c

Pistlar:

20. október 2021 kl. 11:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Varnarsigur sjávarútvegsins


Það er ljóst þegar rekstur sjávarútvegsins á síðasta ári er skoðaður að stjórnendur þar hafa unnið mikinn varnarsigur. Afkoma sjávarútvegsins árið 2020 var mjög ásættanleg þrátt fyrir að rekstur ársins hafi eðlilega mjög mótast af baráttunni við kórónuveiruna. Hér var í pistli á síðasta ári vakin athygli á því að aðlögunarkraftur sjávarútvegsins væri gríðarlegur. Það hefur komið á daginn nú þegar niðurstöðutölur liggja fyrir.

Þegar kórónuveiran dundi yfir lokaðist nánast allt, bæði hér á landi og erlendis, eins og ætti að vera mönnum í fersku minni. Í öllum tilfellum átti það við að alger umskipti urðu á öllum markaðssvæðum. Eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu varð því sem næst engin enda strangar lokanir í gildi víðast hvar. Ferskur fiskur frá Íslandi hafði fram að því einkum farið inn á veitingahús, hótel, í mötuneyti, til fyrirtækja í veisluþjónustu eða í opin fiskborð í verslunum. Þetta lokaðist allt á nánast einni helgi. Stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja urðu því að leita nýrra markaða, aðlaga vinnslulínur sínar því og gæta um leið að sóttvörnum og öryggi starfsmanna sinna. Þetta var ekki vandalaust verk en tókst aðdáunarlega í flestum tilvikum. Um þetta eru ekki skrifaðar margar fréttir.sjávar2020

Samantekt Deloitte

Nú þegar uppgjör liggur fyrir sést að rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og fiskeldisfyrirtækja gekk ágætlega á síðasta ári. Uppgangur fiskeldisins er með ólíkindum og stöðugt fleiri störf að verða til þar. Þetta má lesa úr samantekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte sem kynnt var á hinum árlega Sjávarútvegsdegi, sem var í gær. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Deloitte og Samtaka atvinnulífsins og var haldin í Hörpunni að viðstöddum forseta íslands sem flutti áhugavert erindi um fiskveiðideilur okkar Íslendinga en um það er hann að skrifa meðfram öðrum verkum.

Samantekt Deloitte hefur skapað áhugaverðan gagnabanka sem byggist á ársuppgjörum fyrirtækja sem hafa yfir að ráða um 90% af úthlutuðu aflamarki, sem síðan er skalað upp í 100%. Þar kemur margt athyglisvert fram sem vert er að skoða en mest um vert er að uppgjörin sýna þá hagræðingu og framlegð sem nú er að finna í íslenskum sjávarútvegi. Heildartekjur í sjávarútvegi námu 284 milljörðum króna í fyrra, sem er aukning um 4 milljarðar frá árinu á undan. Framlegð nam 72 milljörðum króna og dregst saman um einn milljarð.

Hagnaður dregst saman og skuldir aukast

Hagnaður dregst verulega saman, eða úr 43 milljörðum árið 2019 í 29 milljarða. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja halda áfram að aukast og eru nú um 461 milljarður króna. Bókfært eigið fé nemur 325 milljörðum króna. Arðgreiðslur í sjávarútvegi í fyrra námu 21,5 milljarði króna og hækka frá fyrra ári um tæpa 11 milljarða króna. Fram kom í kynningu Deloitte að helmingur af þessum arðgreiðslum tilheyra dótturfélögum Samherja, en þau greiddu arð til móðurfélags. Móðurfélagið greiddi ekki út arð til sinna hluthafa. Er því eingöngu um greiðslur innan fyrirtækjasamstæðu að ræða.ferskfisk

Tekjur af fiskeldi aukast jafnt og þétt

Bein opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja námu í fyrra um 17,5 milljarði króna. Fjárfestingar á árinu eru á svipuðu róli og undanfarin ár, en þær námu 24 milljörðum króna í fyrra, sem er um þriðjungur af EBITDA.

Tekjur af fiskeldi hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og hafa aldrei verið eins miklar og í fyrra, eða um 33,7 milljarðar króna. Þrátt fyrir það var lítilsháttar tap á rekstrinum, eða sem nemur 62 milljónum króna. Hagnaður á árinu 2019 var tæpir 2 milljarðar króna. Markaðsverð á laxi lækkaði á árinu og er það rakið til áhrifa af COVID faraldrinum. Veruleg aukning hefur orðið í fiskeldi og framleitt magn í fyrra var 41 þúsund tonn. Eins og áður segir þá er mikill og hraður vöxtur í fiskeldi síðustu ár. Um leið hefur íslenskur sjávarútvegur sýnt sveigjanleika sinn og styrk. Allt skiptir þetta miklu fyrir íslenskt þjóðarbú.