c

Pistlar:

29. janúar 2022 kl. 18:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orkuskortur: Að leysa vandann


Vinnuvélar hafa undanfarna mánuði verið að störfum í Teigsskógi í Gufudalssveit en þar er nú verið að leggja veg sem er augljós og mikilvæg samgöngubót fyrir Vestfirðinga. Vegurinn mun stuðla að aflagningu fjallavega sem manni þykir meira að segja óþægilegt að keyra á ljúfum sumardögum. Sagt er að óhemjumikill músagangur komi verkmönnum þarna fyrir vestan á óvart enda virðist svæði kjörlendi fyrir mýs. Kveður svo rammt að þessu að þessu vegavinnumenn verða að læsa niður allan mat og gæta að tækjum og híbýlum!

Eftir 15 ára tafir í kerfinu tókst loksins að hefja framkvæmdir. Allir mögulegir tafamöguleikar í kerfinu urðu undan að láta, augljóslega var hér um þjóðþrifaverk að ræða ef ætti að haldast almennileg lífsskilyrði á Vestfjörum og taka ætti skynsamar ákvarðanir út frá öryggis- og umhverfissjónarmiðum. Þetta má taka sem dæmi um að menn verði að leita leiða til að finna skynsamar lausnir og láta ekki úrtöluraddir og kerfissérfræðinga draga allan mátt úr sér. Nú síðast sjáum við að þessar úrtölur hafa haft af okkur umtalsverðar arðsemisauka og bætingu lífsgæða með Sundabraut. Nú liggur fyrir það sem allir máttu vita, að verkefnið hefur stórkostlegan þjóðhagslegan ávinning í för með sér og sparar tíma, peninga og olíu!reykjanes

Að nýta og friða

Nú blasir við að landsmenn verða að finna leiðir til þess að leysa þann orkuskort sem nú dynur yfir okkur áður en hann verður að viðvarandi vanda. Það er áskorun fyrir stjórnvöld að ljúka því samtali með hraða en eins og margoft hefur verið bent á hér í pistlum eru lausnir til staða. Við höfum forsendur, þær birtast í orkuspá og Rammaáætlun var ætlað að leiða til lykta ágreiningsefni og finna jafnvægi milli nýtingar og verndar. Það er ekki hægt að virkja allt sem gefur orku en það er heldur ekki hægt að friða allt sem skapar orku.

Við lifum í landi sem hefur mikla möguleika, hvort sem er á sviði þekktar orkugjafa eins og vatnsafls og jarðorku en einnig þegar kemur að vindorku. Þetta verðum við að nýta okkur. Það eru lausnir, margar hverjar byggja á einstökum verkfræðilegum úrlausnum sem vel menntað fólk okkar getur boðið uppá. Þetta sást vel í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um orkunýtingu og lausnir HS Orku.

30 MW fengust með nýrri útfærslu

Fyrirtækið er nú í miðri stækkun Reykjanesvirkjunar. Gert er ráð fyrir að stækkunin muni fela í sér aukningu sem nemur allt að 30 megavöttum. Magnað en tímafrekt ferli. Rannsóknir og þróun verkefnisins hófust árið 2009 og hafa verið samfellt í gangi þar til framkvæmdir hófust í ársbyrjun 2021. Vonast er til að þessi aukna framleiðsla komi inn á netið í kringum næstu áramót. Talsmenn verkefnisins segja að umhverfisáhrif af framkvæmdunum séu nánast engin, en hugmyndafræðin er sú að fullnýta þá orku og þá vökva sem eru tekin úr jörðinni. Í stað þess að bora nýjar holur er HS Orka að þróa nýja leið til að áframnýta auðlindirnar sem unnið er með.

Þetta eru fróðleg vísindi. Jarðsjórinn sem borað er eftir fyrir Reykjanesvirkjun er 270 gráðu heitur og gufan er notuð til þess að framleiða 100 MW af rafmagni með tveimur háþrýstitúrbínum. Að þessu loknu er enn heilmikil orka eftir í vökvanum sem er nú um 200 gráðu heitur. Með tækniþróun er nú hægt að nýta þann vökva enn frekar. En fyrst þurfti til verkfræðilegar úrlausnir til þess að fjarlægja útfellingar, eins og til dæmis kísil, úr vatninu áður en orkan er nýtt.

10 MW með nýjum búnaði

Í Svartsengi stendur til að skipta út eldri búnaði fyrir nýjan og auka afkastagetu og nýtni. Þannig nær HS Orka að auka framleiðslugetu orkuversins úr 75 MW í 85 MW. Unnt hefði verið að ná enn meiri orku út úr þessu en þá hefði verkefnið þurft að fara í gegnum rammaáætlunarferlið sem hefði seinkað verkinu umtalsvert og aukið á óvissu.jarðh

Þetta er tekið sem dæmi um þá möguleika sem eru fyrir hendi með meiri þekkingu. Við verðum að halda áfram að nýta orkulindir landsins um leið og við bætum nýtingu og hönnun þeirra, einnig þeirra sem nú eru fyrir en fyrir nokkrum árum opnuðust möguleikar á að fá mun meiri orku úr vatnsmiðlun Þjórsár, á svæði sem er nýtt nú þegar. Samhliða verðum við að bæta skilvirkni kerfisins og efla sparnað á orku í landinu. Og umfram allt, gæta þess að við höfum áfram full not af okkar helstu auðlind, heitu vatni til húshitunar. Slíka orku öfunda allir okkur af.