c

Pistlar:

15. september 2021 kl. 21:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áhrif norsku kosninganna hér á landi?

Eins og víðast annars staðar í Skandinavíu eru norsk stjórnmál nokkuð rækilega blokkaskipt. Þannig skiptir ekki svo miklu máli að flokkarnir eru margir, þeir skiptast nokkuð jafnt yfirleitt á milli hægri og vinstri blokk. Ljóst er að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hættir núna eftir átta ár á valdastóli. Sem er lengri tími en henni var spáð í upphafi en hún tapaði 8 sætum og er nú með 37 þingmenn. Hægri, flokkur Solberg, og Framfaraflokkur töpuðu báðir verulegu fylgi. Ljóst er að kosningarnar eru áfall fyrir Evrópusambandssinna í Noregi og getur hugsanlega ýtt undir kröfur um endurskoðun EES-samningsins.erna

Flest bendir til þess að leiðtogi Verkamannaflokksins (AP), Jonas Gahr Störe, taki við sem forsætisráðherra. Ekki af því að Verkamannaflokkurinn hafi endilega sigrað heldur af því að vinstri vængurinn bætti við sig og mun Störe líklega setja saman vinstri/miðju-stjórn. Flokkur Störe er þó mun minni en var áður fyrr og bætti ekki við sig í kosningunum nú. Hann er með 48 þingmenn af 169 á norska þinginu. Af því leiðir að það þarf 88 þingmenn til að halda minnsta meirihluta. Breska blaðið The Guardian segir að nú blasi við einhverskonar vinstra/grænt bandalag en það sé langt í frá ljóst hvernig því verði háttað. Það getur vafist fyrir mönnum að útskýra niðurstöðuna núna og fremur hláglegt að lesa greiningu Þóru Tómasdóttur, upplýsingafulltrúa Advania, sem hefur starfað sem fréttaritari fyrir TV2 og norska ríkisútvarpið. Hún taldi niðurstöðuna sigur fyrir Verkamannaflokkinn í fréttaskýringu Fréttablaðsins í dag.

Stórsigur Miðflokksins

Það var hins vegar Miðflokkurinn í Noregi (SP) sem vann stórsigur í kosningunum og var sá sem bætti mestu við sig með 3,3% aukningu, 13,5% atkvæða og 28 þingmenn kjörna. Eitt af því sem hefur styrkt Miðflokkinn mest er umræða flokksins um orkumálin og barátta flokksins gegn innleiðingu á orkustefnu ESB, fyrst orkupakka 3 og nú orkupakka 4, sem kominn er fyrir norska þingið. Í því ljósi er eðlilegt að menn geri eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins hæer heima, og spyrji hvar sú umræða sé í kosningabaráttunni hér heima. „Eru bara allir búnir að gleyma valdaframsalinu sem felst í innleiðingunni. Er öllum sama þó við höldum áfram á þeirri braut að gefa valdið yfir orkuauðlindunum frá okkur í þessum smáskömmtum sem orkupakkarnir eru?“ spurði Sigmundur Davíð í færslu á Facebook.

Loftslagsmálin urðu ekki að því kosningamáli sem margir væntu í Noregi en Erna hafði lagt talsvert á sig við að uppfæra stefnu Hægri í þeim málum. Ungt fólk reyndi að mótmæla olíuvinnslu en Norðmenn eru raunsærri en svo að þeir séu tilbúnir að ræða það að hætta henni enda stendur hún undir 14% landsframleiðslunnar og 40% af útflutningi Norðmanna. Audun Bjørlo Lysbakken, formaður Sósíalíska vinstriflokksins, vill draga saman breiðfylkingu á vinstri vægnum en segir við Tha Guardian að viðræður verði erfiðar. Sósíalíski vinstriflokkurinn vill hætta olíuleit en Græningjar, sem fengu 7 þingmenn, vilja ganga enn lengra og hætta alfarið vinnslu árið 2035. Að sumu leyti var þetta talið svo fráleitt að kjósendur leiddu þetta hjá sér.

Uppgangur Miðflokksins skýrist að hluta til af landsbyggðaóánægju og umræða meðal annars um orkupakkana og ESB samstarfið. Verkamannaflokkurinn reyndist vera andvígur fjórða orkupakkanum þegar fulltrúar hans voru spurðir út í það. Því draga sumir þá ályktun að næsta ríkisstjórn Noregs sé líkleg til að hafna honum.

Breytt afstaða gagnvart ESB?

Gengi Miðflokksins norska og sú umræða sem hann stóð meðal annars fyrir mun líklega hafa áhrif í þá veru að Norðmenn færast lengra frá Evrópusambandinu. Miðflokkurinn var með þá stefnu að skipta EES út fyrir fríverslunarsamning og er í raun enn, en síðustu vikur hafa forystumenn flokksins þó eitthvað dregið í land, segja að þeir muni leggja mesta áherslu á að reyna að nýta neitunarvaldið og fá skýrslu um valkosti við EES. Líklega til þess að reyna að brúa bilið yfir til Verkamannaflokksins en Miðflokkurinn sagði í lok kosningabaráttunnar að hann vilji helst minnihlutastjórn með krötunum.

En gengi annarra flokka staðfestir en frekar þessa andspyrnu gegn ESB. Þannig bætti Sósíalíski vinstriflokkurinn (SV) við sig og er með 13 þingmenn en hann og er einnig á móti ESB og vill meira að segja upp EES-samstarfinu. Rauði flokkurinn náði þriðja besta árangrinum í kosningunum. Þar er allt á sömu bókina lært; gegn ESB og út með EES. Það er því ekki nema von að sumir stjórnmálaskýrendur leiði líkur að því að það mun eitthvað gerast í Noregi varðandi EES-samninginn á næsta kjörtímabili. Það er eitthvað fyrir Íslendinga að skoða. Því er það svo að þrír af fimm flokkum í vinstriblokkinni vilja að Noregur fari úr EES. Hvað skyldu Samfylkingin og Viðreisn lesa í það?störe

Ferill auðmannsins Störe

Hinn 61 árs gamli Störe hefur lengi verið áhrifamikill í sínum flokki eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins rifjar upp. Hann var helsti ráðgjafi Gro Harlem Brundtland forsætisráðherra og síðar lengi utanríkisráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenbergs sem missti völdin árið 2013. En hann lenti í skakkafölum og Erna Solberg náði völdum í átta löng ár fyrir Störe. Alskonar vandamál hafa herjað á hann Við tímamótin eru vandræðamál úr ráðherratíð Störe rifjuð upp. Morgunblaðið rifjar upp að það vakti deilur að Störe hafði sem utanríkisráðherra árið 2011 verið í sambandi við Khaled Meshaal, foringja Hamas, sem bæði Bandaríkin og ESB skilgreindu sem hryðjuverkahóp. Það flækti málið að Störe neitaði öllu slíku í fyrstu, en óskaði svo eftir að fá að breyta yfirlýsingum sínum.

Erna Solberg lenti í þungri ágjöf fyrir að hafa brotið sóttvarnarreglur og bauð þó aðeins nánustu ættingjum. Støre hefur glímt við alvarlegri hluti en hann lá undir gagnrýni árið 2017 þegar upplýstist að hann hefði haft handverksmenn í vinnu við sumarhús sitt án þess að greiða viðeigandi skatta og virðisaukaskatt. Þá var Störe gagnrýndur (2015) af ritara nefndar um Friðarverðlaun Nóbels fyrir að reyna í tíð sinni sem utanríkisráðherra (2010) að stöðva að andófsmaðurinn Liu Xiaobo fengi þau, þar sem Störe óttaðist að það yrði til þess að gera samskipti Kína og Noregs stirð. Og þá olli það Störe erfiðleikum sem leiðtoga Verkamannaflokks að hann er talinn auðmaður (eignir metnar á einn og hálfan milljarð í íslenskra króna) sem hann erfði. Það myndi líklega kalla á einhverja umræðu hér hjá öfundarkórnum.