c

Pistlar:

31. ágúst 2021 kl. 18:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íþyngjandi útboðsreglur stækka báknið

Eitt helsta umræðuefni flestra kosninga í vestrænum lýðræðisríkjum snýst með einum eða öðrum hætti um stærð og umfang ríkisvaldsins. Hve stór hinn sameiginlegi rekstur á að vera og til hve margra anga samfélagsins hann á að ná til. Niðurstaðan af því hefur svo áhrif á rekstur hinna sameiginlegu sjóða og skattheimtuna. Þetta gæti litið úr út sem klippt og skorið en mörk ríkisrekstrar og einkarekstrar eru oft ansi óljós. Þeir sem ganga lengst gegn ríkisrekstri segja að borgararnir eigi að fá að vera í friði og ríkið eigi einungis að tryggja lög og reglu. Aðrir sjá engin takmörk á það hve umfangsmikið ríkið eigi að vera. Kommúnismi er líklega hámark slíkrar hugsunar og hefur verið reynt víða með heldur döprum árangri. En auðvitað eru hlutirnir flóknari en það og flest þróuð samfélög hafa þróast yfir í einhverskonar málamiðlun sem meðal annars byggist á valddreifingu samfélagsins. Að engin einn þáttur yfirtaki aðra í samfélaginu.

Undanfarið hefur Morgunblaðið rakið nokkur dæmi þar sem svo virðist að þróunin sé þeim sem vilja minna ríkisvald í óhag. Þannig færist sífellt meiri starfsemi undir hatt ríkisins. Dæmi um það er innvistun stofnana hins opinbera á verkefnum almannatengla, forritara, grafískra hönnuða og fleiri stétta en margt af þessu er þjónusta sem er ný í okkar samfélagi. Verður til fyrir utan ríkisvaldið og færist svo inn í stofnanir þess með tíma og tíma, að því er virðist með hálf vélrænum hætti. En nú sjá menn að sama vanda megi sjá í verkfræðigeiranum eins og rakið var í grein í blaðinu í gær.byggingastarf

Nýleg rannsókn sýnir þannig framá á töluverða tilfærslu verkfræðinga frá einkageiranum yfir til hins opinbera. Haft er eftir Reyni Sævarssyni, formanns Félags ráðgjafarverkfræðinga að á undanförnum árum hafi þó nokkuð af reynslumesta og hæfasta fólkinu ráðið sig til opinberra aðila og verkfræðideildir stofnananna aukið við sig. Um leið hefur fækkað hjá verkfræðistofunum. „Samhliða þessu vinna stofnanir verkfræðitengd verkefni í auknum mæli innanhúss frekar en að kaupa þessa þjónustu utan frá,“ segir Reynir.

Íþyngjandi útboðsreglur

Hver skyldi vera ástæðan fyrir þessari þróun. Jú, ríkisvaldið ber sjálft ábyrgð á henni. Íþyngjandi útboðsreglur og ranghugmyndir um kostnað skipta mestu. Sem dæmi um umfang og hraða þessarar tilfærslu nefnir Reynir að tæknimenntuðum starfsmönnum Framkvæmdasýslu ríkisins hafi fjölgað úr 23 árið 2015 í 41 árið 2019. Á sama tímabili fjölgaði tæknimenntuðum hjá Nýjum Landspítala úr 6 í 22, og hjá Ríkiseignum úr 17 í 24. Hjá Vegagerðinni hefur félögum í Verkfræðingafélagi Íslands fjölgað úr 66 árið 2015 í 73 á þessu ári. Er svipaða sögu að segja af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, Landsvirkjun og Landsneti.

Á sama tíma hefur starfsfólki þriggja stærstu verkfræðistofanna fækkað um 66 manns, eða 7% af heildinni og oftar en ekki fólk með mikla reynslu sem hefur horfið á braut segir Reynir og telur hann margt geta skýrt þessa þróun og nefnir hann sem dæmi að stjórnendum stofnana geti þótt umgjörðin utan um útboð verkefna orðin það flókin að hentugra sé að a.m.k. innvista smærri verkefnum í meira mæli.

Það er sláandi að lesa eftirfarandi ummæli Reynis: „Útboðsreglur verða æ meira íþyngjandi og fylgir því bæði kostnaður fyrir þá sem skipuleggja útboðið og fara yfir tilboð, en ekki síður fyrir þá sem bjóða í verkin. Þá er ekki hægt að útiloka kvartanir og kærur að útboði loknu, með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Er tímabært að skoða nánar hvaða leiðir mætti fara til að einfalda útboðsferli stofnana en einnig ætti að fylgja fordæmi hinna Norðurlandaþjóðanna þar sem sjá má góð dæmi um vandaðar aðferðir við innkaup ráðgjafar þar sem fleiri mikilvægir þættir en verðið eru teknir inn við val. Við sjáum alltént þörf á að ræða stefnu hins opinbera varðandi þessa hluti því núverandi stefna eykur umfang hins opinbera og rímar ekki við t.d. stefnu yfirvalda um nýsköpun.“

Dregur úr sveigjanleika í rekstri hins opinbera

Morgunblaðið bendir á að önnur möguleg skýring er að stofnanir meti það að hagkvæmara sé að verkfræðivinna fari fram innanhúss en Reynir segir það viðhorf byggja á misskilningi. „Við sem störfum í greininni fáum með engu móti skilið þau rök að það sé dýrt að kaupa þjónustu verkfræðings, en þegar leitað er til verkfræðistofu er verkkaupi hins vegar að tryggja það að þeir sem leysa verkefnið af hendi hafi hárrétta reynslu og bakgrunn og séu líklegir til að vinna bæði hraðar og betur en verkfræðingur sem hefur kannski ekki unnið sambærilegt verkefni í lengri tíma. Er starf verkfræðinga ekki ósvipað störfum lækna að þessu leyti, að munur er á sérhæfingu fólks og reynslu, og getu til að leysa ýmis sérhæfð verkefni hratt og vel af hendi,“ segir Reynir.

Má því leiða líkum að því að innvistun verkfræðiþjónustu leiði til aukins kostnaðar fyrir hið opinbera og bendir Reynir á að stofnanir séu einnig í vanda staddar ef t.d. samdráttur í hagkerfinu veldur því að fjölmennar verkfræðideildir hafi úr fáum verkefnum að moða. Auk þess er þróun í átt til aukinnar innvistunar óhjákvæmilega til þess fallin að veikja verkfræðistofurnar og draga úr getu þeirra til að láta að sér kveða jafnt á innlendum sem erlendum markaði en þar hafa íslenskar verkfræðistofur náð eftirtektarverðum árangri eins og áður hefur verið vikið að hér.