c

Pistlar:

18. júlí 2021 kl. 20:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Afganistan: Orkudrykkir í stað hernaðaraðstoðar

Bandaríkjamenn eru að tygja sig heim frá Afganistan og eru þar með þriðja heimsveldið til að gefast upp fyrir fjallaþjóðum þessa hrjóstruga lands. Áður höfðu Bretar og Sovétmenn hrakist í burtu við illan leik með heitstrengingar um að koma aldrei aftur. Engin veit hvað verður þegar þeir vestrænu herir sem enn eru í landinu eru farnir. Fáir virðast hafa trú á að núverandi stjórn landsins nái að halda völdum enda Talibanar í sókn á mörgum stöðum í landinu. Allt venjulegt fólk óttast stjórn þeirra sem mun væntanlega ganga út á trúarlegan og þjóðernislegan ofstopa. Talibanar eru fjármagnaðir með glæpum eins og hefur orðið hlutskipti margra hryðjuverkasamtaka í gegnum tíðina, nægir þar að nefna FARC, IRA, Hezbollah og al Kaída. Að lokum tekur hið ábyrgðalausa stjórnleysi glæpaklíkunnar yfir og ef ekki koma til hjaðningavíg innan hennar þá geta slík samtök lifað staðbundnu lífi og mótað og eitrað þjóðfélagsgerðina í langan tíma. Ítölsku mafíurnar eru skýrasta dæmið um þetta en í upphafi voru þær andspyrnuafl innan samfélagsins þangað til lögmál glæpaklíkunnar tóku yfir. Þetta var sérstakt vandamál þegar friður var í augsýn í deilunum á Norður-Írlandi. Þar gátu margir liðsmanna IRA ekki hugsað sér lífið eftir stríð, kunnu einfaldlega ekki að lifa slíku lífi.

Í Afganistan búa 40 milljónir manna og landið er ríflega sex sinnum stærra en Ísland, að mestu fjalllendi en þó gróðursælir dalir inná milli sem hafa dugað til að brauðfæða þjóðina (og rækta ópíum). Afganistan er eitt fátækasta land heims og það er óumdeilt að það sem við vesturlandabúar teljum til lífsgæða finnst ekki í miklum mæli þar. Ef átök verða mikil þurfa landsmenn að reiða sig á erlenda aðstoð og gera má ráð fyrir að margir flýi landið.afg1

Lengsta stríð Bandaríkjanna

Afganistanstríðið er það lengsta sem Bandaríkjamenn hafa háð en þeir hafa nú verið helmingi lengur í landinu en Sovétmenn sem voru með her sinn þar frá 1979 til 1989 í þeim tilgangi að styðja við stjórn sósíalista í landinu. Andspyrnan gegn þeim var að talsverðu leyti fjármögnuð af Bandaríkjamönnum sem lagði grunninn að hreyfingu Talibana. Það er kannski táknrænt að Joe Biden Bandaríkjaforseti miðar við að herinn fari heim 11. september næstkomandi en stríð hófst í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar á Bandaríkin þennan sama dag árið 2001. Allir þeir fjórir forsetar sem hafa ríkt síðan hafa heitið því að draga herinn heim og um tíma virtist Donald Trump vera líklegur til að standa við það en það kemur í hlut Joe Bidens að ljúka verkinu. Þegar hann greindi frá ákvörðun sinni í apríl síðastliðnum voru aðeins um 2.500 bandarískir hermenn enn í landinu. Einnig voru allmargir „ráðgjafar“ að störfum ef menn vilja nota þau orð um leyniþjónustuna.

Umsvif Bandaríkjamann höfðu minnkað mjög í tíð Donalds Trump. Stríðið hefur kostað óheyrilegar upphæðir og ríflega 2.300 bandarískir hermann hafa fallið í átökunum. Talið er að á milli 35.000 til 40.000 óbreyttir borgarar hafi látið lífið en erfitt er að fá áreiðanlegar heimildir um mannfall í röðum Talibana. Bandaríkjamenn hafa ekki sparað sig og beittu því helsta í vopnabúri sínu. Ekki eru nema fjögur ár síðan þeir vörpuðu móður allra sprengja (e. „mother of all bombs“) í Achin héraði þar sem talið var að Talibanar hefðu komið sér fyrir í hellum. Þessi tæplega 10.000 kg. sprengja hafði aldrei verið notuð áður og ekki síðan.afg3

Pattstaða en hvað svo?

Það virðist ekki ætla að vera mikil reisn yfir brotthvarfi Bandaríkjamanna sem yfirgefa herstöðvar sínar í skjóli nætur og skilja eftir allt sitt hafurtask á víðavangi, í misnothæfi ástandi. Sagt er að afganski herinn eigi nú bandaríska orkudrykki sem endist út öldina! Það hefur heldur aldrei verið neinn glæsibragur yfir þessu stríði og Janan Ganesh, pistlahöfundur hjá Financial Times, segir að meira að segja kvikmyndabransinn hafi sniðgengið átökin. Aldrei hafi verið gerð stórmynd um stríðið þar, Hollywood treysti sér ekki til að selja hinar meintu hetjudáðir sem þar fóru fram og hefur reyndar gleymt sér yfir merkilega innihaldslitlum ofurhetjumyndum síðustu áratugi en það er önnur saga. En fá ef nokkur stríð hafa verið jafn lítt dramatíseruð og það sem hefur verið að gerast í Afganistan síðustu tvo áratugi eða svo. Afganistanstríð hefur í raun fengið furðu litla athygli undanfarin ár enda smám saman myndast pattstaða.afg2

Talibanar hafa vitað að Bandaríkjamenn og stuðningsmenn þeirra eru á förum og hagað aðgerðum sínum í samræmi við það. Fæstir hafa trú á að stjórnarherinn muni geta veitt þeim viðnám og talið er að Talibanar ráði nú 80% af Afganistan. Það má leiða líkur að því að stjórn þeirra hverfi til ástandsins áður en Bandaríkjamenn réðust inn í landið. Líklega munu þeir innleiða sharía-löggjöf og þar með hverfa réttindi kvenna. Ólíklegt er að stjórnarskráin sem samþykkt var 2004 verði lengi við lýði. Tilvist ríkis Talibana í Afganistan verður nú svæðisbundið vandamál á ný en Pakistanar hafa löngum haft áhyggjur af uppgangi harðlínu íslamista þar.

Hætta er á miklum hjaðningavígum í Afganistan þegar erlendar öryggissveitir fara. Að minnsta kosti 72 afganskir hermenn í öryggissveitum og 87 óbreyttir borgarar voru drepnir í síðustu viku um leið og Talibanar héldu áfram sókn sinni. Ljóst er að Talibanar munu snúa hefnd sinni að þeim sem þeir telja að hafi unnið með erlenda hernámsliðinu.