c

Pistlar:

26. september 2021 kl. 18:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glæsilegur miðbær á Selfossi

Uppbygging nýja miðbæjarins á Selfossi er eitt athyglisverða byggðaþróunarverkefni seinni tíma hér á Íslandi en hann hefir áður verið gerður að umtalsefni í pistlum hér. Það var á þeim tíma sem óvissa var um verkefnið og talsverð andstaða var við framtakið framan af, meðal annars vegna þess að grunur var um að einhver gæti nú hagnast á þessu öllu saman! Það er hluti af gremjustjórnmálum sem margir hafa tamið sér. Liður í því var furðuleg fréttamennska Stundarinnar sem vildi draga verkefnið inn í Samherjamálið á einhverjum tímapunkti. En núna blasir við að allir græða á framtakinu. Selfyssingar eru komnir með miðbæ sem mun verða glæsilegt bæjartákn og efla mannlíf og atvinnulíf í bænum.selfoss1

Pistlaskrifari átti þess kost fyrir stuttu að skoða bæinn undir öruggri leiðsögn Valdimars Bragasonar prentara sem allir þekkja á Selfossi. Valdimar leysti verkið vel af höndum og ljóst að saga bæjarins hefur vaknað til lífsins með þessum hætti þó að fæst húsanna séu uppruninn frá Selfossi. Það eru kannski helst þau hús sem blasa við þegar komið er að nýja miðbænum, og munar þar mest um endurbyggt mjólkurbúshús sem stóð aðeins í þrjá áratugi á Selfossi sem má undrast eftirá að hyggja. Húsið var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og ber höfundareinkennum hans fagurt vitni. Þar er nú skemmtileg og glæsileg mathöll á þremur hæðum. Í kjallaranum er mjólkurvinnslu gert hátt undir höfði með glæsilegri sýningu og á efstu hæðinni er verið að innrétta píanóbar. Nýir tímar hafa haldið innreið sína á Selfossi.

Fleiri hugsa sér til hreyfings

Nú mun einn fjórði nýja miðbæjarins vera risinn en velgengni verkefnisins gefur færi á að endurmeta það og hugsanlega verða reist fleiri hús en þegar hefur verið ráðgert. Vel hefur gengið að leigja út það sem á að fara í leigu og einnig að selja það sem á að selja en það mun einkum vera íbúðir á efri hæð. Stoltir Selfyssingar segja að Guðni Ágústsson sé komin heim en hann hafi tryggt sér íbúð í nýja miðbænum.selfoss2

En það blasir við að þessi nálgun í hönnun og þróun hefur unnið hug og hjörtu bæjarbúa og þó víðar væri leitað. Sagan segir að mörg bæjarfélög fylgist með framvindu mála enda hafa margir bæir byggst upp án eiginlegs miðbæjar eins og Selfoss. Þetta er sameiginlegt einkenni á fjölmörgum bæjarfélögum sem tóku að stækka um og eftir stríð, þau skortir sérkenni og miðju. Sagt er að Keflvíkingar séu sérstaklega áhugasamir og þá hefur verið upplýst að Bílddælingar hyggist endurbyggja gömul hús frá tíma Péturs Thorsteinssonar og þannig skapa vísi að miðbæ. Staðreyndin er sú að bæjarmynd sem þessi fellur fólki vel í geð. Þess er vel gætt að gefa sögunni gott rými og á öllum húsunum á Selfossi eru smekkleg upplýsingaskilti sem segja sögu húsanna. Eins og áður segir þá eru þau ekki uppruninn á Selfossi en virðast ætla að falla vel inn í hina nýju bæjarmynd og skapa nýja möguleika og nýtt andrúmsloft. Þarna virðist hafa tekist vel til að öllu leyti.