c

Pistlar:

20. september 2021 kl. 9:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Viðvörunarorð seðlabankastjóra

Kosningar eru áhugvert tækifæri til að setja fram nýjar hugmyndir og nýjar lausnir. Eðlilega horfa menn á það sem var og það sem getur orðið, í senn eru kjósendur að meta gerðir fortíðar og um leið trúverðugleika frambjóðenda þegar kemur að því sem þarf að gera í framtíðinni. Með hátíðlegra orðalagi má segja að kosningar geti verið val á framtíð en oft er það nú svo að leiðtogar þurfa að aðlaga sig raunveruleikanum þegar þeir eru komnir til valda. Kjósendur upplifa það sem svik en það er ekki rétt. Stjórnmálaflokkar lifa í fjölflokkakerfi og ríkisstjórnir spretta fram úr því. Niðurstaðan er málamiðlun.

Íslenska þjóðfélagið er ekki grátt leikið eins og sumir eru að reyna að halda fram en sannarlega þarf að vinna í mörgum hlutum, halda áfram að skerpa á stefnumótun sem byggist á einhverskonar þekkingu og reynslu fortíðarinnar og takast á við úrlausnarefni framtíðarinnar. Þetta á við um flest svið samfélagsins. Innviðir og kerfin okkar eru ekki ónýt en þau þarf að bæta og laga, það þarf að finna skynsamlegt jafnvægi á milli reksturs hins opinbera og einkaframtaksins. Um leið þarf að meta hve stórt ríkisvaldið þarf að vera og hve miklir peningar eru fluttir á milli í gegnum skattkerfið.ásgeir

Vaxtahækkun eða pólitísk upplausn?

Þegar kemur að hagstjórn í landinu þá er hún oftast samspil af nokkrum þáttum en rekstur ríkissjóðs og peningastefna seðlabankans hverju sinni eru þar lykilþættir. Í þróaðri hagkerfum bregst seðlabanki við fjáraustri með því að hækka kostnaðinn við það og það er fyrst og fremst gert í gegnum stýrivaxtahækkanir. Við Íslendingar höfum notið til þess að gera lágra vaxta sem hafa skipt sköpum undanfarið. Það væri illt að glata þeirri stöðu í kjölfar pólitískrar upplausnar á vinstri vængnum.

En það er svo sem búið að vara kjósendur við. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hvetur næstu ríkisstjórn til að draga úr ríkisútgjöldum og hætta hallarekstri. „Það mun koma í bakið á okkur ef ríkissjóður heldur áfram að eyða á sama tíma og atvinnulífið er að sækja í sig veðrið og nýir sprotar eru að skjóta upp kollinum. Þá er okkur í Seðlabankanum nauðugur sá kostur að hækka vexti til þess að hægja á einkageiranum,“ segir Ásgeir í viðtali í nýjasta hefti Þjóðmála. Þar ræddi hann ýmis málefni á borð við stöðu efnahagsmála, verðtryggingu, menntamálin, Sundabrautina ásamt ummæli sín um hagsmunahópa í vor.

Pistlaskrifari var ósáttur við síðustu vaxtahækkun Seðlabankans en hún hefði átt að senda skilaboð til kjósenda. Hins vegar verður ekki horft framhjá því að fjárfestar treysta krónunni betur, traust til Seðlabankans hafi aukist og meiri trúverðugleiki ríkir yfir ríkisfjármálastefnunni. Það verður að teljast jákvæð þróun en getur hratt breyst.