c

Pistlar:

25. nóvember 2021 kl. 11:47

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Höfðu rangt eftir Trump í Georgíu

Þegar átök fjölmiðla við Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, stóðu sem hæst settu ýmsir fjölmiðlar upp staðreyndavakt sem nánast eingöngu var beint að Donald Trump. Þetta var til vitnis um þá áherslu sem fjölmiðlar settu á að skora málflutning hans á hólm. Einn þessara miðla var stórblaðið Washington Post sem nú hefur neyðst til að leiðrétta hluta frétta sina um forsetann eins og greint var frá hér í pistli fyrir skömmu. Þessar staðreyndasíður blaðsins hafa ekki fjallað um eigin rangfærslur um forsetann og hlýtur það að setja spurningu við ásetning þeirra um að draga hið rétta fram í dagsljósið. En gerum ekki lítið úr því að Washington Post er að leiðrétta rangan fréttaflutning um forsetann eins sársaukafullt og það án efa er fyrir starfsmenn og stjórnendur blaðsins. Hvort allt þetta mál leiði til endurmats á fréttaflutning í kringum forsetatíð Trumps skal ósagt látið en margt bendir til þess að fjölmiðlar hafi oft farið fram úr sjálfu sér og gaf þó Trump oft höggstað á sér.

Hyggjast borga lögfræðikostnað Trumps

Þetta endurmat birtist með ýmsum hætti. Meðal annars hefur Landsnefnd repúblikana (RNC) nú nýlega samþykkt að greiða hluta lögfræðikostnaðar Donalds Trump í tengslum við rannsóknir borgar- og ríkissaksóknara í New York á fjármálaviðskiptum Trump-samtakanna. Talsmaður RNC sagði við New York Post að framkvæmdanefnd samtakanna hefði samþykkt að greiða fyrir tiltekinn málskostnað sem tengist pólitískum málaferlum gegn Trump forseta. „Sem leiðtogi flokks okkar er það mikilvægt fyrir flokkinn að verja Trump forseta og árangur hans,“ bætti talsmaðurinn við. „Það er fullkomlega viðeigandi fyrir RNC að halda áfram að aðstoða við að berjast á móti endalausum nornaveiðum demókrata og árásum á hann.“ Hugsanlega má taka þessari niðurstöðu sem vísbendingu um að Trump sé enn á ný að styrkja sig innan Repúblikanaflokksins.wpost

Höfðu rangt eftir Trump í Georgíu

Hér fyrir skömmu var sagt frá leiðréttingum og breytingum Washington Post á fréttum af Trump tengdum „Rússasvindlinu“. Þar fylgja ekki afsökunarbeiðnir með en þetta er ekki í fyrsta skipti sem blaðið verður að leiðrétta fréttaflutning sinn varðandi Trump. Þannig viðurkenndi Washington Post í vor að það hefði ranglega haft eftir Donald Trump þegar blaðið fullyrti að hann hefði sagt æðsta manni rannsókna kosninganna í Georgíu „að finna svikin“ („to find the fraud“) í desember. Leiðréttingin kom inní netútgáfu af uppfærslu á upprunalegu fréttinni en hún hafði vitnað í nafnlausan heimildarmann um orðalag símtals sem Trump hringdi í yfirmann kosningarannsóknar í Georgíu skömmu fyrir jól. Þessi ranga tilvitnun fór á flug um heimsbyggðina en sama verður ekki sagt um leiðréttinguna.

„Leiðrétting: Tveimur mánuðum eftir birtingu þessarar sögu gaf utanríkisráðherra Georgíu (Georgia secretary of state)út hljóðupptöku af símtali Donalds Trump forseta í desember við yfirmann kosningarannsóknar ríkisins. Upptakan leiddi í ljós að Washington Post vitnaði rangt í ummæli Trumps um símtalið, byggt á upplýsingum frá heimildarmanni,“ hófst leiðréttingin Washington Posts sem birt var í byrjun mars síðastliðins og hefur farið heldur hljótt um, sérstaklega hér á Íslandi þar sem fjölmiðlar endurómuðu þessum fréttaflutningi rækilega á sínum tíma.

Vandræðalegar leiðréttingar

Leiðrétting Washinton Post er vandræðaleg, sérstaklega af því að það hafði sett hin meintu ummæli forsetans innan gæsalappa og náði þannig hámarksviðbrögðum um allan heim en þúsundir fréttamiðla vitnuðu til ummælanna eins og þau væru rétt eftir höfð. Frásögnin reyndist öðru vísi þegar blaðið leiðrétti sig: „Trump sagði rannsakandanum ekki að „finna svikin“ né sagði að hún yrði „þjóðhetja“ ef hún gerði það. Þess í stað hvatti Trump rannsakanda til að skoða atkvæðaseðla í Fulton County, Ga., og fullyrti að hún myndi finna „óheiðarleika“ þar. Hann sagði henni líka að hún hefði „mikilvægasta starfið í landinu núna.“ Allt mun saklausari ummæli en honum voru lögð í munn.georgia

En það var kannski ekki mikla iðrun að sjá hjá blaðinu því pistlaöfundar þess héldu áfram að hamra á því að Trump hefði haldið því fram að kosningunum hefði verið stolið og ummæli hans vegna þess öll umdeilanleg. Sama má segja um aðra fjölmiðla sem gerðu mikið úr ummælunum, svo sem The New York Times og CNN. Það eru birtar leiðréttingar en svo halda pistlahöfundar miðlanna áfram að senda Trump tóninn sem gengur út á að hann hafi í raun kallað þetta yfir sig og meira til.

Pistlaskrifari sló upp nokkrum fréttum breska blaðsins The Guardian sem fjallaði mikið um málið. Þegar þessar fréttir eru sóttar í fréttasafn er ekki að sjá neina tilvísun í leiðréttingu þeirra síðar meir. Á vefsíðu The Indepentent koma hins vegar upp leiðréttingar og blaðið fjallar um leið um áhrif rangfærslana á Pulitzer-verðlaunin sem veitt voru vegna Rússlandsmálsins. Þegar stór miðill eins og The Guardian á í hlut og ekki er gerð meiri gangskör í að leiðrétta þá má velta fyrir sér hvort hið sanna í málinu nái að lifa þó það augljóslega komist ekki á sama flug og málið í heild sinni á sínum tíma. Að ekki sé talað um hlut íslenskra fjölmiðla sem endurvörpuðu ummælum Trump innan gæsalappa, ummæla sem nú hafa verið dregin til baka - en lifa þó!