bandaríkjunum. Við myndum kaupa allt rafmagnið sem framleitt er af fyrirtækinu.

Stóra myndin er sú að endurnýjanleg raforka er að koma inn af miklum krafti á raforkumarkaðinn í Bandaríkjunum og það miklu hraðar en slökkt er á kolaverunum. Stóraukið framboð rafmagns umfram aukningu í eftirspurn þýðir auðvitað að raforkuverð lækkar, og því erum við að borga í kringum 30 Bandaríkjadali með flutningsgjöldum fyrir megavattstundina í Bandaríkjunum um þessar mundir. Ef þú hefðir spurt mig hvort þetta yrði staðan fyrir fimm árum síðan hefði ég ekki haldið það. En það er gott að þetta sé að gerast, við þurfum að auka hlutfall hreinnar orku.“

Þetta er þróunin víða, sólar- og vindorka geta skapað ofgnótt orku en ekki tryggt afl. Þetta er að verða vandamál víða um heim þar sem erfitt er að tryggja að sú mikla orka sem skapast varðveitist og nýtist. Í Þýskalandi er það sérstakt vandamál að fólk vill ekki sjá háspennulínur sem eru nauðsynlegar að flytja orku milli staða. Vatnsafl og jarðvarmi hafa það umfram sólar- og vindorku að þeir orkugjafar eiga ekki á hættu að missa skyndilega afl, eins og gerist þegar vindurinn hættir að blása eða ský dregur fyrir sólu eins og Bless bendir á.

Er stefna Kínverja að breytast?

Í viðtalinu fjallað Bless talsvert um stefnu Kínverja en frá aldamótum hefur framleiðsla áls í Kína aukist hröðum skrefum en um það hefur verið fjallað hér í pistlum áður. Kína á miklar kolabirgðir sem og báxítbirgðir sem hafði í för með sér að álframleiðsla óx hröðum skrefum upp úr aldamótum. Hann bendir á að í kringum árið 2000 framleiddi Kína um það bil 20 prósent af áli heimsins en fljótlega verði hlutfall nærri 60 prósentum. Kínverjar eiga töluvert af báxíti en enn meira af kolum. Ál er oft kallað orka í föstu formi, sökum þess hversu orkufrekt er að framleiða það bendir Bless á. Hins vegar er staðan orðin sú núna að raforkuverð í Kína er um það bil tvöfalt hærra en til að mynda í Bandaríkjunum. Megavattstundin í Kína kostar núna um 60 Bandaríkjadali á meðan afhent orka í Bandaríkjunum kostar um 28 til 32 Bandaríkjadali fyrir megavattstundina, innan við helming af orkuverðinu í Kína.

Bless bendir á að eðlilega spyrji Kínverjar sjálfa sig – hvers vegna erum við að flytja þessa dýru raforku út í formi áls? Er ekki eðlilegra að þeir sem njóti hagkvæmara raforkuverðs flytji út ál? „En þrátt fyrir þetta héldu Kínverjar áfram að bæta við sína framleiðslugetu og margir klóruðu sér í kollinum yfir því, þar sem þeir höfðu í raun ekki samkeppnisforskot með tilliti til orkukostnaðar, sem er stærsti, einstaki kostnaðarliður álframleiðslu. Þeir eiga mikið af kolum, en flytja líka inn mikið af þeim.kinaal

Það er fróðlegt að heyra þá skoðun Bless að þetta snúist að mestu um atvinnusköpun sem sýnir glögglega hve fjarri Kínverjar eru oft heilbrigðri samkeppni. Álver í Kína, sambærilegt að stærð og Grundartangi, skapar störf fyrir um 2500 manns, að undanskildum afleiddum störfum. Í samanburði starfa um 600 manns að Grundartanga þar sem tæknivæðing er töluvert meiri. „Það er hins vegar margt sem bendir til þess að kínversk stjórnvöld séu að taka umhverfismálin fastari tökum um þessar mundir og því teljum við líklegt að það hafi bæði áhrif á innlenda framleiðslu áls og útflutning þess,“ segir Bless.

Það er mikilvægt fyrir áhugamenn um atvinnusköpun og atvinnuþróun að kynna sér þær upplýsingar og þau sjónarmið sem birtast í viðtalinu við Bless og því leyfi ég mér að segja hér nokkuð ýtarlega frá því.