c

Pistlar:

9. desember 2021 kl. 20:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkuskortur í landi orkunnar

Það er sérkennilegur vandi sem Íslendingum hefur tekist að kalla yfir sig með því að hafa ekki orku til reiðu fyrir viljuga kaupendur. Þá hina grænu og umhverfisvænu orku sem við státum okkur af gagnvart umheiminum en um leið kjósum við að knýja orkukaupendur til að flýja aftur á náðir jarðefnaeldsneytis. Við þessu ástandi hefur verið varað í pistli hér.

Viðbrögðin við þessu ástandi hafa að sumu leyti verið furðuleg. Sumir kjósa að láta sem þetta sé sjálfskaparvíti þeirra sem ekki fá orkuna, þeir séu hvort sem er slæmir kaupendur! Aðrir segja að næg orka sé til í landinu, hún sé bara seld röngum aðilum! Sami hópur aftekur með öllu að halda áfram að virkja þó nægir séu kostirnir í nýtingaflokki samkvæmt rammaáætlun. Við erum föst í ástandi sem erfitt er að sjá að leysist á meðan hávaðasamur hópur aftekur að virkja meira þó fjölmargir vænlegir kostir séu í nýtingaflokki. Þetta er sjálfhelda sem stjórnvöld verða að koma okkur út úr en líklega mun þetta reyna mjög á ríkisstjórnarsamstarfið.orka1

Það blasir við að síðasta ákvörðun Landsvirkjun um skerðingu orku er að koma sér mjög illa fyrir nýhafna loðnuvertíð. Afköst bræðslna skerðist mjög mikið og í það minnsta ein neyddist hreinlega til að stoppa. Það hlálega er, að loðnubræðslurnar hafa verið hvattar til þess að ráðast í orkuskipti og hafa fjárfest fyrir háar upphæðir til þess að geta notað rafmagn í bræðslur sínar. Er þetta ekki eitthvað til að skoða?

Skerðing á rafmagni til fiskmjölsverksmiðja

Landsvirkjun var búin að boða skerðingu á afhendingu á ótryggu rafmangi til fiskmjölsverksmiðjanna í janúar 2022. Skerðingin skyldi nema um 75% af því rafmagni sem verksmiðjurnar mundu að öðrum kosti nota. Skyndilega var skerðingunni skellt á en þessi ákvörðun Landsvirkjunar mun leiða til þess að olíunotkun verksmiðjanna verður rúmlega þrisvar sinnum meiri en ef ekki kæmi til skerðingar með tilheyrandi aukningu á koltvísýringi frá starfseminni. Á árinu 2020 notuðu verksmiðjurnar að meðaltali 8,32 lítra af olíu á móttekið hráefnistonn en áætlanir fiskimjölsverksmiðjanna gera ráð fyrir að meðan þessi skerðing stendur verði notkunin um 29 lítrar á hráefnistonn. Það er slæm niðurstaða.

Þetta hefur ýmsar hliðar. Við getum tekið stöðu Ísfélags Vestmannaeyja sem hefur aldrei fengið nægilegt rafmagn til þess að unnt sé að keyra á afgangsorku og því hefur félagið ekki farið út í neinar fjárfestingar. Á sama tíma hefur kolefnisgjald, sem kallað er jákvæður skattur til þess að hvetja til orkuskipta, ítrekað verið hækkað án þess að félaginu hafi verið gefinn kostur á að nýta græna orku svo sem rafmagn. Auðvitað er þetta fráleit framkoma en hver er gerður ábyrgur?orka2

Ekki stórkaupandi en mikil olíunotkun

Til þess að glöggva sig á samhenginu þá er gott að rýna aðeins í raforkuspá en hún sýnir líka rauntölur síðustu ára. Árið 2020 var heildar raforkuframleiðsla 19,1 TWst þar af var Landsvirkjun með 13,4 TWst. Fiskmjölsverksmiðjurnar notuð 0,15 TWst eða 0,8% af heildar framleiðslunni og 1,1% af hluta Landsvirkjunar. Þær eru því ekki stór hluti framleiðslunnar.

Grunnurinn að samningum um skerðanlega raforku var lagður fyrir um 30 árum. Frumkvæðið af raforkuvæðingu fiskmjölsverksmiðjanna hefur alltaf komið frá verksmiðjunum sjálfum. Umfangsmestu fjárfestingarnar voru á árunum 2010 til 2014. Staðan í dag er allt önnur en 1990 þegar fyrsta verksmiðjan rafvæddist og ákallið í dag er að nota ávalt hreina orku. Orkuskortur á ekki að leiða af sér olíukeyrslu. Olíu á aðeins að nýta sem varaafl vegna bilana í kerfinu, veðurskilyrða eða hamfara.

Þrátt fyrir að upphafleg ákvæði samninganna um skerðanleika raforkunnar og kröfu um að til staðar sé varaafl hefur verð á skerðanlegu raforkunni, flutningi og dreifingu hækkað mun meir en hjá öðrum rafmagnsnotendum og algengar viðmiðunar vísitölur. Líklega mun þessi aðgerð Landsvirkjunar ein og sér skila mjög takmörkuðum árangri til að koma í veg fyrir orkuskort en veldur verulegum áhrifum í loftlagsmálum. Aftur má spyrja um ábyrgð á því að þetta ástand er komið upp.