c

Pistlar:

21. nóvember 2021 kl. 13:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Selfoss: Ný sýn á skipulag miðbæja

Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort að nýi miðbærinn á Selfossi muni ekki valda kaflaskilum í skipulagi og hönnun íslenskra verslunar- og þjónustukjarna. Hér á þessum vettvangi hefur margoft verið bent á að nýlegar tilraunir til að skapa aðlaðandi miðbæjarrými hafi flestar misheppnast. Á þetta er rækilega bent í viðtali Morgunblaðsins við Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu, í umfjöllun um nýjan miðbæ á Selfossi. Staðreyndin er sú að mörgum þykir vanta talsvert upp á að miðbæjarkjarnar á borð við Mjóddina, Eiðistorg, Fjörðinn, Garðatorg eða Hamraborgina séu nógu heillandi og dragi fram skemmtilegt mannlíf, svo stuðst sé við upptalningu Morgunblaðsins. Við þetta mætti bæta nýjustu viðbót miðbæjarins í Reykjavík en margt styður að horfa hefði átt til hógværari hönnunar, sérstaklega á Hafnartorginu. Það má nefna marga aðra kjarna til en flestir eiga það sammerkt að þeir annað hvort eiga ekki gömul hús eða hafa viljað horfa til módernískra lausna. Engum vafa er undirorpið að tilraunin á Selfossi mun sýna mönnum hvaða lögmál virka vel í hönnun á manneskjulegu umhverfi og mörg önnur bæjarfélög horfa þangað núna. En þetta er ekki vandalaus tilraun.selfoss gam

Blaðamaður Morgunblaðsins segir réttilega að á Selfossi hafi formúlan gengið upp og er útkoman miðbæjarsvæði sem virkar eins og segulstál á fólk í leit að fallegum stað til að vera á enda iðar svæðið af mannlífi flesta daga og sérstaklega um helgar. Þetta var til umfjöllunar hér í pistli fyrir skömmu og var það ánægjulegt fyrir pistlaskrifara sem studdi þá sýn sem nú hefur orðið að veruleika. Hver dagur síðan miðbærinn opnar staðfestir þetta enda ljóst að menn eru að upplifa eitthvað óvenjulegt á Selfossi.

Áhugaverð tilraun

Morgunblaðið ræðir við áðurnefndan Sigurður Einarsson, arkitekt hjá Batteríinu, en hann er hönnunarstjóri nýja miðbæjarins og er áhugavert að heyra lýsingar hans á verkefninu. Það var þróunarfélagið Sigtún sem á frumkvæði að framtakinu en frá upphafi var ætlunin að miðbæjarkjarni Selfoss skyldi hafa gamaldags yfirbragð. Fróðlegt er að heyra um nálgun arkitekta Batterísins og sýn á hönnun miðbæja.

Auðvitað var ekki sjálfgefið að tilraun sem þessi takist. En í stað þess að búa til hálfgerða sviðsmynd eða eftiröpun (kitsch) var leitað fanga í byggingarlistasögu Íslands til að endurreisa mörg fallegustu hús landsins sem sum hafa orðið eldi að bráð og sum verið látin víkja fyrir nýtískulegri arkitektúr eða nýjum akbrautum. Útkoman er bæjarlandslag sem er bæði hlýlegt og aðlaðandi, kunnuglegt og fjölbreytt án þess að ólíkir stílar stangist á. „Að byggja upp líflega og smekklega miðbæi hefur verið verkefni sem okkur arkitektastéttinni hefur einfaldlega ekki gengið nógu vel að leysa stóran hluta síðustu aldar. Allt of oft hefur útkoman verið rými sem fólk langar ekkert sérstaklega til að dvelja í meira en nauðsyn krefur,“ segir Sigurður. Upplýsingaskildir á húsunum vísa til fyrirmynda.

Batteríið var fengið til verkefnisins, meðal annars vegna mikillar reynslu arkitektastofunnar af endurbyggingu gamalla húsa og hönnun nýrra bygginga umhverfis og í tengslum við eldri hús. Það hve vel tókst til á Selfossi vekur ótal spurningar um hvert byggingarlist ætti að stefna segir Ásgeir Ingvarsson, blaðamaður Morgunblaðsins, einkum þegar í hlut eiga rými sem eiga að þjóna hlutverki miðbæjarkjarna. Þykir sumum það af og frá að endurbyggja gömul hús og eðlilegra að arkitektúr endurspegli nýjustu strauma og stefnur. Segir Sigurður að sumum finnist það jaðra við eftiröpun að teikna hús í gömlum stíl, en slíkri gagnrýni sé jafnan svarað með því að benda á að nútímalegustu verk arkitekta séu oft svo lík innbyrðis að erfitt sé að segja hver kann að vera að herma eftir hverjum. „En það sem við erum að gera á Selfossi er að segja sögu og gefa eldri byggingum nýja merkingu. Við endurvekjum gömul hús, en þurfum um leið að gera það með þeim hætti að þau falli að nýjustu kröfum og stöðlum, og vitaskuld þannig að byggingarnar henti þeirri starfsemi sem þær eiga að hýsa.“selfossb

Húsasagan vanmetin?

Blaðamaður Morgunblaðsins bendir á að það kunni að koma lesendum á óvart hve mörg fögur íslensk hús heyra sögunni til. Í þeirri þyrpingu sem þegar er risin í miðbænum á Selfossi eru þrettán endurgerð hús og þegar seinni áfanga framkvæmdanna á svæðinu lýkur verða húsin samtals um þrjátíu talsins. „En við erum með tilbúnar teikningar af nærri tvöfalt fleiri húsum, allt frá agnarlitlu íbúðarhúsnæði upp í gamla Landakotsspítalann sem var rifinn þegar nýi Landakotsspítalinn var byggður,“ útskýrir Sigurður. „Meðal þeirra bygginga sem hafa vakið hvað mesta lukku er gamli Hótel Björninn sem stóð í Hafnarfirði og var að margra mati eitt af fallegustu húsum bæjarins og skartaði svölum með næpulagaðri yfirbyggingu. Var þessi bæjarprýði látin víkja á sínum tíma svo að hægt væri að breikka Reykjavíkurveginn og leiða meiri bílaumferð inn í bæinn.“

Engum blöðum er um að að fletta að eitt af aðdráttarafl nýja miðbæjarins á Selfossi er hve vegalengdir eru stuttar og henta gangandi fólki, eins og í dönskum miðbæ. Sigurður útskýrir þetta „Ein ástæðan fyrir því að svo illa hefur gengið að hanna vistlega miðbæi er að þeir eru nær alltaf skipulagðir fyrir bílinn. Arkitektar virðast hreinlega vera hræddir við þröng rými og höfðu sumir á orði að við þyrftum að gæta okkar á því að göturnar í nýja miðbænum yrðu ekki eins og stokkur ef við röðuðum húsunum þétt saman. En í staðinn fórum við þá leið að hafa lítið rými á milli húsa og göturnar tiltölulega þröngar, en þar sem Brúarstrætið er þrengst er gatan um 10 metra breið sem er á við þann hluta Laugavegs þar sem hann er þrengstur.“

Frekar en að finna fyrir innilokunarkennd upplifir fólk þægileg hlutföll í Brúarstræti segir í viðtalinu og þar sem bílaumferð er beint í aðrar áttir hafa gangandi vegfarendur nóg pláss. Á því hefur Sigurður skýringu. „En það var líka meðvituð ákvörðun að láta götuna sveigja. Gamlar skipulagsteikningar Guðjóns Samúelssonar fyrir þennan reit gera ráð fyrir götu sem liggur í beinni línu frá brúnni og inn að kirkju sem átti að standa við bæjargarðinn, en með því að sveigja göturnar verður til umhverfi þar sem fólki birtast nýjar og nýjar myndir á göngu sinni. Með hverju skrefi fær götumyndin nýjan persónuleika og hús sem áður voru falin koma í ljós.“ En mestu skiptir að þarna verður heildstæð mynd sem gefur tækifæri á nýju mannlífi eins og meðfylgjandi teikning sýnir en augljóslega ætlar nýi miðbærinn að vera jólabær!selfossjol

Steinsteyptur brútalismi víkur

Í Morgunblaðsgreininni er bent á að þó ekki sé vitað um verkefni þar sem´gömul hús hafa verið „endurvakin“ með sama hætti og með sömu heildarsýn og á Selfossi má á stöku stað finna tilvik þar sem farin var svipuð leið. Sigurður nefnir miðborg Frankfurt í Þýskalandi sem þekkt dæmi um vel heppnaða umbreytingu í þessum dúr. „Þar hafði steinsteyptur brútalismi einkennt byggingarlistina í miðborginni og þótti ekki mikil prýði að. Var ákveðið að ryðja brútalismanum úr vegi og í staðinn endurbyggja margar byggingar gamla miðaldabæjarins. Ekki var hægt að styðjast við gamlar ljósmyndir eða teikningar húsameistara en mikil vinna lögð í að gera þessum menningararfi góð skil og var mikil ánægja með útkomuna.“ Vert er að rifja upp að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur verið duglegur að opna augu manna fyrir þessum möguleikum og sótt fjölmörg dæmi til útlanda.

Það er fróðlegt að lesa að við hönnun miðbæjarins á Selfossi gátu arkitektar Batterísins stundum stuðst við teikningar en þurftu í öðrum tilvikum að reiða sig á ljósmyndir til að finna hlutföll og stærðir. Vitaskuld þurfti í mörgum tilvikum að eiga við hönnunina til að til dæmis fullnægja reglum um lofthæð og tryggja að fyrirhuguð starfsemi gæti rúmast vel í húsunum með öllum kröfum nútímans um vatns- og rafmagnslagnir, eldvarnir og aðstöðu af öllum mögulegum toga. Eins þurfti að gæta að því á byggingarstigi að húsin hefðu sem eðlilegast útlit og virkuðu ekki eins og sviðsmyndir í skemmtigarði. Þetta virðist hafa allt tekist en sjón er sögu ríkari.