c

Pistlar:

30. apríl 2022 kl. 16:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samfylking um framkvæmdaleysi

Eftir tvær vikur verða sveitarstjórnakosningar um allt land. Kjósendur velja þá á milli fjölmargra lista í hinum ýmsu sveitarfélögum en áherslumál í sveitarstjórnarmálum eru eðlilega aðrar en í landsmálum. Verkefni sveitarfélaga eru að stórum hluta bundin í lög en undir þau falla meðal annars grunnskólar, málefni fatlaðra og umhverfis og skipulagsmál. Samspil sveitastjórna og landsstjórna eru margvísleg enda fjármagnar ríkissjóður mörg verkefni sveitarfélaga. Það gerist til dæmis í ýmsum framkvæmdum sem eðli málsins samkvæmt eru öll inni á skipulagssviði sveitarstjórna.sundabraut

Vegaframkvæmdir eru einn slíkur liður en ríkisvaldið fjármagnar oft samkvæmt samgönguáætlun. Þetta getur skapað vandkvæði um það hver í raun ber ábyrgð á framkvæmdinni. Sveitarfélagið getur þannig með skipulagsákvörðunum sínum fellt kostnað á ríkisvaldið sem eðlilega getur skapað ágreining. Þetta sést hvað skýrast með Sundabraut en óumdeilt er að fyrir allöngu sína var ákveðið að taka ódýrasta kostinn í burtu og nú er þar að rísa Vogabyggð með um 2.000 íbúðum.

Fyrr í dag bönkuðu uppá hjá mér fulltrúar Samfylkingarinnar til borgarstjórnarkosningar og færðu mér rós eftir stutt spjall. Ég spurði hvort Sundabraut yrði lögð með brú eða jarðgöngum enda skiptir það nokkru fyrir okkur hér í Langholts- og Vogahverfi. Sá sem fór fyrir hópnum taldi að brú yrði ofan á en virtist ekki með öllu viss. Ég hef auðvitað í pistlum mínum fjallað mikið um Sundabraut og mikilvægi hennar en eftir stutt spjall við þessa fulltrúa Samfylkingarinnar er ég ekki sannfærður um að ráðist verði í Sundabraut með þau við stjórnvölinn í núverandi meirihluta enda vitað að Píratar eru á móti henni og margt Samfylkingarfólk líka. Frá því hef ég áður sagt hér. En því miður bendir flest til þess að vilja- og getuleysi til þess að klára framkvæmdina muni í raun stöðva hana.

Hver kostar breytingar á legu Sundabrautar?

Ríkisvaldið (Vegagerðin) vill auðvitað ráða hvernig framkvæmdin verður þar sem ríkissjóður borgar brúsann. Núverandi stjórnvöld í Reykjavík hafa hins vegar augljóslega set önnur mál í forgang og hafa þar að auki lítinn sem engan áhuga á framkvæmdinni. Um leið hafa þau með skipulagsákvörðunum sínum aukið kostnaðinn verulega. Og eru enn að gera það eins og sést þegar vegastæði Sundabrautar er skoðað uppi í Gufunesi. Látum vera þó að smáhýsi fyrir útigangsfólk sé reist beint ofan í vegastæðið (þar býr hvort sem er enginn). Verra er að nú eru að rísa varanleg fjölbýlishús í Gufunesi sem eru óþægilega nálægt vegastæðinu. Kunnugir menn segja að ef vegastæði Sundabrautar verði fært þar til austurs kalli það á mikla aukavinnu og aukakostnað við að vinna veginn ofan í klappir og hæðir til að ná veginum eins beinum og öruggum og hægt er. Hver á að bera aukakostnað af því? Augljóslega getur verið mikill kostnaður þessu samfara og óforsjálni borgarinnar (nema það sé viljandi) mun þannig halda áfram að auka kostnaðinn við verkið.

Annað svona mál tengist framkvæmdum við Þjóðarhöll sem nú er þrýst á um. Í þættinum Sprengisandi um síðustu helgi kom fram í viðtali við fjármálaráðherra að höllin mun kosta átta milljarða króna og ríkisvaldið kemur með tvo milljarða af því. Reykjavíkurborg hefur heitið öðrum tveimur. En það er bara helmingur kostnaðarins. Er sannfærandi að ráðast í verkið áður en það liggur fyrir hvernig það verður fjármagnað? Ég ætla að hlífa lesendum að sinni við þá óvissu sem umlykur Borgarlínuframkvæmdina.