c

Pistlar:

24. júlí 2021 kl. 13:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samkeppni og verðbólga

Fyrir stuttu átti pistlaskrifari samtal við mann sem hafði ákveðið að bjóða út tryggingapakka sinn sem var nokkuð ríflegur, talsvert meiri en hjá meðalmanninum og því full ástæða til að kanna hvaða kjör fengust. Skemmst er frá því að segja að tilboð tryggingafélaganna voru nánast samhljóða, svo samhljóða að viðkomandi gat ekki annað en brosað að þessari samkeppni ef samkeppni skyldi kalla. Hann tók reyndar fram að trygging á heimilishundinum hefði verið það eina sem hefði skilað ólíkum tilboðum! Hvað segir þetta um samkeppni í tryggingaheiminum nú þegar tryggingafélögin skila metuppgjörum. Og það á tímum kórónuveirunnar þegar flest heimili eru í aðlögun. Er nema vona að maður spyrji hvort það sé samkeppni á þessum markaði?

Pistlaskrifari átti svipað samtal við annan mann sem sagði að enga samkeppni væri að hafa á byggingavörumarkaði. Ég kváði, en hann endurtók fullyrðingu sína og sagði að þar virtist samkomulag um að okra á venjulegum viðskiptavinum. Iðnaðarmenn og verktakar væru oftar en ekki með gríðarlegan afslátt sem sýndi vel hvað álagningin væri í raun mikil. Viðkomandi taldi að það munaði allt að 50% á pallaefni og byggingatimbri hér á landi miðað við til dæmis í Danmörku. Dýrari flutningar skýrðu þetta ekki nema að örlitlu leyti.neyte

Ég þurfti að mála smávegis heima hjá mér fyrir stuttu sem er ekki í frásögu færandi en þá komast ég að því að verðlag á málningu er með sérkennilegum hætti. Venjulegt fólk kaupir málningu fullu verði og ekkert slegið af því. Verktakar geta hins vegar fengið slík afsláttarkjör að þarna er himinn og haf á milli. Svo mikið að margir svona prívatmálarar eins og ég reyna að fá að kaupa í gegnum verktakanna og spara sér krónurnar. Nú er ekkert að því að menn fái magnafslátt en staða hins almenna neytanda virðist heldur lök í þessu öllu saman.

Hver gætir hags neytenda?

Hér eru nokkur dæmi tekin en það má horfa víða yfir viðskiptalífið og spyrja sig hversu heilbrigð samkeppni ríkir. Það getur átt við bankakerfið og matvörumarkaðinn. Stór hluti matvörumarkaðarins er rekin í tveimur stórum keðjum sem hafa einnig verið að reyna að komast inn á olíuvörumarkaðinn. Þessar keðjur hafa skilað góðri afkomu á tímum farsóttarinnar. Það þarf ekki að vera ámælisvert að skila góðri afkomu en neytendur verða alltaf að spyrja sig hvort þeir lifi í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Því miður virðast eftirlitsaðilar eins og fjölmiðlar og samtök neytenda vera heldur vanmáttug. Samkeppnisstofnun virðist ætla sér svo stór verkefni og tímafrek að hún virðist ekki ráða við að gefa okkur neytendum almennilegan stuðning í okkar daglega lífi. Verkalýðshreyfingin virðist slaka mikið á verðalagseftirliti sínu og það er reyndar eins og engar verðlagskannanir séu gerðar lengur. Það kann að vera misskilningur en þær eru í það minnsta ekki áberandi. Það virðist satt best að segja fáir vera að berjast fyrir neytendur en auðvitað verða þeir sjálfir að huga að sínu en samtakamáttur íslenskra neytenda er lítill.

Innflutningur - en samkeppnin gleymdist

Það er freistandi að nefna annað dæmi sem lýtur að merkingu vara. Nú streymir inn í landið erlent kjöt og þannig er ætlunin að auka samkeppni. En er það raunin þegar íslenska kjötið hverfur samhliða úr búðunum og neytandinn hefur þá ekkert valfrelsi? Margir íslenskir neytendur vilja innlenda framleiðslu, meðal annars vegna þess að þeir horfa til hollustu vörunnar. Verra er að stundum er hreinlega eins og það sé verið að smygla erlendu vörunni ofan í neytendur, til dæmis í gegnum unnar kjötvörur. Upprunamerkingar séu engar eða jafnvel villandi. Á veitingastöðum er mér tjáð að innlent nautakjöt bjóðist ekki og augljóslega er ekki verið að auka valfrelsið þar. Samkeppnin birtist í því að innlent kjöt hverfur. Er það það sem menn ætluðu sér?

Nú þegar verðbólga mælist yfir 4% á sama tíma og gengi krónunnar hefur verið að styrkjast og verðþróun almennt ætti að vera neytendum í hag hljóta menn að velta fyrir sér hvað sé í gangi. Hefur verslunin skilað til baka ávinningi af styrkingu krónunnar? Er ekki glaumurinn í kauphöllinni vísbending um að þau fyrirtæki sem þar eru á neytendamarkaði séu hugsanlega að gleyma viðskiptavinum sínum? Er þetta ekki umhugsunarvert?