c

Pistlar:

14. ágúst 2021 kl. 16:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Svissnesk sýn á íslenska matvælaframleiðslu


Glöggt er gests augað, segir máltækið. Við Íslendingar höfum oft í smæð okkar reynt að fiska upp úr erlendu fólki hvernig því líkar landið okkar. Dálítið heimóttalegt og af því eru til margar spaugilegar frásagnir en það er samt svo að það getir verið áhugavert og forvitnilegt að fá útlistun á því sem gengur vel og illa hér. Í Morgunblaðinu í dag er merkileg frásögn svissneskra hjóna, þeirra Laurent og Lolu Balmer, sem fluttu hingað til lands fyrir einu og hálfu ári ásamt tveimur sonum sínum. Þau eiga nú og yrkja jörðina Narfasel í Hvalfjarðarsveit þar sem þau stunda ræktun og sölu á grænmeti og búa sig nú undir að reka sveitaverslun á bænum en bygging hennar er á lokametrunum.

Viðtalið sýnir glögglega að þau, komandi frá Mið-Evrópu, upplifa mikil lífgæði og tækifæri hér á landi, öfugt við heimalandið þar sem landrými er lítið og erfitt að hefja búskap fyrir ungt fólk. Þau hafa greinilega undirbúið sig vel og hafa ákveðið að framleiða mat hér á landi. Það er kannski í andstöðu við hugmyndir margra um ágæti slíkrar framleiðslu en margir Íslendingar virðast trúa því að matvælaþörf (og öryggi) okkar verði best tryggt með framleiðslu annars staðar. Þannig upplifa þau Laurent og Lola ekki tækifæri landsins en þau höfðu aldrei komið til Íslands áður en þau ákváðu að flytja hingað. Laurent er menntaður vélfræðingur en fór síðar að læra búfræði.

Athyglisvert er að lesa hvernig fjölskyldunni hefur farnast á þessum stutta tíma. Hún selur nú grænmeti í sveitaversluninni Ljómalind í Borgarnesi en einnig til tveggja veitingastaða í nágrenninu. Þá er tekið við pöntunum á Facebook-síðu Narfasels og einu sinni í viku keyrir Laurent með vörur til viðskiptavina. Í versluninni verður aðallega grænmeti frá Narfaseli í boði en einnig ætla þau hjónin að selja vörur frá bæjum í nágrenninu, kjöt og annað. Þau virðast upplifa mikil tækifæri í sínum búskap.sviss

Ekkert pláss til nýbúskapar í Sviss

Spurður um ástæðu þess að fjölskyldan tók sig upp og kom til Íslands segir Laurent hana þá að skortur sé á jarðnæði í Sviss og dýrt sé að kaupa land undir ræktun. Þar sé nær ekkert pláss fyrir nýja bændur. Hann segir aðdragandann að búferlaflutningunum nokkuð langan. „Við könnuðum íbúafjölda í ólíkum löndum og sáum þegar við skoðuðum Ísland að hér bjuggu fáir og nóg pláss var fyrir alla. Við ákváðum að kanna þetta nánar og lesa okkur til um loftslagið og fórum að athuga með verð á fasteignum meðal annars. Við slógum síðan til og keyptum óbyggða jörð hér í Hvalfjarðarsveitinni,“ sagir hann í samtali við Morgunblaðið.

Þau hjón höfðu lært að rækta grænmeti áður en þau komu hingað. Þau höfðu sett við á stofn lítið fyrirtæki og ræktuðu og seldu matvörur í fimm ár áður en þau fluttu hingað. Laurent segir að jörðin í Sviss sem þau höfðu til umráða fyrir ræktunina hafa verið of litla fyrir fjölskylduna til að hafa í sig og á, einungis 1,5 hektarar en einungis var hægt að rækta grænmeti á tvö þúsund fermetra skika. Á bænum héldu hjónin tíu mjólkandi geitur og seldu geitaost, nokkur svín, hænur og kjúklinga til eigin nota. Ekki stórbúskapur þar.

En búskapurinn að Narfaseli er bylting fyrir þau hjón að því leyti að þar eru hektararnir margfalt fleiri eða tuttugu og átta talsins og því er nóg pláss til að auka framleiðsluna í framtíðinni. Spurður hvort veðurfarið hér á landi hafi ekki fælt þau frá segir Laurent það af og frá. Í þeim hluta í Sviss þar sem þau bjuggu hafi líka oft verið svalt. „Hér er hægt að rækta grænmeti utan dyra, eins og rófur, kartöflur, gulrætur og fleira, þannig að það er ekki vandamál. Svo byggðum við gróðurhús til að lengja tímabilið. Það verður að viðurkennast að við fluttum samt ekki hingað út af veðrinu, en það er samt oft bara betra að vinna utandyra þegar hitinn er ekki of mikill.“

Það er fróðlegt að lesa um áform þessara ungu hjóna frá Sviss sem upplifa Ísland sem land tækifæranna. Er ekki smá lærdómur í því?