c

Pistlar:

27. nóvember 2021 kl. 16:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Styttukarlar og athafnamenn

Saga Selfoss og Þorlákshafnar og reyndar fleiri svæða á Suðurlandi verður ekki sögð án þess að greina frá framlagi Egils Thorarensen en hann var þar í fararbroddi atvinnu- og byggðauppbyggingar stóran hluta síðustu aldar bæði sem kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður Mjólkurbús Flóamanna. Sumir segja það Agli að þakka, meira en nokkrum öðrum einstaklingi, að á Selfossi varð til það blómlega samfélag sem þar er að finna í dag. Þetta er ágætlega rakið í nýlegu stórvirki Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings, Samvinna á Suðurlandi, sem kom út í fjórum bindum á síðasta ári og rekur sögu samvinnufélaganna á svæðinu og er kostið af þeim.

En Egill var umdeildur maður, frekur til fjörsins, ráðríkur fram úr hófi og samskipti hans við fólk ættu ekki í öllum tilvikum upp á pallborðið í dag. Hann var sannarlega valdamikill í samfélaginu enda stundum kallaður jarlinn af Sigtúni. Til stendur að víga styttu af Agli í nýja miðbæ Selfoss og augljóst að margir telja það viðeigandi miðað við framlag hans. Aðrir gagnrýna slíka hyllingu karlsins eins og gengur. Það er kannski í takt við tíðarandann en um allan heim er verið að brjóta styttur af gerendum sögunnar eða þeim stungið til hliðar þar til tímarnir breytast - og þeir munu breytast.egilltor

Réttur maður á réttum stað

Ævi Egill segir margt um þá tíma sem hann lifði og þær breytingar sem áttu sér stað. Hann var ungur maður þegar hann flutti á Selfoss sem var varla nema nokkur hús á þeim tíma við brúarsporðinn. Glöggir menn gátu þó séð tækifæri í staðsetninginni og það gerði Egill án efa. Guðjón lýsir því í bók sinni hvernig Egil dreymdi um að gerast skipstjóri en hann hafði veikst af berklum og heilsan því ekki nógu góð til að ráða við vosbúðina úti á sjó. Að Agli stóð eignafólk miðað við þá tíma, örlögin höguðu því þannig að hann gekk að eiga kaupmannsdóttur á Selfossi og stofnaði þar eigin verslun. Miklir breytingartímar voru á þessum árum, atvinnulífið að nútímavæðast og innviðir landsins að styrkjast. Verslunarveldi danskra kaup manna var liðið undir lok og samvinnuhreyfingin hafði haslað sér völl víða um land. Í Árnessýslu hafði þó rekstur nokkurra kaupfélaga gengið illa og þau hætt starfsemi. Egill átti frumkvæði að því að tekinn var upp þráðurinn að nýju þannig að Kaupfélag Árnesinga var stofnað á fámennum fundi 1. nóvember 1930 og Agli falið að stýra því.

Vildi gera kaupfélagið að milljónafélagi

„Hann var staðráðinn í að gera það að milljónafélagi og tókst það eftir nokkuð brösugan rekstur á kreppuárunum,“ segir Guðjón í samtali við Morgunblaðið. „Um svipað leyti var Mjólkurbú Flóamanna stofnað og mikill hugur í bændum á Suðurlandi. Í því félagi, sem einnig var samvinnufélag, varð Egill stjórnarformaður og stýrði í raun þessum tveimur félögum sem bæði urðu stórveldi og samhæfði rekstur þeirra. Þannig voru mjólkurflutningarnir nýttir til að flytja vörur kaupfélagsins til bænda.

Pistlaskrifari man vel þá tíma þegar kaupfélagið drottnaði yfir öllu á Selfossi en undir það heyrði meðal annars bíla- og búvélaverkstæði, járnsmiðja, trésmiðja, saumastofa, ferðaskrifstofa og apótek. „Kaupfélagið var alltumlykjandi og með alla þjónustu, enda var haft eftir einum bóndanum á svæðinu að ef eitthvað fengist ekki hjá kaupfélaginu þá þyrfti hann ekki á því að halda,“ segir Guðjón og bætir við. „Og Egil má með sanni kalla föður Selfoss. Þegar hann kom þangað voru örfá hús á staðnum en hann lék veigamikið hlutverk í allri uppbyggingu staðarins.“ Það má reyndar einnig nefna Kristinn Vigfússon staðarsmið en hann og Egill voru nánir vinir eins og kemur fram í bók um Kristinn sem Guðmundur Kristinsson sonur hans skráði.

Faðir Þorlákshafnar

Það er til marks um framsýni og metnað Egils að hann kom því til leiðar að kaupfélagið keypti Þorlákshöfn sem þá var aðeins sveitabær. Þar lét hann byggja höfn og hefja útgerð og renndi þannig nýrri stoð undir atvinnulíf svæðisins. „Í gegnum kaupfélagið átti Egill líka þátt í því að styrkja innviði samfélagsins og starfrækti kaupfélagið, t.d. iðnskóla sem meðal annars þjálfaði smiði fyrir bíla og trésmíðaverkstæðið.“

Egill sá líka þau tækifæri sem fólust í virkjun fallavatnanna á svæðinu og hann átti veg og vanda af því að kaupfélagið keypti jörðina Laugardæli rétt austan við Selfoss og kom þar upp hitaveitu sem skaffaði bæjarbúum heitt vatn.

Af frásögnum að dæma var Egill ekkert lamb að leika sér við og stóð honum þó ekki stuggur af mönnum með bein í nefinu heldur tók þá gjarnan undir sinn væng og hjálpaði þeim jafnvel að sækja nám erlendis og komast í lykilstöður í atvinnulífi Suðurlands. Hann þótti stórorður maður en sýtti ekki ef menn deildu við hann eins og kom fram í grein Morgunblaðsins.