c

Pistlar:

23. janúar 2022 kl. 17:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjármögnun BBC til skoðunar

Rekstrarlegt fyrirkomulag Breska ríkissjónvarpsins BBC er nú til endurskoðunar en núverandi ríkisstjórn hyggst ráðast í einhverjar mestu breytingar sem gerðar hafa verið á stöðu BBC. Það kemur í kjölfar þess að ríkisstöðin hefur setið undir svipaðri gagnrýni og önnur ríkisfélög í fjölmiðlarekstri. Sú gagnrýni fellst í stuttu máli í því að rekstrarstaða þess drottni yfir markaðinum, það sé hlutdrægt í umfjöllun sinni og hafi fjarlægst markmið sín sem birtist meðal annars í ofurlaunum til einstakra starfsmanna. Stuðningsmenn ríkisfjölmiðilsins telja það að sjálfsögðu einstakt í menningarlegu tilliti og að það sé vörn þjóðfélagsumræðunnar gegn ægivaldi kapítalismans. Það þarf ekki að taka fram að þessi rök koma að mestu frá vinstri en þaðan koma hollvinasamtök ríkisrekstrar.bbc

Umdeild mál draga úr trausti

Afstaða Breta til BBC hefur breyst undanfarin áratug og má þar meðal annars um kenna málum eins og þegar komst upp um barnaníðinginn Jimmy Savile sem hafði starfað í skjóli stofnunarinnar. Sjálfstæð rannsókn árið 2016 leiddi í ljós að stofnunin brást illilega og hafði fengið margoft ábendingar um framferði Savile. Nú hefur verið greint frá að BBC ætli að gera leikna þáttaröð um þennan fyrrum gulldreng sinn. Þá eru ekki nema rúmlega tvö ár síðan BBC varð að greiða söngvaranum Sir Cliff Richard himinháar skaðabætur fyrir fréttaumfjöllun um meinta þátttöku hans í barnaníði auk hás málskostnaðar. Fréttastofa BBC hafði þá meðal annars leigt þyrlu til að ná góðum myndum af söngvaranum á heimili sínu. Hann lét hart mæta hörðu og framferði BBC stóðst ekki skoðun.

Tölur YouGov frá 2019 sýndu að traust Breta á að dagblöðin segðu sannleikann hafði fallið. Um leið kom í ljós að minna en helmingur aðspurðra taldi að fréttamenn BBC væru heiðarlegir og hlutlausir. Innan við helmingur Breta (44%) sagðist þá treysta stofnuninni til að segja sannleikann þrátt fyrir opinberar kvaðir um að stofnunin væri pólitískt hlutlaus. Tölur höfðu þá verið að falla verulega frá því mælingunum á undan.

Hér var í pistli fyrir stuttu fjallað um ríflega ársgamallar heimildarþáttaröð frá BBC um Murdoch-veldið (The Rise of the Murdoch Dynasty) en Ríkissjónvarpið sýndi þáttaröðina hér heima. Þar er fjallað um sögu fjölmiðlaveldis Ruperts Murdochs og reynt að varpa ljósi á áhrifin sem hann hefur á bak við tjöldin og valdabaráttuna innan hans eigin fjölskyldu. Því er nánast blygðunarlaust haldið fram í þáttunum að hann hafi komið að vali á flestum forsætisráðherrum Bretlands undanfarna áratugi. Þannig krýni hann stjórnmálamenn til áhrifa og taki af þeim krúnuna aftur ef honum sýnist svo. Hvað sem hæft er í þessu þá er þetta án efa eitthvað sem BBC vill hampa.bbchus

Enginn neyddur til að greiða afnotagjöld

Nú hafa bresk stjórnvöld semsagt ákveðið að ráðast í róttækar breytingar á fjármögnun BBC. Menningarmálaráðherra Breta, Nadine Dorries, sagði fyrir skömmu að næsta tilkynning um upphæð hinna lögskipuðu föstu afnotagjalda, sem sérhver Breti þarf að greiða, yrði hin síðasta. Eftir fimm ár yrði enginn neyddur til að greiða afnotagjald til stofnunarinnar eins og Morgunblaðið rakti ágætlega. Afnotagjöld eru innheimt með fógetaaðgerð og dæmi eru þess að eldri borgurum sé hótað með fangelsisvist og heimsóknum fulltrúa sýslumanna enda saknæmt að greiða ekki afnotagjaldið óháð því hverjar tekjur fólks eru. Hafa margir aldraðir kvartað yfir þessu.

Ráðherrann sagði að tímabært sé að ræða nýjar leiðir til að fjármagna, styrkja og selja breskt gæðaefni ein sog hún orðaði það. BBC telur sig hafa upplýsingar um að ríkisstjórnin ætli sér að frysta núverandi afnotagjald sem er 159 sterlingspund á ári eða um 28 þúsund íslenskar krónur, til tveggja ára segir í frétt Morgunblaðsins. Það verði síðan hækkað nokkuð til næstu þriggja ára þar á eftir og árið 2027 taki við nýtt kerfi.