c

Pistlar:

5. apríl 2022 kl. 14:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gamla Evrópa og nýir öryggisbrestir

Engum dylst að stríðið í Úkraínu mun hafa veruleg áhrif á alþjóðastjórnmálin og öryggis- og varnarstefnu flestra ríkja heims. Ekki bara í Evrópu, áhrifin eru allstaðar eins og hefur verið vikið að hér í pistlum. Síðan Sovétríkin hrundu og Kalda stríðnu lauk hefur aðeins verið eitt risaveldi, Bandaríkin. En það fylgir því að vera risaveldi að stöðugt þarf að endurmeta og endurskoða áherslur í öryggismálum um allan heim og það hefur eðlilega áhrif á aðrar þjóðir. Bandaríkjamenn vilja kom meiri ábyrgð á vörnum Evrópu yfir á Evrópuþjóðirnar sjálfar en vandinn er að þær þjóðir sem þurfa mest á öryggistryggingu að halda treysta Bandaríkjunum mun betur en meðbræðrum sínum í Evrópu. Það á sérstaklega við um þjóðir Austur-Evrópu. Þær þjóðir munu seint telja sig öruggar nema bandarískir hermenn séu með viðveru í löndum þeirra.ukr

Uppgangur Kína

Hagsmunir Bandaríkjamanna eru stöðugt að verða meiri í Asíu í kjölfar uppgangs Kínverja sem búa yfir einstökum efnahagslegum styrk og eru um leið að efla herveldi sitt. Það eru reyndar ekki bara Bandaríkjamenn sem hafa áhyggjur af vaxandi veldi og ásælni Kínverja. Bretar eiga frá fornu fari mikla hagsmuni í Asíu og gáfu frá sér Hong Kong gegn loforði kínverskra yfirvalda um að lýðréttindi Hong Kong búa myndu haldast. Veraldavanir Bretar í utanríkisþjónustunni segja gjarnan að Rússar séu eins og óveður (sem gangi yfir) en Kínverjar eins og loftslagsbreytingar („climate change“). Með öðrum orðum, það að glíma við Kínverja er meiri, þyngri og meira langvarandi áskorun á öllum sviðum öryggis, varnar-, viðskipta- og efnahagsmála. Það hvernig eigi að haga samskiptum við þá vefst eðlilega fyrir mörgum.binla

Ásælni Kínverja og fyrirferð í Suður- og Austur-Kínahafi og í kringum Tævan fer stöðugt vaxandi. Flestar þjóðir Suðaustur-Asíu hafa varan á sér gagnvart hinum fjölmenna risa í norðri og í sumum löndum er stór kínverskur minnihluti. Í löndum eins og Tælandi hefur þessi minnihluti umtalsverð völd sem skapar spennu við heimamenn. Kínverjar telja að enginn borgarveggur sé svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki yfir hann. Margar þjóðir eru komnar í stórskuld við þá, svo sem Pakistanir sem lengstum hafa verið tengdir Bandaríkjamönnum. Sambandið er flókið eins og sást þegar Osama bin Laden, leiðtogi al Kaída hryðjuverkasamtakanna, var drepinn af bandarískum sérsveitarmönnum inn í miðju Pakistan árið 2011. Pakistanska leyniþjónustan var með í ráðum og Asif Ali Zardari, þáverandi forseti Pakistans, gaf leyfi fyrir aðgerðinni. Það breytir því ekki að bin Laden hafði fengið að hreiðra um sig í Pakistan, rétt hjá sjálfri höfuðborginni Islamabad. Augljóslega voru Pakistanir með kápuna á báðum öxlum. Þeim er vorkunn með trúarofstæki á allar hendur í landi með veikburða lýðræði.

Takmörkuð heimsýn

Við Vesturlandabúar verðum að horfast í augu við að heimsýn okkar takmarkast við okkar hagsmuni, sögu og menningu. Þetta sást óvenju skýrt þegar lítillátur maður að nafni Ho Chi Minh birtist á friðarráðstefnunni í Versölum árið 1919 og óskaði eftir sjálfstæði þess landsvæðis sem við þekkjum sem Víetnam í dag. Hann hélt að andi Versala næði líka til Suðaustur-Asíu. Hann náði að koma ákalli sínu til Woodrow Wilson Bandaríkjaforseta og til nokkurra franskra stjórnmálamanna þegar franska leyniþjónustan áttað sig á því hvað var í gangi og hóf árangurslausa leit að honum. Sjálfsagt hefði Ho Chi Minh ekki kembt hærurnar ef Frakkar hefðu náð honum en óskir hans voru í samræmi við það sem menn voru að tala um í Versölum, svo sem lýðréttindi, rétt til tjáningar og menntunar og rétt þjóðarinnar til að ráða málum sínum sjálf. Allt þetta rekur sagnfræðingurinn Tim Harper ágætlega í nýrri bók sinni Underground Asia. Hann varpar einnig ljósi á hvernig Vladimir Lenín, sem sat allt í einu uppi með einhverskonar bændabyltingu 1917, reyndi að útbreiða hana meðal ráðamanna eins og Ho Chi Minh og annara leiðtoga í Suðaustur-Asíu sem voru að reyna að hrista af sér klafa nýlendustefnunnar. Síðar tóku Bandaríkjamenn yfir Víetnamstríð Frakka án þess að skilja að þeir voru í raun lentir inn í gamaldags nýlendustríði sem þeir höfðu engan áhuga á. Sú niðurstaða byggði á „dómínókenningunni“ sem John Foster Dulles utanríkisráðherra Bandaríkjanna var höfundur að. Með tilstyrk slíks kenningarlegs misskilnings hrökktu Bandaríkjamenn Víetnama í faðm Kínverja sem þeir þó óttuðust. Svona getur ónóg greining og röng stefna í utanríkismálum stórvelda haft alvarlegar afleiðingar.tyrkher

Nýir leikendur á sviðinu

En víkjum aftur að hinu geópólitíska sviði nútímans. Augljóslega verður gamla Evrópa að sætta sig við að það eru nýir leikendur á sviðinu. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti metur stöðu sína svo að hann geti haft áhrif lausn Úkraínustríðsins en hann hefur einnig treyst sér til að storka Pútin Rússlandsforseta með því að leyfa sölu tyrkneskra vopna til Úkraínumanna. Tyrkland með sínar 80 milljónir íbúa er staðbundið herveldi sem hefur umtalsverð áhrif í nærumhverfi sínu eins og Erdogan sýndi í Sýrlandi og Lýbíu. Allt eins er líklegt að átökin við Kúrda harðni enn frekar þar sem ör fjölgun Kúrda ógnar hinu lýðfræðilega jafnvægi austurhluta Tyrklands (eða Kúrdistan) að mati Tyrkja. Þetta svæði er og verður óstöðugt.

Íranir eru jafn fjölmennir og Tyrkir og þeir geta kennt Rússum hvernig á að lifa af viðskiptaþvinganir og eru allt eins tilbúnir til þess. Hið geópólitíska svið er óvenju flókið í þessum heimshluta þar sem menn verða að setja sig inn í trúarátök umfram þjóðernisátök til að skilja hreyfiafl hlutanna. Indverskir stjórnmálaskýrendur segja að í Úkraínu standi stríðið milli Nató og Rússlands, þeir virðast ekkert sérlega ginkeyptir yfir sjálfsákvörðunarrétti Úkraínumanna. Indverjar skilgreina sig sem mildandi afl (soft power), hafa til þess að gera nýlega stundað heræfingar með Rússum og hafa setið hjá í atkvæðagreiðslum varðandi málefni Rússlands hjá Sameinuðu þjóðunum. Allt þetta sýnir að það eru ný sjónarmið og nýir leikendur sem geta haft mikil áhrif á stríð það sem er nú í bakgarði gömlu Evrópu.