c

Pistlar:

12. ágúst 2021 kl. 20:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fótboltasirkusinn að hefjast


Heilbrigð sál í hraustum líkama heyrðist gjarnan frá kappsömum meðlimum ungmennafélaganna í eina tíð. Íslendingar höfðu gaman af sögum um fornkappa og hraustir menn og konur hafa gjarnan orðið tilefni frásagna og munnmæla. Heimur íþrótta er í dag hluti af alþjóðlegum afþreyingariðnaði og við sem erum áhugasömum um sprikl og hopp hverskonar höfum getað stytt okkur stundir í sumar við að fylgjast með Evrópumeistarakeppni í knattspyrnu og nú síðast sjálfa Ólympíuleikana sem nú er nýlokið. Allt þó í sérkennilegu andrúmslofti veiru og lokanna og það er auðvitað stórfurðulegt að fylgjast með íþróttahátíð eins og Ólympíuleikunum þar sem leikið var fyrir tómum áhorfendapöllum.

En eins og áður segir þá er íþróttaheimurinn hluti af afþreyingariðnaði nútímans og miklir fjármunir streyma um þennan heim sem reynir að uppfylla þarfir aðdáenda samhliða því að stöðugt er verið að breyta forsendum á upplifun stuðningsmanna, meðal annars í gegnum áhorf. Hvað er átt við með því? Jú, það að horfa á og fylgjast með íþróttum virðist taka stöðugum breytingum. Lengi gerðu menn góðlátlegt grín að Bandaríkjamönnum sem létu leikinn þróast í takt við þarfir sjónvarpsiðnaðarins en í dag eru allir að reyna að sinna þeim sem greiðir reikninginn að lokum sem eru stuðningsmenn eða áhorfendur. Stundum virðist manni að knattspyrnuheimurinn velti á bjórdrekkandi karlmönnum og sjálfsagt er nokkuð til í því. Það getur verið næsta furðulegt að sjá hve heitt sumir geta tengst liðum í fjarlægum löndum. Pistlaskrifari er ekki með öllu saklaus af þessu og naut þess að sjá lið sitt, Leeds United, aftur meðal þeirra bestu á síðasta vetri. Fyrir vikið var að sjálfsögðu fjárfest í áskrift að ensku knattspyrnunni.prem

Ekki sjálfbær rekstur

Gríðarlegir fjármunir streyma um heim knattspyrnurnar og alltaf þarf að finna nýjar leiðir til þess að afla tekna því kostnaðurinn virðist stöðugt hækka og þá ekki síst laun íþróttamannanna. Rekstur félaganna er tæpast sjálfbær lengur. Hér var fyrr á árinu fjallað um hina furðulegu hugmynd að skapa einhverskonar ofurdeild knattspyrnunnar í Evrópu. Hugmyndin var andvana fædd og kostaði margan stoltan stjórnarformanninn starfið. Sjálfsagt vakti fyrir þeim að hámarka arðsemi vörumerkisins á sama tíma og þeir voru að fást við áhrif kórónuveirufaraldursins. En ofurklúbbar í ofurdeild var eitthvað sem fáum hugnaðist. Þó að vörumerki stærstu knattspyrnuliða heims séu sannarlega alþjóðleg þá eru takmörk fyrir því hve langt er hægt að ganga. Áhorfendur verða að endingu að geta samsamað sig félögunum til að upplifa hughrifin sem þetta veltur allt á. En breytingarnar í þessum rekstri eru einstakar eins og var vikið að í þessum pistli

Spilling og lyfjahneyksli

Heimur hinna alþjóðlegu íþróttasamtaka hefur oft verið umdeildur. Spillingarmál koma nokkurn veginn reglulega upp. Stundum er engin leið að skilja hvaðan forystumenn hinna einstöku samtaka sækja stuðning sinn. Fyrrum forseti Alþjóðaskáksambandsins (FIDE) trúði á geimverur og hafði að því er virtist lítinn lýðræðislegan bakgrunn. Flest alþjóðasamböndin hafa lent í hremmingum um lengri eða skemmri tíma og oft tengst gerspilltum stjórnvöldum í heimalöndum sínum. Afsagnir og fangelsanir forystumanna FIFA og UEFA eru til marks um það. Augljóslega voru greiddar fúlgur fjár undir borðið fyrir réttinn til að halda stærstu keppnirnar, ýmist viðkomandi stjórnvöldum til dýrðar eða einfaldlega í von um fjárhagslegan ávinning. Í kringum umboðsmannakerfi leikmanna virðast fjárglæframenn allsráðandi.

Oft sjást menn ekki fyrir. Lyfjahneyksli voru allsráðandi í þá tíð þegar Austur-Þýskaland sópaði til sín verðlaunum og enn þarf að banna Rússum aðgengi að Ólympíuleikum vegna vandamála með lyfjapróf. Áhöld eru um hve nákvæm lyfjapróf fara fram í stóru deildunum í Bandaríkjunum. Lyfjahneyksli skekja reglulega hinn alþjóðlega íþróttaheim og það vekur athygli að enn skuli ekki vera komið upp hneyksli með nýafstaðna leika.

Nýjustu vendingar í knattspyrnunni sýna mikla þolinmæði við furðulegum rekstri einstakra félaga um leið og reynt er að berjast fyrir einhverskonar fjármálalegum heilindum annars staðar. Þó að allir dáist að hæfileikum Leonel Messi þá er ekki víst að margir gleðjist yfir því ef hans nýjast lið fer að sanka að sér titlum. En hugsanlega sætta knattspyrnuáhangendur sig við allt ef sirkusinn heldur bara áfram!