c

Pistlar:

30. september 2021 kl. 15:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Japan: Kjarnorkan er dauð - lengi lifi kjarnorkan!

Í mars síðastliðnum minntust Japanir þess að 10 ár voru liðin frá kjarnorkuslysinu í Fukushima. Það varð í kjölfar þess að jarðskjálfti af stærðinni 9 varð úti fyrir norðausturströnd Japans síðdegis 11. mars 2011. Hann leiddi til þess að flóðbylgja sem varð allt að 14 metrar á hæð skall á norðausturströndinni og þar á meðal kjarnorkuverinu í Fukushima með þeim afleiðingum að sprenging varð og geislavirk efni sluppu út í umhverfið. Um er að ræða eitt stærsta kjarnorkuslys sögunnar, líklega næst á eftir Chernobyl.Fukushima

Eins og rakið var hér í síðasta pistli hafði slysið gríðarleg áhrif á afstöðu til nýtingar kjarnorku og Þjóðverjar ákváðu að loka sínum verum í framhaldinu. Þær ákvarðanir rýma hins vegar illa við markmið þjóða í loftslagsmálum enda má segja að engin ein framleiðsluaðferð hafi jafn lítil áhrif á koldíoxíðmagn (koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi) í umhverfinu og kjarnorkuver. Þeir finnast sem segja að án nýtingar þeirra við rafmagnsframleiðslu verði ómögulegt að ná markmiðum í loftslagsmálum. Í dag er um 10% rafmagnsframleiðslu heimsins komin frá 445 kjarnorkuverum um allan heim. Stuðningsmenn kjarnorkunnar segja hægðarleik að auka þessa framleiðslu verulega og styðja þannig á umtalsverðan hátt við loftslagsmarkmiðin.

Gríðarlegt tjón

En tjón Japana var mikið. Hátt í 16.000 einstaklingar létust af völdum flóðbylgjunnar og enn er um 2.500 manns saknað. 120.000 byggingar eyðilögðust gersamlega og mun fleiri urðu fyrir miklum skemmdum. Alls eyðilögðust 404.937 heimili. 154.000 íbúar sem bjuggu í 20 km. radíus frá verinu þurftu að yfirgefa svæðið. Alls yfirgáfu 470.000 manns hættusvæðin áður en yfir lauk. Fjöldi þeirra sem hröktust frá heimilum sínum vegna hinnar gífurlegu eyðileggingar hefur ekki átt afturkvæmt.fukushima (1)

Enn er langt í land með hreinsun geislavirkra efna úr kjarnorkuverinu og nærliggjandi svæðum. Áætlanir eru um að því verði lokið fyrir árið 2051. Hins vegar eru margar áskoranir sem takast þarf á við áður en því markmiði er náð. Meðal annars að fjarlægja geislavirk efni úr kjarnakljúfunum en stærstu verkin lúta að því að safna saman menguðu vatni úr verinu en það er sett í þartilgerða tanka á svæðinu. Einnig er gríðarleg vinna við að safna saman geislavirkum jarðvegi sem settur er í stóra plastsekki.

Þá segir sig sjálft að kostnaðurinn vegna hreinsunarinnar er gríðarlegur og ekki sér enn í land með hann. Samkvæmt áætlunum stjórnvalda verður hann 8 þúsund milljarðar jena (sem er lík upphæð í íslenskum krónum talið) þegar verkin lýkur en Rannsóknarmiðstöð japanskra efnahagsmála gerir ráð fyrir að hann verði á bilinu 11 þúsund milljarðar jena upp í 51 þúsund milljarðar jena. Þá er ótalinn beinn og óbeinn efnahagslegur skaði fyrir japanskt efnahagslíf.

Ný öryggisviðmið

Hina miklu áhrifa sem hamfarirnar höfðu á japanskt samfélag og stjórnmál gætir enn og reyndar náðu þau langt út fyrir landsteina Japans, ekki síst í orkumálum. Þegar hamfarirnar dundu yfir voru 54 kjarnorkuver starfandi í Japan. Í kjölfar slyssins var kjarnorkuverunum lokað og innleiddar strangari reglur um rekstur og eftirlit. Nýjar öryggisviðmiðanir sem kynntar voru til sögunnar árið 2013 gera ráð fyrir að kjarnorkuver verði að geta staðið af sér náttúruhamfarir, hryðjuverkaárásir (t.d. að flugvélum sé flogið á þau) og fleira án þess að hætta sé á að geislavirk efni sleppi út í andrúmsloftið.

Vegna hins mikla kostnaðar við að uppfylla strangari öryggiskröfur hafa mörg veranna sem lokuðu ekki séð sér fært að opna á ný. Mörg voru gömul eins og Fukushima sem var tekið í notkun árið 1971. Þannig hafa aðeins níu ver opnað aftur. Átján til viðbótar vinna að því að uppfylla öryggiskröfur og stefna að opnun í náinni framtíð. Ljóst er hins vegar að 24 kjarnorkuver hafa lokað varanlega.

Verulegur samdráttur framleiðslu

Við þessar breytingar minnkaði kjarnorkuframleiðsla verulega. Árið 2010 komu 25% raforkuframleiðslunnar úr kjarnorku en hún var aðeins 6% í fyrra. Japanir eru nú í 12. sæti þeirra þjóða sem framleiða rafmagn með kjarnorku. Bandaríkin og Kína tróna efst.

Það ætti ekki að koma á óvart að kannanir hafa leitt í ljós að viðhorf almennings til kjarnorku hefur breyst verulega. Fyrir hamfarirnar studdu 87% almennings kjarnorkuframleiðslu en árið 2013 var þessi tala komin niður í 24,9%. Í dag eru aðeins 12,3% fylgjandi kjarnorku og ríflega 60% telja að hætta eigi slíkri orkuframleiðslu strax eða draga úr henni smám saman og leggja af.

Við blasir að japanskur almenningur hefur í dag litla trú á kjarnorku sem orkugjafa. Engu að síður gera stjórnvöld ráð fyrir að hún gegni stóru hlutverki í orkustefnu landsins til framtíðar og þá sérstaklega þegar kemur að grænum hagvexti.fuku3

Kjarnorka er áfram hluti af orkustefnunni

Samkvæmt orkustefnu japönsku ríkisstjórnarinnar frá árinu 2018 verður kjarnorka 20 til 22% af heildar orkuframleiðslu landsins árið 2030. Endurnýjanleg orka verður 22 til 24% og kolefniseldsneyti 56%. Samkvæmt stefnu stjórnvalda um grænan hagvöxt, sem birt var í lok síðasta árs, er gert ráð fyrir að Japan verði kolefnishlutlaust árið 2050. (Nágranar þeirra í Kína miða við 2060) Er meðal annars gert ráð fyrir að kjarnorka verði nýtt til vetnisframleiðslu sem þátt í að mæta orkuþörf landsins. Ríkisstjórn Japans hefur eyrnamerkt 466 milljarða jena til að vinna að framleiðslu vetnis, sólarorku og rafhlaðna til að geyma raforku. Einnig er gert ráð fyrir auknum fjárfestingum til að bæta orkuflutningskerfi og til að styðja við þróun rafbíla og efnarafalsbíla.


Atvikið í Fukushima hefur einnig haft áhrif á utanríkismál Japana en nágranaþjóðir hafa verið ósáttar við hreinsun og sérstaklega þá ætlun að veita geislavirkum úrgangi út í Kyrrahafið. Í janúar á þessu ári lýsti Suga forsætisráðherra því síðan yfir að stjórnvöld hygðust setja á laggirnar sjóð með 2 þúsund milljörðum jena sem auk skattaívilnana, sem á að nýta til að hraða þróun næstu kynslóðar orkugjafa. Japanir eins og aðrar þjóðir eru í kapphlaupi við tímann.