c

Pistlar:

11. október 2021 kl. 17:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skógrækt og loftslagsvísindi

Dags daglega er almenningi sagt að loftslagsumræðan stjórnist af vísindum og innan vísindaheimsins ríki sátt um hvert stefni. Þeir sem hafi aðrar hugmyndir eru kallaðir efasemdamenn og þann hóp fylli fólk sem í raun afneiti vísindum og séu því afneitunarsinnar. Þetta er ákveðin einföldun á umræðunni en svona birtist hún með reglulegu millibili. Þessi vísindalega nauðhyggja (eða ætti maður að segja tvískinnungur) hefur verið gerð að umræðuefni hér í pistlum enda fyllsta ástæða til þess að halda áfram að rýna í þær rannsóknir og þau gögn sem talin eru liggja til grundvallar loftslagsvísindunum. Þó ekki sé nema til að halda á lofti þeirri efahyggju og stanslausu þekkingarleit sem er undirstaða allra vísindalegra rannsókna.

En ekki er síður ástæða til að skoða og meta þau úrræði sem talað er fyrir þegar kemur að loftslagsvandanum. Ef koldíóxíðmagni (koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi) er orsakavaldur þegar kemur að hlýnun jarðar þá eru augljóslega tvær leiðir til að bregðast við því, að draga úr myndun koldíóxíð og að binda kolefni. Svo virðist sem af pólitískum ástæðum sé höfuðáhersla margra umhverfissamtaka á að draga úr koldíóxíð og afneita tilraunum til bindingar. Þetta sést til dæmis glöggt í málflutningi Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands.stafa

Hin vísindalegi skógur

Í aðsendri grein eftir Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra í Morgunblaðinu í dag gerir hann skógrækt og möguleika hennar til að stuðla að bindingu kolefnis að umtalsefni. Þar er Þröstur að bregðast við skoðunum þeirra Sveins Runólfssonar og Andrés Arnalds sem eru þekktir landgræðslumenn en virðast stýrast af þjóðernislegum áherslum þegar kemur að skógarplöntum. Þeir hafa meðal annars barist gegn notkun stafafuru hér á landi og þekkt er að Sveinn lét fella allstóran stafafuruskóg á Suðurlandi, svona upp á sitt einsdæmi. Það þarf varla að tak áfram að Sveinn og Andrés telja stafafuru ágenga plöntu.

Þröstur segir hins vegar að hvorki stafafura né aðrar trjátegundir séu ágengar hér á landi og gerir tilraun til að skilgreina hvað felst í því að vera ágeng planta. „Að vera innflutt, sá sér lítillega út og vera áberandi er ekki það sama og að vera „ágeng“ lífvera sem skv. lögbundinni skilgreiningu veldur rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni,“ skrifar Þröstur.

Andstaða við skógrækt sem loftslagsúrræði

Þröstur telur að grein þeirra Sveins og Ara hafi í raun ekkert með stafafuru að gera. Fyrir þeim vaki í raun að tala niður skógrækt og draga úr möguleikum hennar sem aðferð við að takast á við loftslagsbreytingar. Þröstur spyr réttilega hvað þeim gangi til með því.

Í drögum að landsáætlun í skógrækt er lagt til að skógrækt megi nota til að takast á við hraðfara loftslagsbreytingar af mannavöldum og hjálpa til við að Ísland nái að verða kolefnishlutlaust árið 2040, eins og stjórnvöld hafa sett stefnu um og skógræktarlög gera ráð fyrir. Landsáætlun í skógrækt fylgir því mjög vel stefnu stjórnvalda og á allt þetta bendir Þröstur með réttu. Til að sefa menn eins og Svein og Ara er vísað til notkunar á birki til að ná þeim markmiðum þó birki bindi kolefni mun minna og verr en aðrar tegundir. Stóraukin ræktun birkis er raunar mesta stefnubreytingin í landsáætluninni, sem þeir félagar virðast ekki gera sér fyllilega grein fyrir en viðurkenna aðeins með semingi segir Þröstur.

En ekki nóg með það að birkinu hafi verið gert svona hátt undir höfði heldur á einnig að nota áfram ræktaðar innfluttar trjátegundir sem vaxa hraðar, binda meira kolefni og skila meiri hagrænum verðmætum en birkið. Það hlýtur að vigta eitthvað að Skógræktarstjóri Íslands segir það að sleppa notkun þeirra væri glapræði.

120 ára reynsla af innfluttum trjátegundum

Þröstur bendir á að við Íslendingar höfum 120 ára reynslu af innfluttum trjátegundum og vitum hvers við megum vænta af kolefnisbindingu þeirra og vistfræðilegri hegðun og bætir við. „Þar er reyndar stafafura meðal bestu trjáa sem við höfum, enda vex hún vel á rýru landi sem nóg er af hérlendis og aðrar tegundir vaxa illa á eða ekki.“

Það er ekki nema von að menn spyrji sig hvernig hægt er að sleppa svona liðsauka í loftslagsbaráttunni, nú þegar margir tala fyrir því að lýsa yfir neyðarástandi? Þröstur undrar sig á að þeir félagar skuli titla sig áhugamenn um náttúruvernd, en kjósa að afneita gagnsemi skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Miðað við það sem er undir að áliti margra náttúruverndarsinna þá er undarlegt að sjá svona málflutning. Eru það vísindin sem eru að tala þarna eða einhver hjávísindi?