c

Pistlar:

9. júlí 2021 kl. 11:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Svíþjóð: Lögreglan grætur en glæpaklíkurnar ráða

Um svipað leyti og sænska ríkisstjórnin féll var lögreglumaður skotinn til bana í Bisk­opsgår­d­en, í norðurhluta Gautaborgar, sem er þekkt innflytjendahverfi (sem sumir vilja hreinlega kalla gettó). Þetta hverfi er þekkt fyrir stríð á milli ólíkra glæpahópa sem ýmis sækja stuðning sinn til norðurs- eða suðurhluta svæðisins. Lögreglan er ekki spennt fyrir því að fara þarna inn en viðkomandi lögregluþjónn stóð þó í einkennisbúningi sínum úti á götu að ræða við vitni þegar hann var skotin. Hann var til þess að gera nýbyrjaður í lögreglunni og rétt rúmlega þrítugur. Kona hans á von á fyrsta barni þeirra hjóna. Hann er þriðji sænski lögregluþjónninn sem er drepin síðan árið 2000 og sá fyrsti í 14 ár. Stefan Löfven sagði að árásin væri árás á hið lýðræðislega samfélag og morðið hefur aukið tortryggni í samskiptum við innflytjendur. Stjórnvöldum er legið á hálsi að skilja ekki þann heim sem glæpahópar tengdir innflytjendum starfa í þar sem þjóð og fjölskylda ræður öllu. Meðfylgjandi mynd er frá frægum blaðamannafundi lögreglunnar fyrir tveimur árum þar sem hún ræddi opinskátt gengjastríðin. polis

Lögreglan hefur sagt að ekki sé vitað hvort lögregluþjónninn hafi verið skotmark eða einfaldlega skotinn í misgripum en grunsemdir beindust strax að glæpagengjunum. Nú í byrjun vikunnar var 17 ára gamall piltur handtekinn grunaður um skotárásina í Biskopsgården. Samkvæmt upplýsingum Expressen hefur drengurinn áður verið sakfelldur fyrir tilraun til manndráps á manni sem tengist gengjadeilunni á svæðinu. Fjölmiðlar hliðhollir Svíþjóðardemókrötum hafa upplýst að um sé að ræða Sómala, Sakariye Ali Ahmed, sem hefur verið virkur í glæpaklíku. Hann sé grunaður um að hafa ætlað að skjóta mann sem hann stakk með hnífi í sporvagni í Gautaborg fyrir tveim árum.

Heimamönnum er nóg boðið. Jasmine Hiltunen býr í Biskopsgården og í samtölum við fjölmiðla segist hún hafa áhyggjur. Hún ætlar að flytja frá hverfinu eftir atvikið sagði hún við SvergeRadio. „Við höfum áform um að flytja héðan. Vegna þess að það er að gerast allt of mikið. Og ég hugsa um öryggi barna minna.“ Sænskir fjölmiðlar hafa verið fullir af líkum frásögnum og umræður á samfélagsmiðlum hafa verið ákafar.

Stríð milli tyrkneskra gengja

Á sunnudeginum eftir lögreglumorðið var annar maður drepinn úti á götu í öðru hverfi Gautaborgar, Hjällbo. Sá tilheyrði svokölluðu „Simmo“ klani og hafði lögreglan mikinn viðbúnað í kjölfarið því óttast var að meðlimir þess myndu leita hefnda á „Ali Khan“ klaninu, en morðinginn var talin tilheyra því. Lögreglan réðist í miklar aðgerðir og handtók menn úr báðum hópum og gerði meðlimi Ali Khan klansins, sem ætluðu að koma frá Þýskalandi, afturreka. Meðlimir Ali Khan klansins eru þekktir fyrir að ógna lögreglunni og því hafa verið uppi getgátur um að dráp lögreglumannsins hafi verið hefndaraðgerð.

Báðir koma hóparnir frá bænum Mardin í Tyrklandi, samkvæmt fréttum sænska netmiðilsins Bulletin. Ættfaðirinn Hashem Ali Khan fékk hæli í Svíþjóð fyrir margt löngu því hann átti yfir höfði sér dauðadóm í Líbanon fyrir að drepa konu. Sænska dagblaðið Expressen gróf upp að sænsk yfirvöld höfðu hafnað framsalskröfu vegna morðsins. En eitt leiðir af öðru og smátt og smátt hefur fjölgað í klaninu, nú eru komin til Svíþjóðar yfir 100 manns sem sem lifa að mestu eða öllu leyti á afbrotum en sleppa við dóma því fólk þorir ekki að vitna gegn þeim segir í frétt Expressen.

Lögreglustjórinn grét í beinni útsendingu

Samkvæmt skilgreiningu lögreglunnar mun Simmo klanið ekki vera glæpagengi, heldur lifa meðlimir þess á því að vera eigendur verslana og söluturna. Margir hafa efasemdir um það. En sumir hafa almennt efasemdir um getu lögreglunnar til að fást við þessi mál. Trúlega hafa þeir þurft að búa við yfirgang og mafíustæla hinna, eins og lögreglumaðurinn í Gautaborg sem táraðist í viðtali við sænska ríkissjónvarpið lýsti nýverið. Það var táknrænt fyrir uppgjöf lögreglunnar við ástandinu.

Það vakti mikla athygli á síðasta ári þegar yfirmaður lögreglunnar, Mats Löfving, lýsti því yfir að meira en 40 glæpaættir væru virkar í landinu, giftust innbyrðis og ælu afkomendur sína upp til að vera virkir þátttakendur í ólöglegri starfsemi en stjórnvöld væru enn í afneitun. Fleiri og fleiri Svíar eru sammála þessari greiningu Löfvings. Það birtist að hluta í vaxandi fylgi við Svíþjóðardemókrata en útilokun þeirra frá hinu pólitíska sviði hefur að hluta til skapað þá pólitísku kreppu sem ríkir í Svíþjóð eins og vikið var að hér fyrir skömmu. familien

Bækur og heimildarmyndir um glæpaklíkurnar

Árið 2020 kom út bók um Ali Khan glæpaklanið (sumir vilja tala um fjölskyldu) sem heitir Familjen. Það var margverðlaunaður blaðamaður, Johanna Bäckström Lerneby, sem skrifaði bókina og lesendur undrast að slíkt fyrirbæri hafi fengist að þrífast óáreitt í Svíþjóð. Glæpaklanið vill ekki gangast við því að starfa sem mafía (svo!) og kalla sig vandamálsleysara (s. problemlösare) í samtali við fjölmiðla. Á tíma var hægt að segja að fjölmenning ríkti í hverfum Gautaborgar en smám saman hafa einstaka þjóðir eða ættbálkar tekið yfir hverfin og þau þannig í raun orðið einsleit og orðið ótrygg fyrir utanaðkomandi. Fátt í þeim minnir á þá mynd sem menn höfðu af sænsku þjóðfélagi áður en straumur innflytjenda hófst. Það er í raun búið að skipta um fólk og trú.

Johanna segir að á svæðum þar sem samfélagið eða ríkisvaldið brestur séu einfaldlega aðrir tilbúnir að taka að sér að koma á sinni tegund af „réttlæti“ og taka þannig í raun völdin. Eins og Al Asim fjölskyldan sem er nú talin stjórna Angered, um það bil 60 þúsund manna hverfi í Gautaborg. Í meira en áratug hefur Johanna fylgt fjölskyldunni og skoðað áhrif ofbeldis á samfélagið og vanmáttugar tilraunir yfirvalda til að halda því saman og reyna að ná stjórn á samfélaginu sem virðist við það að liðast í sundur. Árið 2014 komu meðlimir genginsins í veg fyrir að unnt væri að kjósa á kjörstað í hverfinu sem sýnir glögglega að þeir eru farnir að hafa áhrif á hina lýðræðislegu virkni samfélagsins. Hér til hliðar má sjá mynd af Johönnu taka viðtal við Hashem Ali Khan sem er óformlegur leiðtogi fjölskyldunnar.hashem Ali Khan

Þá er einnig til forvitnileg heimildarmynd um gengjastríðið sem nú hefur stað í á annan áratug sem heitir „Gängkrigens tid“ eða Tími gengjastríðanna. Þar er um að ræða heimildarmynd í tveimur hlutum sem er talin gefa einstaka innsýn í gengjastríðið í Biskopsgården sem hefur haft í för með sér dráp á að minnsta kosti 20 manns, þar af tveimur börnum. Blaðamaður að baki þáttunum er Karwan Faraj, sem ólst upp í áðurnefndu  úthverfi Angered í Gautaborg en hann hlaut Grand Journalist Prize árið 2019. Það væri sannarlega ástæða fyrir Ríkissjónvarpið að sýna þessa þætti.