c

Pistlar:

26. júlí 2021 kl. 11:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Byggingastíll og mannlíf

Það er ekki hægt annað en dáðst að elju fólks um allt land sem hefur lagt ómælda vinnu í að endurbyggja og lagfæra gömul hús og er nú svo komið að heildstæð mynd er farin að birtast í sumum sveitarfélögum, þar sem gömul og niðurnídd hús eru nú bæjarprýði. Sjálfsagt eru nokkrir áratugir síðan þetta starf hófst af krafti og ljóst að margir einstaklingar hafa lagt gríðarlega mikið á sig til að koma gömlum húsum í gott ástand en því miður hefur hið opinbera verið heldur tregt í taumi. Væri ekki eðlilegt að láta eigendur slíkra húsa njóta þess í einhverju ef þeir ráðast í verk sem þessi?

Sumir stjórnmálamenn hafa lagt nokkuð á sig við að helda mikilvægri heildstæðrar byggðar í gömlum stíl á lofti. Ljóst er að lög um verndarsvæði í byggð frá 2015 hafa ýtt við mörgum sveitarfélögum að hugsa þessi mál heildstætt en markmið þeirra var að stuðla að vernd og varðveislu byggðar sem hefur sögulegt gildi. Þetta var sérstakt baráttumál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra sem, hefur verið óþreytandi við að benda á mikilvægi varðveislu gamallar byggðar og að hugsa þá varðveislu heildstætt eins og birtist í lögunum. Framan af naut þessi sýn ekki mikils skilnings en nú eru stöðugt fleiri sveitarfélög að átta sig á þessu. Þar kemur einnig til þrýstingur frá einstaklingum sem átta sig á að verðmæti eigna þeirra eykst í heildstæðu umhverfi sem hefur einhverja fagurfræðilega merkingu.miðbær2

Merkileg tilraun á Selfossi

Á Selfossi er áhugaverð tilraun í gangi og birtist nú bæjarbúum í formi nýs miðbæjar. Þar er risin byggð 13 húsa sem hafa sögulega skírskotun og 20 hús til viðbótar á leiðinni. Hér í pistlum á sínum tíma var lýst yfir stuðningi við þessa tilraun en ekki var það sjálfgefið á þeim tíma. Nú þegar búið er að opna hluta þessa nýja miðbæjar er óhætt að segja að mikil ánægja ríki með hann. Selfoss hefur fengið nýja byggðafestu og nú bíða bæjarbúar bara eftir því að losna við umferðina sem fylgir því að þjóðvegur númer eitt fer í gegnum bæinn. Stundum gætti hræðslu við að missa slíka tengingu meðal annars vegna þeirra skoðunar að hún skapi einhverja verslunartraffík. Þannig hugsar enginn á Selfossi í dag og flestir bæjarbúar vonast til að losna við þjóðvegartenginguna sem fyrst svo bærinn geti vaxið á eigin forsendum.miðb3

Nýi miðbærinn hefur nú þegar gerbreytt mannlífinu á Selfossi og mun án efa móta það í framtíðinni. Selfossbær hefur vaxið mikið undanfarin ár og þanið sig út. Því má segja að það hafi verið kærkomið fyrir bæjarbúa að fá mannlífstorg þar sem þeir geta komið saman, verslað og sótt veitingastaði. Skemmtileg umfjöllun var um þetta í Morgunblaðinu um síðustu helgi. Um leið hafa Selfyssingar búið til miðpunkt mannlífs sem mun styrkja verslun og ferðamennsku á svæðinu. Það væri í raun eðlilegt að þeir skoðuðu áframhaldandi uppbyggingu miðbæjarins því þarna virðist formúlan fengin. Þá má búast við að fleiri sveitarfélög horfi til þess að byggja upp og styrkja miðbæi sína með svipuðum hætti. Eðlilegt er að áskilja að í gömlum bæjum verði byggð látin þróast með heildstæðum hætti. Víða má sjá áhugaverð tækifæri til þess en samspil samgangna og byggðaþróunar eru áhugaverðar eins og vikið hefur verið að áður hér í pistli.