c

Pistlar:

7. apríl 2022 kl. 21:11

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þegar raunsæið rauf einangrun Kína

Í febrúar síðastliðnum voru 50 ár liðin frá því að Richard Nixon Bandaríkjaforseti heimsótti Kína og markaði þar með upphaf að auknum og betri samskiptum við þetta fjölmennasta ríki heims. Rauða Kína, eins og það var kallað, var í raun fullkomlega einangrað ríki, bjó við mikla fátækt og á þeim tíma var allsendis óvíst hvaða hlutverki það kæmi til með að gegna í heimspólitíkinni. För Nixon var að mörgu leyti djörf og það var kannski ekki síður djarft hjá kínverskum yfirvöldum að taka á móti honum. Bæði Nixon og Mao Zedong, leiðtogi Kína, höfðu átt í erfiðleikum heima fyrir. Víetnamstríðið hafði kostað Nixon miklar vinsældir, rétt eins og forvera hans, og Kínverjar voru rétt að jafna sig eftir Menningarbyltinguna sem Mao dembdi yfir þá og kostaði milljónir manna lífið og færði í raun efnahaginn mörg ár aftur í tímann.nixma

Ferðalag forsetans var óvenjulegur atburður og kynntur fyrir bandarísku þjóðinni sem slíkur. Það er eftirtektarvert að sjá Nixon og Pat konu hans kveðja starfsfólk Hvíta hússins áður en lagt var í ferðina og augljóst að mikið er undir. Nixon ávarpar fólkið á flötinni fyrir utan Hvíta húsið og sagði að þó að þjóðirnar greini á þurfi þær ekki að vera óvinir. Heimsóknin var viðburður á heimsvísu, sjónvarpstöðvar voru með beinar útsendingar og seinna var heil ópera samin um ferðina. Óperan Nixon í Kína var frumsýnd 1987 og var sett upp nokkrum sinnum þó áhorfendum hefði þótt heldur spaugilegt að sjá stórsöngvara í gerfi Nixon og Mao syngja dúetta. Óperan er nokkuð heimspekileg og í einni aríunni syngur Nixon: „I found the smell of burgers on the grill made grown men cry.“

Þegar Nixon lenti í Bejing, höfuðborg Kína, var landið ekki viðurkennt af Bandaríkjunum. Tævan var hið viðurkennda ríki Kína en ljóst var að slík sjálfhelda á stöðu Kína gat ekki lifað áfram. Nixon var hins vegar þekktur Kalda stríðs-haukur sem iðulega hafði skammað andstæðinga sína fyrir að fara of mjúkum höndum um kommúnista. Þegar þarna var komið sögu var það hins vegar sannfæring ráðamanna í Bandaríkjunum að ekki væri lengur hægt að hundsa Kína í valdatafli heimsins. „Við getum einfaldlega ekki skilið Kína eftir fyrir utan samfélag þjóðanna og þannig ýtt undir ranghugmyndir um leið og það ógnar og hatast við nágrana sína,“ hafði Nixon skrifað strax árið 1967 og tímaritið Economist rifjar upp í umfjöllun sinni í febrúar síðastliðnum.

Raunsæisstefna með í för

En með í för var Henry Kissinger sem þá var öryggisráðgjafi forsetans en árið eftir tók hann við sem utanríkisráðherra. Kissinger með sínar leiftrandi gáfur var aðal hugmyndasmiður bandarísku utanríkisstefnunnar á þessum tíma, hafði tekið við því hlutverki af John Foster Dulles, Robert McNamara og George Kennan. Kissinger var raunsæismaður og leit á alþjóðastjórnmálin sem taflborð hagsmuna. Þannig yrðu stórveldi að vinna. Á þessum tíma voru samskipti Kína og Sovétríkjanna við frostmark, hugsanlega má finna einhverjar hugmyndafræðilegar forsendur fyrir því en Mao og klíkan í kringum hann tortryggði Sovétmenn og óttuðust jafnvel innrás enda Sovétríkin almennt talið vel fært um stórar aðgerðir af því tagi. Þá sem nú er geta sovét/rússneska hersins ofmetin. Kissinger og Nixon sáu því tækifæri til að bæta samskiptin við Kínverja og reka fleyg í raðir alheimskommúnismans. Að þeirra dómi gæti Kína, þrátt fyrir að vera talið fremur veikt, verið mikilvægur bandamaður í störukeppninni við Sovétríkin.nixsuen

En einnig voru praktískir undirstraumar. Ráðamenn í Bandaríkjunum vildu fyrir alla muni ljúka Víetnamstríðinu og Kínverjar voru helstu bandamenn Víetnama. Ekki endilega vegna þess að miklir kærleikar væru á milli þeirra heldur höfðu Bandaríkjamenn gert sig að sameiginlegum óvini, að hluta til vegna rangrar greiningarvinnu eins og bent var á hér í síðasta pistli.

Fórnir raunsæisstefnunnar

En það að bæta samskipti við Kína myndi óhjákvæmilega þýða að Bandaríkjamenn yrðu að fórna hagsmunum bandalagsþjóða sinn í Suður-Víetnam og á Tævan. Víetnamstríðinu lauk þremur árum eftir heimsóknina en í raun var grundvöllur að endalokunum lagður í henni. Kínverjar lögðust á Víetnama að taka þátt í einhverskonar friðarviðræðum þó staða Bandaríkjamanna væri ekki beysin. En heimsóknin innsiglaði einnig stöðu Tævan því í sameiginlegri yfirlýsingu, kenndri við Shanghaí, í kjölfar heimsóknarinnar var staðfest að Bandaríkin viðurkenndu að allir Kínverjar væru sammála um að Tævan væri óaðskiljanlegur hluti af Kína. Bandaríkjamenn neituðu hins vegar að staðfesta að Kínverski kommúnistaflokkurinn ætti að stjórna eyjunni.

Seinni tíma opnun gagna hefur sýnt hve harðskeytta raunsæispólitík Bandaríkjamenn stunduðu í heimsókninni, meðal annars til að styðja við kosningabaráttu forsetans. Þannig var kvittað upp á allskonar yfirlýsingar um ágæti Mao og forsætisráðherrans Zhou Enlai þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefðu ágætar upplýsingar um framferði Kínverja gagnvart eigin þegnum. Economist bendir á að enn í dag dreymi Kínverja um að hafa svo frítt spil gagnvart mannréttindum í samskiptum sínum við aðrar þjóðir. Þeir telja að í heimsókninni hafi tóninn verið gefin fyrir samskipti þjóðanna sem gangi út á að þau stundi viðskipti en reyni ekki að hafa áhrif á innanríkismál og þjóðfélagsuppbyggingu hvors ríkis fyrir sig. Shanghaí-yfirlýsingin hafi þannig fyrst og fremst verið áskorun um að hundsa hugmyndafræði og orðið lykilplagg fyrir stuðningsmenn raunsæis í alþjóðastjórnmálum. Þetta áréttaði kínverski utanríkisráðherrann Wang Yi í samtali við Antony Blinken, bandarískan kollega sinn, fyrir stuttu. Báðir aðilar voru sammála um að nefna hvorki Nixon né Mao á nafn þrátt fyrir að tilefni samtalsins hafi verið heimsóknin fyrir 50 árum sem þá var kölluð „vikan sem breytti heiminum“.tævan

Verður Tævan fórnað?

En yfirlýsingin skildi Tævan eftir sem óafgreitt mál og nú þrýsta Kínverjar sífellt meira á lausn þess máls. Óvíst er að Bandaríkjamenn treysti sér til að tryggja óbreytta stöðu Tævan en þar hafa einnig orðið breytingar eftir að þjóðernisflokkurinn (áður Kuomintang), sem Chiang Kai-shek stofnaði, er ekki lengur við völd. Raunsæismenn innan Bandaríkjanna telja að það verði að semja við Kína um Tævan og það verði ekki gert öðru vísi en að láta Kínverja fá yfirráð, þá helst með samningum sem veita íbúum Tævan lýðræðislega stjórnarhætti áfram. En þó um slíkt yrði samið eru fáir trúaðir á að Kínverjar efni samkomulagið, frekar en þeir gerðu með Hong Kong. Þessi staða sýnir styrk þeirra, þeir geta gert samninga sem allir vita að þeir svíkja. Svona vinna stórveldi.