c

Pistlar:

14. júní 2022 kl. 11:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Píratar græða á óveiddum túnfiski

Fyrir stuttu var umræða á Alþingi um veiðar á bláuggatúnfiski sem var forvitnileg um margt. Ekki endilega vegna þess hve fjörug umræðan var heldur hvað hún sagði okkur um forsendur fyrir veiðum hér við land. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flutti frumvarpið sem fól í sér breytingu á lögum um stjórn fiskveiða og fleira vegna veiða á bláuggatúnfiski.

Staðreyndin er sú að Ísland hefur tryggt sér umtalsverðar veiðiheimildir af bláuggatúnfiski á vettvangi Atlantshafs-túnfiskveiðiráðsins, en undanfarin ár hafa íslensk skip þó ekki stundað þessar veiðar þannig að íslenskur sjávarútvegur nýtur ekki góðs af veiðiheimildunum. Ef heimildirnar verða ekki nýttar má ætla að örðugt verði að halda þeim til langframa og þannig verði Ísland af þeim verðmætum sagði ráðherra í ræðu sinni en hana flutti Guðmundur Ingi fyrir hönd Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra sem var fjarverandi. Það sást enda ágætlega af ræðum Guðmundar Inga að hann var ekkert sérstaklega vel að sér í málinu.tuna

Þarf ekki íslenska áhöfn eða bát

Kjarni frumvarpsins var hins vegar að veita heimild til þess að veiða bláuggatúnfiskskvóta Íslands án skilyrða um að það væri gert af íslensku skipi eða íslenskri áhöfn. „Til að stuðla að því að veiðar hefjist að nýju af Íslands hálfu er talið nauðsynlegt að veita tímabundnar heimildir í lögum til að heimila íslenskum aðilum að taka á leigu sérhæfð erlend skip til veiða á bláuggatúnfiski til að viðhalda veiðireynslu Íslands, kanna hagkvæmni veiðanna og byggja upp innlenda sérþekkingu á slíkum veiðum,“ sagði ráðherra í framsögu sinni. Þar var í raun breyting á grunnþætti íslenskrar útgerðar sem alþingismenn voru alveg tilbúnir að veita. En það breytir því ekki að ólíklegt er að nokkur veiði bláuggatúnfiskinn þó að staðan sé sú að nú megi allir gera það. Af hverju, jú þarna kristallast það sem á við í allri útgerð, það þarf að hafa þekkingu og réttu tækin og tólin. Þar skilur á milli þó ekki allir átti sig á því í umræðu dagsins.

Umræðan var nokkuð fyrirsjáanleg en í henni tóku þátt fyrst og fremst þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata. Allir töldu þessir þingmenn rétt að minna á stefnu sína í sjávarútvegsmálum þó að frumvarpið, sem þeir voru að ræða, segði í raun allt aðra sögu en þeir boða dags daglega um aðgengi að auðlindinni. Við getum sagt að bláuggatúnfiskur sé nú auðlind fyrir alla sem vettlingi geta valdið viljið þeir á annað borð hefja útgerð. En það er ekki svo að um það sé slegist.

En þingmenn þeirra flokka sem almennt berjast gegn núverandi stjórn fiskveiða töldu margt forvitnilegt við málið. Þórunn Sveinbjarnardóttir hjá Samfylkingu sagði að þarna væri „um gríðarleg verðmæti að ræða“ og velti fyrir sér hvort rétt væri að halda úti uppboðskerfi. Breytti litlu þó málið væri augljóslega flutt vegna fullkomins áhugaleysis íslenskra útgerðaraðila á þessum veiðum. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, velti fyrir sér fullur eftirvæntingar hvort af þessu yrðu skatttekjur í framtíðinni!tuna2

9,3 milljarðar sagði Píratinn

Hugsanlega var ræða Gísla Rafns Ólafssonar, þingmanns Pírata, forvitnilegust en hann hafði lagt sig eftir að reikna út hugsanlegt verðmæti bláuggatúnfisksins og sagði. „Já, þetta er dýr fiskur. Við vorum að tala um það áðan í andsvörum að sá kvóti sem Ísland hefði fengið úthlutað væri um 180 tonn en það eru einhvers staðar á bilinu 700–900 dýr. Verðmæti þeirra í íslenskum krónum á hverju ári, ef þau væru öll veidd og seld á markaði á þessu verði, er 9,3 milljarðar íslenskra króna. Já, kannski ætti einhver að borga fyrir að fá aðgang að slíkum auðlindum.“

Já, þingmennirnir sáu verðmætin ekki ekki endilega hvernig ætti að afla þeirra. Þrátt fyrir að veiðislóð bláuggatúnfisksins hafi verið kunn lengi hefur enginn á Íslandi séð sér hag í að veiða hann, ekki einu sinni þeir sem biðja ítrekað um að gang að fiskimiðum utan kvótakerfis. Það kemur til af því að veiðin er flókin, vandasöm og kostar þekkingu og reynslu, sem á reyndar við um alla veiði þó það birtist skýrast í þessari umræðu sem stjórnarandstaðan einokaði.