c

Pistlar:

26. október 2021 kl. 22:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Helstu stjörnur loftslagsvandans verða í Glasgow

Eins og lesendur þessara pistla hafa tekið eftir hefur umfjöllun um loftslagsmál aukist talsvert nú í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar sem hefst í Glasgow (COP26 Climate Summit) um næstu helgi. Frá 31. október til 12.nóvember mun fólk hvaðanæva að úr heiminum flykkjast til Skotlands en gert er ráð fyrir 25 til 30 þúsund manns leggi þangað leið sína til að ráðgast um loftslagsmál. Þar af verða að minnsta kosti 50 gestir frá Íslandi.kolabrennsla

Hið formlega viðfangsefni Glasgow-ráðstefnunnar er að fara yfir árangur og áskoranir við að hrinda Parísarsamkomulaginu frá 2015, um viðnám í loftslagsmálum, í framkvæmd. Eitt af helstu afgreiðslumálum COP26 er hvernig fjármagna á aðstoð við þróunarríki við að takast á við loftslagsáskoranir. Gestgjafarnir eru Stóra-Bretland og Sameinuðu þjóðirnar með stuðningi Ítala sem áttu að hýsa ráðstefnuna í fyrra.

Ein af gestum ráðstefnunnar verður fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, Al Gore, sem varð frægur fyrir heimildarmynd sína Óþægilegur sannleikur (An Inconvenient Truth) sem kom út 2006. Al Gore fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2007, eða ári eftir að myndin kom út „fyrir viðleitni þeirra til að byggja upp og miðla aukinni þekkingu um loftslagsbreytingar af mannavöldum og leggja grunn að þeim aðgerðum sem þarf til að vinna gegn slíkum breytingum.“ Myndin fékk margvísleg verðlaun og Al Gore stimplaði sig inn sem helsta talsmann loftslagsvandans og viðbragða við honum. Það að hann skyldi fá Nóbelinn hafði mikil áhrif á að breiða út þá afstöðu sem birtist í myndinni til loftslagsmála. Skiptir litlu þó margt í myndinni sé talið umdeilt í dag og sumir fræðimenn í framhaldinu haldið úti umræðu um loftslagsmál undir heitinu Óþægilegar staðreyndir (Inconvenient Facts). Aðrir halda því fram að fjöldi rangra og villandi staðhæfinga sé að finna í myndinni.

Skapaði myndmál loftslagsvandans

Margt af því sem Al Gore sagði byggðist á stemmningu þess tíma. Myndmálið var til þess fallið að vekja áhyggjur (jafnvel skelfingu) meðal áhorfenda. Þetta er reyndar lenska í dag og Ríkisútvarpið fjallar eiginlega aldrei um þessi mál án þess að birta mynd af skógareldi eða ofsaveðri. Gore lagði einmitt mikið uppúr því að ofsaveður og sérstaklega fellibylir væru að færast í aukanna. Þar hafði örugglega mikil áhrif að fellibylurinn Katrina gekk yfir Flórída, Louisiana, Alabama og Mississippi síðla ágúst 2005. Hann var einn skæðasti fellibylur í sögu Bandaríkjanna og hafði mikil áhrif á umræðuna. Nýjar rannsóknir, sem meðal annars hafa birst í Nature sýna hins vegar að styrkur eða fjöldi fellibylja hefur ekki aukist síðustu 150 árin eða svo.felli

Mun Kína sýna eitthvað sem skiptir máli

Al Gore verður að sjálfsögðu í Glasgow og lét hafa eftir sér í fréttaviðtölum nú í vikunni að hann sé vongóður um að Kína og Bandaríkin muni leggja ágreining sinn til hliðar í viðræðum í Glasgow, rétt eins og þau sameinuðust árið 2015 til að hjálpa til við að hamra á Parísarsamkomulaginu. Gore sagði í viðtali sem sent var út á mánudaginn á Reuters Impact ráðstefnunni að Kína gæti komið heiminum á óvart með því að koma öðru eða báðum markmiðum sínum á framfæri um að ná hámarkslosun og verða kolefnishlutlaus. Reyndar er erfitt að ráða í fyrirkomulagið í Glasgow þar sem ekki er gert ráð fyrir sérstökum samþykktum og enn er ekki vitað hvaða leiðtogar mæta á ráðstefnuna. Þar beinist kannski sérstaklega athyglin að forseta Kína, Xi Jinping, sem hefur sagt að Kína muni stöðva fjármögnun sína á erlendum kolaverksmiðjum. Xi tilkynnti í síðasta mánuði að Kína myndi hætta byggingu nýrra kolaorkuvera erlendis, eftir svipuð loforð frá Japan og Suður-Kóreu fyrr á þessu ári.