c

Pistlar:

10. janúar 2022 kl. 11:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nóbelsverðlaunahafar og loftslagsvísindi

Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, gerði eitt sinn grín að Al Gore, varaforseta sínum, og sagði að þegar aðrir finndu vor í lofti segði Al Gore það vera sönnun fyrir hlýnun jarðar! Hvað um það, staða Al Gore hefur löngum verið sérstök meðal loftslagssinna og lengi vel hentu menn gaman að því Al Gore væri eini maðurinn sem hefði unnið Nóbelsverðlaunin fyrir loftslagsmál en hann deildi friðarverðlaunum Nóbels með Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) árið 2007. Það var í raun í fyrsta skipti sem Nóbelsverðlaunanefndin horfði til „loftslagsvísinda“ ef undanskilin eru verðlaun í efnafræði árið 1995 sem lutu að rannsóknum á ósonlaginu.loftslags

Hollywoodvísindi

Margir vísindamenn telja að Al Gore hafi gert loftslagsvísindum ógagn með þeim spádómum sem birtust í heimildarmynd hans Óþægilegum sannleika (An Inconvenient Truth) sem kom út árið 2006 og átti að færa heiminum sönnur fyrir því að það stefndi í óefni í loftslagmálum. Gore lýsti því yfir er hann tók við Nóbelsverðlaununum í desember 2007 að Norðurpóllinn yrði líklega bráðnaður að fullu árið 2013. Engin þrætir fyrir það í dag að fjöldi rangra og villandi staðhæfinga er að finna í myndinni.

Tveimur árum áður en Gore birti mynd sína hafði hasarmyndin Dagurinn eftir morgundaginn (The Day After Tomorrow) verið sýnd og báðar myndirnar höfðu veruleg áhrif á sýn ungra Bandaríkjamanna til loftslagsmála. Hamfarirnar voru reyndar með ólíkum hætti. Í mynd Al Gore var New York að stórum hluta komin undir vatn en í Dagurinn eftir morgundaginn var ísaldarjökull búinn að ná borginni. Í báðum tilfellum höfðu orðið skyndilegar hamfarir í loftslagsmálum þó niðurstaðan væri ólík.

Stríðsherrann hafði verðlaunin af Gretu Thunberg

Hér hefur áður í pistlum verið reynt að setja upp umræðu um þekkingargrundvöll loftslagsvísindanna og hve mikið sé hægt að fullyrða um þróun mála út frá þeim mælingum og þeim kenningum sem liggja fyrir. Það er eðli vísindalegrar hugsunar að efast og halda áfram að krefjast rannsókna og að staðhæfingar séu byggðar á staðreyndum.

Nóbelsverðlaun eru ein leið til að meta vísindalegt framlag þó að nefndin sé síður en svo hafin yfir vafa eins og birtist kannski skýrast í friðar- og bókmenntaverðlaununum enda að mörgu leyti huglægari viðmið þar en annars staðar. Þess má geta að baráttustúlkan Greta Thunberg, þá 16 ára gömul, var tilnefnd til friðarverðlauna árið 2019 fyrir framlag sitt til loftslagsumræðunnar en varð að lúta í lægra hald fyrir Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, sem lætur nú varpa sprengjum á landsmenn sína. Já, pistlaskrifari var eins og margir aðrir skammsýn um ágæti hans. Á síðasta ári fengu þrír vísindamenn nóbelsverðlaunin fyrir framlag sitt til loftslagsmála og tóku því margir sem vísbendingu um áherslu vísindasamfélagsins á þessi mál. Efasemdamenn segja þetta enn eitt dæmi um þá hjarðhugsun sem ríki í loftslagsmálum enda séu verðlaunahafarnir þrír tæpast verðugir vegna verka á sérsviðum sínum.felli

Verðlaunahafi sem efast um eðlisfræðileg áhrif

Um áhrif loftslagsbreytinga gildir síður en svo sátt meðal Nóbelsverðlaunahafa. Norðmaðurinn Ivar Giæver fékk nóbelsverðlaunin í eðlisfræði árið 1973 vegna rannsókna í skammtafræði á hálfleiðurum og ofurleiðni. Giæver hefur ítrekað lýst efasemdum sínum um hlýnun jarðar og kallað umræðu um hana „ný trúarbrögð“. Þann 13. september 2011 sagði Giæver sig úr Samtökum amerískra eðlisfræðinga (American Physical Society) vegna afstöðu sinnar. Á samkomu nóbelsverðlaunahafa 1. júlí 2015 hélt hann ræðu sem eftir var tekið. Gagnrýni hans er af margvíslegum toga, allt frá því hvernig mælingar á breytingum hitastigs hafa átt sér stað yfir í þær ályktanir sem af þeim hafa verið dregnar. Á Youtube má finna nokkra áhugaverða fyrirlestra Ivars Giæver.

Umrædd ráðstefna á Mainau-eyju við Bodenvatn, 7 km norðan Konstanz í Þýskalandi var umdeild. Þar undirrituðu yfir 30 Nóbelsverðlaunahafar yfirlýsingu um loftslagsbreytingar og var þeirri yfirlýsingu mikið hampað í kjölfarið. Síður var vakin athygli á þeirri staðreynd að þar voru í allt 65 fundarmenn og aðeins 36 þeirra skrifuðu undir yfirlýsinguna. Eins og dæmigert er fyrir umræðuna um loftslagsmál heyrði almenningur aldrei álit þeirra 35 sem ekki skrifuðu undir, sem var þó nánast helmingur Nóbelsverðlaunahafa á fundinum. Einn þeirra var Ivar Giæver sem er nú á tíræðisaldri en reynir enn að andhæfa „viðteknum sannindum“ í loftslagsmálum.

Verðlaunahafi sem efast um efnahagsleg áhrif

Í þessari hugleiðingu um efasemdamann mætti allt eins nefna William D. Nordhaus, frá Yale University, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 2018 fyrir að innleiða langtímahugsun í loftslagsmálum og tengja það við hagfræðikenningar. Hann hefur að hluta til skipt um skoðun. Þó að loftslagsvísindamenn vari við því að loftslagsbreytingar gætu verið skelfilegar fyrir efnahag heimsins, fullyrðir Nordhaus í dag að þær muni fráleitt vera eins skaðlegar og sumir telja. Þegar honum voru veitt verðlaunin fullyrti Nordhaus að 3 gráðu hlýnun myndi draga úr landsframleiðslu heimsins um 2,1%, samanborið við það sem hún væri ef loftslagsbreytingar væru ekki til staðar. Jafnvel 6 gráðu hækkun á hitastigi jarðar, sagði hann, myndi aðeins minnka landsframleiðslu um 8,5%.

Mikilvægi Nóbelsverðlauna sést ágætlega af umræðu um hvort Michael E. Mann hafi fengið verðlaunin. Mann var í hópi manna sem kynntu íshokkíkylfugrafið (e. hockey stick graph) árið 1999 sem talið var sýna þróun til ofsahlýnunar. Um leið var hann einn þeirra sem höfðu unnið með Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sem deildi verðlaununum með Al Gore 2007 eins og áður sagði. Ýmsum fannst langsótt þegar Mann skreytti sig Nóbelsverðlaununum og stríðnispúkar meðal fjölmiðlamanna hringdu í Nóbelsverðlaunanefndina og spurðu hvort Michael E. Mann væri verðlaunahafi sem hann var ekki undir eigin nafni. Þetta sýnir kannski þá sókn sem er eftir viðurkenningu Nóbelsverðlaunanefndarinnar eins mistæk og hún annars er.