c

Pistlar:

22. október 2021 kl. 17:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hin mörgu andlit borgarinnar

Ég var ekki búinn að búa lengi í Reykjavík þegar ég uppgötvaði að það reyndust furðu margir menningarheimar hér í þessari til þess að gera litlu borg. Þetta var ákveðin upplifun fyrir sveitarmanninn og eftir að ég hóf að vinna í blaðamennsku fór ég að hitta fólk sem geta verið erfitt að staðsetja í tilverunni og það átti sjálft erfitt með að átta sig á hlutverki eða stöðu sinni. Hluti þess að starfa á fjölmiðlum var að taka á móti fólki með skrítnar frásagnir og upplifanir. Margir voru sannfærðir um tilveran væri allt öðru vísi en við blasti og færðu fyrir því rök af mikilli innlifun. Þetta gat boðið upp á skemmtileg samtöl og undarlegar fréttir.

En svo gerðist ég smáborgari í þessari tilveru og settist að fyrir 32 árum í því hverfi sem ég nú bý í. Ég segi í gamni að það sé stutt niður í bæ og stutt út úr bænum úr póstnúmeri 104. Að öðru leyti er þetta afskaplega gott hverfi, barnvænt um margt, góðar og öruggar samgönguleiðir og svo höfum við sem hér búum aðgang að útivistarparadís eins og Laugardalnum og þá er stutt upp í Elliðaárdal. En Reykjavík breytist og þó að furðu fátt hafi breyst hér í hverfinu þá eru horfur á því að þær verði meiri í framtíðinni. Þéttingastefna Reykjavíkurborgar mun dynja á okkur í Vogunum eins og öðrum.laugard

Til að réttlæta Borgarlínu

Eitt lykilverk borgarskipulagsins er Borgarlínan svokallaða sem kallar á gríðarlega þéttingu enda á að fjármagna hana með innviðar- og gatnagerðargjöldum. Hún á að liggja í gegnum Suðurlandsbraut sem afmarkar hverfi 104 til vestur. Hinum megin er Skeifan sem hefur verið þjónustu og verslanamiðstöð okkar í hverfinu eins og margra Reykvíkinga. Þar lengra í burtu er Ármúlinn með skrifstofu- og atvinnuhúsnæði. Allstaðar á nú að setja niður byggð sem virðist eiga að blanda saman atvinnuhúsnæði og íbúðum. Verslanir á jarðhæð og íbúðir hið efra, hin gullna formúla borgarstjórnarmeirihlutans.

Á Orkureitnum svokallaða munu koma um 440 íbúðir en þannig er það teiknað núna en slíkt hefur tilhneigingu til að fjölga. Nú þegar eru framkvæmdaaðilar búnir að kaupa og selja og hagnast á öllu saman án þess að nokkurt hús hafi risið. Augljóst er að Borgarlína á Suðurlandsbraut verður réttlætt með nýrri húsaröð báðum megin við alla Suðurlandsbrautina og þá fær Laugardalurinn engin grið. Miðað við þetta verður síðan Glæsibæjarreiturinn tvöfaldaður inn í Laugardalinn. Þetta er í takt við annað sem er verið að kynna í nærliggjandi hverfum, svo sem Bústaða- og Háaleitishverfi. En það er talsvert áfall að sjá að gert er ráð fyrir verulegri byggð inn í Laugardalinn, sem auðvitað mun þýða að mikill trjágróður hverfur auk þess sem útivistarrýmið minnkar verulega.

Vogabyggð en engin tenging

Þessa daganna eru íbúar í Fossvoginum að ganga í gegnum áfallið eftir kynningu á nýrri byggð við Bústaðaveg og eiga sjálfsagt eftir að verða fyrir fleiri áföllum. Við hér í póstnúmeri 104 eigum líklega eftir að ganga í gegnum sama ferli. Við erum rétt að kyngja þeirri hugmynd að það er verið að byggja 2000 íbúðir hér fyrir neðan okkur í Vogabyggð. Þar er byggt þétt og umferðaröngþveitið er áberandi þó allt sé bara á byggingastigi. Varla að maður sjái hvernig eigi að koma niður einu pálmatré, hvað þá tveimur. Skeiðavogurinn, sem liggur meðfram skólum hverfisins, er í raun eina samgönguæðin sem virkar í burtu frá Vogabyggð. Þegar búið var að hanna hverfið virtust menn átta sig á að börnin þar yrðu að fara í skóla upp í Vogaskóla. Til að komast þangað þarf að fara yfir eina meginumferðaræð borgarinnar, Sæbraut. Í fáti var ákveðið að bjóða upp á rútuferðir upp í skólana. Í öðru fáti var ákveðið að seta Sæbraut í stokk í von um að hægt sé að senda ríkinu reikninginn. Kostnaðurinn við þennan stokk verður sjálfsagt 20 til 30 milljarðar króna en útfærsla hans liggur ekki fyrir. Stokkur virðist reyndar lykilorð þegar borgaryfirvöld eru búin að klúðra öllum málum.

Þetta er mikil breyting fyrir okkur í hverfi 104 sem höfum til þessa verið svolítið gleymdi hluti Reykjavíkur. Til að friða okkur er boðið öðru hvoru upp á „lýðræðisveislu“ þar sem við getum kosið á milli viðhaldsframkvæmda! Þegar ég síðan les lofgjörð minnar gömlu vinkonu Kolbrúnar Bergþórsdóttur um Dag borgarstjóra í leiðara Fréttablaðsins átta ég mig á að enn eru margir menningarheimar í Reykjavík og við Kolbrún búum ekki í einum og sama heiminum.