c

Pistlar:

10. mars 2022 kl. 10:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Upplýsingaóreiða um orkumál

Það kann að virka umhverfisvænt fyrir Vestfirðinga að kaupa rafmagnsbíla en gamanið fer að kárna þegar menn átta sig á því að rafmagn inn á kerfið þar er að stórum hluta framleitt með jarðefnaeldsneyti. Hús á Vestfjörðum eru kynnt fram á vormánuð á sama hátt en vegna fyrirvaralausra bilana og viðhalds á flutningskerfi raforku á Vestfjörðum getur brennsla á dísilolíu í varaaflsstöðvum og olíukötlum hæglega numið 500-1000 tonnum á ári. Alvarleg bilun í flutningskerfi Vestfjarða, sem varir dögum saman, getur margfaldað þessa tölu. Þetta eru ekkert ný tíðindi, þetta ástand hefur verið svona lengi enda eru Vestfirðir ekki sjálfbærir í orkuframleiðslu. Innan við helmingur þeirrar orku sem notuð er í fjórðungnum er framleidd á svæðinu en umhverfisverndarsinnar hafa meinað Vestfirðingum að gera bót á sínu orkukerfi og knúið þá í faðm jarðefnaeldsneytis, til dæmis með andstöðu sinni við Hvalárvirkjun. Þetta er erfitt fyrir Vestfirðinga að þola nú þegar þeir eru að ná vopnum sínum eins og vikið var að hér í pistli.hitav

Ónógt rafmagn og truflanir

Samkvæmt þriggja ára gamalli samantekt Vestfjarðarstofu er helsti vandi Vestfirðinga í raforkumálum afhendingaröryggi orkunnar en Vestfirðir eru háðir innflutningi á orku af meginflutningskerfi landsins eins og áður sagði. Tíðar rafmagnstruflanir eru dýrar og standa bæði vexti og rekstri atvinnulífs fyrir þrifum. Til að tryggja stöðugt rafmagn þarf að gera þrennt, það þarf fleiri varaaflstöðvar, fjölga virkjunum og koma upp hringtengingu.

Með hringtengingu er átt við að orka geti borist úr tveimur áttum en ekki einni. Verði bilun á annarri línunni berst rafmagn áfram með hinni. Í dag kemur allt aðflutt rafmagn til Vestfjarða með einni línu, Vesturlínu. Hún er rúmlega 161 km löng, milli Hrútatungu og Mjólkárvirkjunar, og liggur yfir svæði sem er bæði veðurfarslega og landfræðilega erfitt. Gárungar fyrir vestan kalla línuna gjarnan „Hundinn”.

Vestfirsk fyrirtæki þurfa að kljást við spennuflökt og útslátt með reglulegu millibili. Spennuflökt hefur valdið fyrirtækjum þar allnokkru tjóni en þar eins og annars staðar eru menn með viðkvæmar tölvustýrðar vélar og mikið af tölvubúnaði.

Hvaða rafmagn?

Fyrir stuttu var umræða um að Breiðafjarðarferjan Baldur ætti að vera knúin rafmagni eins og Vestmannaeyjaferjan Herjólfur. Vestfirðingar hlógu að þessari hugmynd, hvaðan á rafmagnið að koma ef hlaða á hana á Brjánslæk miðað við lýsingar hér að framan? Þetta er nefnt hér vegna þess að talsverður hluti landsmanna er algerlega úr tengslum við þann veruleika sem landsbyggðarfólk býr við. Það sem hefur verið rakið með Vestfirðinga á að hluta til einnig við um Austfirðinga.virkjun

Löng röð tapaðra verkefna

Undanfarið ár hefur verið margvísleg umræða um orkumál, líka á þessum vettvangi. Nú hefur komið fram að Landsvirkjun, Landsnet og nokkur sveitarfélög létu þess getið í svörum til starfshóps um stöðu og áskoranir í orkumálum að hafna hafi þurft fjölmörgum verkefnum á síðustu misserum vegna stöðu flutningskerfisins eða skorts á orku. Fréttir af töpuðum atvinnutækifærum hafi borist stjórnvöldum úr mörgum áttum. Starfshópurinn segir að ákall sé úr öllum landshlutum um aukna orku og meira orkuöryggi. 

Landsnet metur að sex verkefni hefðu raungerst ef ekki hefði strandað á flutningskerfinu. Aflþörf þeirra sé 150-200 MW og starfshópurinn áætlar að árleg orkusala hefði orðið 4-6 milljarðar. Þá er ótalin önnur verðmætasköpun, störf og útflutningstekjur. Orkuspá í flestum tilvikum gengur út á að framreikna mannfjöldaþróun og hagvaxtarspár. Sé bara horft til þess þarf meiri orku a Íslandi í dag.