c

Pistlar:

22. nóvember 2021 kl. 14:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Timburmenn eftir Glasgow


Stjórnmálaskýrendur, stjórnmálamenn og loftslagsáhugamenn eru enn að meta hvað loftslagsráðstefnan í Glasgow skilur eftir sig. Var hún til einskis og tóm vonbrigði eins og harðlínumenn í umhverfismálum segja eða var hún mikilvægur vinnufundur sem skilaði mikilvægri þekkingu? Svo er alltaf síðasti valkosturinn - ráðstefnan var einfaldlega bautasteinum fyrir þá sem telja að þetta sé allt orðið of seint hvort sem er.

En er raunhæft að kolefnishlutleysa heiminn eftir 30 ár? Varla eins og orkumálum heimsins er nú háttað og engin vill lenda í alvarlegri orkukreppu. Ef það er eitthvað sem nútímaþjóðfélög geta ekki þolað þá er það orkuskortur. Við höfum nú þegar séð ýmsar sterkar vísbendingar um hvernig málin geta þróast á meðan á yfirfærslu í hreina umhverfisvæna orku stendur. Verð á jarðefnaeldsneyti hefur hækkað gríðarlega, Bretar neyddust til að opna kolaorkuver sín uppá nýtt (sem var vandræðalegt í aðdraganda Glasgow-fundarins) en um fimm ár eru síðan þeir hrósuðu sér af því að hafa slökkt á þeim. Rafmagn fer reglulega af á stórum svæðum í Kína og á Indlandi og er þá ekki verið að hafa fyrir því að nefna önnur ríki Asíu. Eldsneytisverð hefur áhrif á efnahag margra landa og á pólitíska sviðinu hefur þetta einnig áhrif. Þekkt er að Pútin Rússlandsforseti ræður hvort Evrópubúar skjálfa eða titra, í eiginlegri merkingu því rússneskt gas sér stórum hluta Vestur-Evrópu-búa fyrir eldsneyti til að hita hús sín. Birgðastaða flestra landa er lægri en mönnum þykir ásættanlegt. Fjárfestingar í jarðefnaeldsneyti njóta ekki hylli fjárfesta og hafa fallið um 40% síðan 2015. Um leið spyrja margir sig að því hvort nýorkan umhverfisvæna nái að vera til staðar þegar jarðefnaeldsneytið hættir að berast eins og flestir gera enn ráð fyrir.orka

Orkan forsenda nútímasamfélaga

„Steinöld lauk ekki vegna þess að steinarnir voru búnir og á sama mun olíuöldinni ekki ljúka af því að olían er búin,“ var haft eftir forstjóra eins af stóru olíufyrirtækjanna sem vinna nú að því að skapa sér tilveru eftir að öld olíunnar lýkur.

Það segir sig sjálft að án rafmagns er erfitt að halda nútímasamfélagi gangandi en það er hins vegar þrautinni þyngri að tryggja farsæla yfirfærslu frá jarðefnaeldsneyti yfir í umhverfisvænt eldsneyti. Leiðarahöfundur Economist sagði fyrir skömmu að fjárfestingar í endurnýjanlegri orku séu aðeins helmingur þess sem þær þyrftu að vera til að ná markmiðum um kolefnishlutleysi árið 2050. Því sé ljóst að fjárfestingar í endurnýjanlegri orku verða að aukast en um leið sé vandasamt að tryggja farsæla yfirfærslu. Jarðefnaeldsneyti stendur undir 83% af frumorkuþörf heimsins og krafan er að það fari niður í núll. Augljóslega er um að ræða markmið sem verður erfitt að fullnægja. Að mörgu er að hyggja. Það er til dæmis mikilvægt að færa notkun frá kolum og olíu og þá getur verið ásættanlegt sem millibilslausn að nota jarðgas en koltvísýringslosun þess er ekki nema helmingur þess sem kemur frá kolum. Til að menn horfi þannig á málin þarf að sætta mörg sjónarmið. Sem stendur horfa margir til gas en fjárfestingar í geiranum eru ónógar. Mörg lönd verða að treysta á gas til að geta unnið sig í gegnum skuldbindingar sínar um losun samhliða því að þau útvega íbúum sínum orku. Ganga þessir ferlar upp?

Geópólitísk áhrif

Á sama tíma og mörg ríki Vesturlanda skera niður vinnslu jarðefnaeldsneytis munu mörg ríki sem hafa ófullkomnara lýðræði treysta á slíka orkugjafa áfram. Þannig er talið að áhrif OPEC ríkjanna og Rússa geti aukist í umskiptaferlinu og raski því hinu geópólitíska jafnvægi sem er nógu viðkvæmt fyrir. Talið er að framleiðsla OPEC ríkjanna og Rússa geti farið úr 46% í dag upp í 50% árið 2030. Í dag sjá Rússar Evrópu fyrir 41% af því gasi sem þar er notað. Þetta hlutfall mun hækka enn frekar með opnun Nord Stream 2. Við höfum séð að í hinni furðulegu deilu sem nú er um landamæri Hvít-Rússlands er stöðugt verið að hóta að skrúfa fyrir gas til Vestur-Evrópu ef í óefni er komið pólitískt.belgkjarn

Þá eru margir sammála um að regluverk í kringum orkuvinnslu og orkumarkað er ófullkomið. Víða hafa lönd verið að færa sig frá ríkisreknu reglugerðarkerfi yfir í markað þar sem einkafyrirtæki ráða. Það eykur skilvirkni en getur skapað vandamál þegar kemur að samhæfingu. Hugsanlega þurfa stjórnvöld víða að slaka á regluverki enn frekar en viðskipti með rafmagn eru enn miklu þyngri í vöfum en viðskipti með olíu. Hvað sem því líður þá þurfa margir að aðlaga sig nýjum veruleika á orkumarkaði.