c

Pistlar:

7. júlí 2021 kl. 11:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sorpflokkarinn Löfven áfram við stjórn í Svíþjóð

Flest bendir til þess að Stefan Löfven taki aftur við sem forsætisráðherra Svíþjóðar í dag, tíu dögum eftir að hann varð að þola vantraust í þinginu, fyrstur forsætisráðherra Svía. gert er ráð fyrir að hann kynni nýja ríkisstjórn á föstudaginn. Það geislar ekki beinlínis af Löfven og Svíar vita ekki almennilega hvort hann er stjórnmálamaðurinn sem þeir eiga skilið eða hvort hann er bara lægsti samnefnari sænskra stjórnmálamanna í dag eins og rakið var í pistli hér fyrir stuttu. Sagan sýnir að það er ekki sjálfgefið að sænskir stjórnmálamenn séu litlausir en það er Stefan Löfven sannarlega. Endurreisn hans núna sýnir betur en margt annað að sænsk stjórnmál eru í sjálfheldu og þjóðin er meira ósamstíga en hún hefur verið áður.löfven

Spjall við skáld eða sorpflokkun

Löfven hófst til pólitískra metorða í gegnum verkalýðshreyfinguna og hann verður seint talin til hóps menntamanna. Það er reyndar freistandi að rifja upp sögu af því þegar fundur forsætisráðherra Norðurlanda var haldin hér á landi haustið 2015 með David Cameron þáverandi forsætisráðherra Breta. Mikill viðburður og fundir haldnir í Hörpunni og á Grand hótel og starfsmenn stjórnarráðsins á þönum. Þáverandi skrifstofustjóri Alþingis, Helgi Bernódusson, varð vitni að feimni Stefan Löfven sem er afskaplega hlédrægur maður eins og flestum má vera ljóst. Helgi sagðist hafa séð til hans þar sem hann var að henda af matardisk sínum í endurvinnsluílát og las vandlega af því svo allt færi á réttan stað. Svo vildi til að skáldið Þorsteinn frá Hamri hefði verið þarna við hlið þeirra félaga og Helgi kynnti hann fyrir Löfven sem eitt merkasta ljóðskáld okkar Íslendinga. Löfven brosti bara og hélt áfram að flokka sorp án þess að segja neitt.

Hrakfarir í baráttunni við veiruna

Frá árinu 2006 til 2012 starfaði Löfven sem formaður verkalýðsfélags málmiðnaðarmanna en þar áður sem almennur málmiðnaðarmaður. Hann var kosinn formaður Jafnaðarmannaflokksins árið 2012 og forsætisráðherra Svíþjóðar 2014. Löfven tók við af Fredrik Reinfeldt sem forsætisráðherra Svíþjóðar í október 2014 og fór fyrir minnihlutastjórn Jafnaðarmannaflokksins og sænska Græningjaflokksins. Þingkosningarnar árið 2018 reyndust ekki senda skýr skilaboð og svo virtist sem Löfven hefði misst völdin. Hann sat hins vegar áfram sem leiðtogi starfsstjórnar á meðan unnið var að því að mynda nýja stjórn. Stjórnarkreppa ríkti í heila fjóra mánuði eftir kosningarnar en að endingu féllust Miðflokkurinn, Frjálslyndi flokkurinn og Vinstriflokkurinn á að styðja áframhaldandi stjórn Jafnaðarmanna og Græningja með Löfven sem forsætisráðherra. Þessi stjórn hélt saman og hrakfarir Svía í baráttunni við kórónuveiruna hafa líklega einkennt stjórnatíð hennar öðru fremur, nú seinni helming kjörtímans. Þar virtust sænsk yfirvöld taka þá ákvörðun að best væri að gera ekki neitt, eða í það minnsta framan af sem hafði í för með sér að hlutfallslega létust langflestir þar á Norðurlöndunum. En virðist Löfven ætla að halda völdum þó engin líti beinlínis til hans sem leiðtoga, í það minnsta þar til kosið verður 11. september 2022.

Upplausn og stefnuleysi

Sænskir fjölmiðlar lýsa ástandinu núna þannig að það ríki upplausn og stefnuleysi og fólk kunnugt sænsku þjóðfélagi segir pistlaskrifara að víða í samfélaginu megi greina reiði og uppgjöf. Jafnaðarmenn hanga núna á eins manns meirihluta en í í sænska þinginu sitja 349 þingmenn og virðast treysta á að gamalgrónir kjósendur skili sér að ári. Staðreyndin er sú að margir hafa yfirgefið Jafnaðarmenn og snúið sér til Svíþjóðardemókratanna sem lengst af hafa verið stimplaðir óstjórntækir vegna stefnu þeirra í útlendingamálum. Sú stefna virðist hins vegar njóta skilnings fleiri og fleiri í sænsku þjóðfélagi vegna þeirrar upplausnar sem ríkir víða og uppgjafar stjórnar Jafnaðarmanna við þeim áskorunum sem fylgja vaxandi ofbeldi og rofs í samfélagsgerðinni. Það á eftir að koma á daginn hvort fólk heldur áfram að fylgja Jafnaðarmönnum þó þeir bjóði hvorki upp á forystu né framtíðarsýn.

Nýlegt morð á sænskum lögregluþjóni hefur opnað umræðuna um ofbeldi og útlendingamál upp á nýtt. Yfirmaður lögreglunnar, Mats Löfving, lýsti því yfir á síðasta ári að meira en 40 glæpaættir væru virkar í landinu, giftust innbyrðis og ælu afkomendur sína upp til að vera virkir þátttakendur í ólöglegri starfssemi en stjórnvöld eru enn í afneitun. Margir Svíar eru sammála þessari greiningu Löfvings.