c

Pistlar:

19. september 2021 kl. 10:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Álið farið að skila sínu aftur

Tonnið af áli í kauphöllinni með málma í London (LME) er nú um 2.900 dalir en þessi hækkun verða að teljast ánægjuleg tíðindi fyrir íslenskan áliðnað, orkufyrirtækin sem selja þeim orku og íslenskt hagkerfi sem nýtur góðs af þessu öllu. Hækkað álverð þýðir að afkoma ISAL er réttum megin við strikið sem er breyting eftir mikið tap undanfarin ár. Tapið þá var umtalsvert eins og rakið var í Morgunblaðinu í síðustu viku eða alls 227 milljónir dala árin 2018 til 2020, eða um 29 milljarðar króna á núverandi gengi. Mátti þá ekki miklu muna að álverum yrði lokað hér á landi eins og gert var víða um heim eins og farið var yfir í grein hér fyrir stuttu.

Bætt afkoma núna er vegna hækkunar á álverði. Fulltrúar álfyrirtækja fara augljóslega varlega í að ræða afkomu yfirstandandi árs „Við reiknum með að afkoman verði viðunandi og vonandi helst verðið hátt áfram. Reynslan kennir okkur samt að álmarkaðir eru sveiflukenndir og þá skiptir öllu að geta aðlagað reksturinn þessum sveiflum þannig að fyrirtækið sé fjárhagslega sjálfbært til lengri tíma litið. Það var það sem breytti raforkusamningurinn við Landsvirkjun snerist meðal annars um,“ segir Bjarni Már Gylfason talsmaður ISAL í samtali við Morgunblaðið.áliðnaður

Álverðstengin rafmagns

Landsvirkjun hefur beitt ýmsum nálgunum í samningum við álfyrirtækin en nú virðast menn telja að álverðstenging verði að vera. Það er stefnubreyting á ný hjá landsvirkjun sem um tíma vildi festa rafmagnsverð við önnur viðmið. Nú er komin inn álverðstenging að hluta í raforkusamninginn og verð á lykilhráefnum eins og súráli, íblöndunarefnum og skautum getur verið að þróast með öðrum hætti en álverð. Sem stendur eru horfur góðar en eins og sjá má af þróuninni í ár getur hún verið mjög hröð og getur líka gengið í hina áttina, segir talsmaður ISAL.

Einn af styrkleikum ISAL og hinna íslensku framleiðendanna er að geta framleitt mjög margar ólíkar vörur allt eftir þörfum viðskiptavina, í raun er öll framleiðsla ISAL sérvara. Félagið hefur sem betur fer fjárfest mikið og steypuskáli þeirra er fullkominn og starfsfólk vel þjálfað og hæft ISAL framleiðir nú meira út úr steypuskála en sem nemur okkar eigin álframleiðslu. Það sem af er ári hafa þeir selt um 20.000 tonnum meira en sem nemur þeirra eigin álframleiðslu.

Kaupa meira af raforku

Þessi velgengni áliðnaðarins hlýtur að setja þrýsting á frekari orkukaup sem gætu haft mikil efnahagsleg áhrif en verið pólitískt viðkvæm. Ómögulegt er að segja hvaða stemning verður í komandi ríkisstjórn fyrir stækkun og fleiri virkjunum. Raforkunotkun helst jú í hendur við framleiðslu á hverjum tíma. Eins og allir ættu að vita var ISAL var ekki rekið á fullum afköstum í fyrra en eftir að skrifað var undir breyttan raforkusamning var framleiðslan aukin verulega og raforkunotkun eykst í samræmi við það. Reiknað er með fullri framleiðslu í ár segir Bjarni Már. Áhugavert verður að sjá hvað aframhald verður á þessu.