c

Pistlar:

16. júlí 2022 kl. 12:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tolli, listin og markaðsöflin

Það var skemmtilegt viðtal við listmálarann Tolla í ViðskiptaMogganum á miðvikudaginn. Satt best að segja er viðtalið óvenju hressilegt og hreinskilið um líf listmannsins í markaðsþjóðfélagi þar sem hann þarf að selja og kynna verk sín við síbreytilegar aðstæður. Alla jafnan eigum við erfitt með að tala um list og peninga í sömu andrá og margir listamenn virðast telja að fjármunir eigi að berast nánast sjálfkrafa til þeirra frá hinu opinbera. En miklir fjármunir streyma um listaheiminn eins og áður hefur verið fjallað um hér í pistlum.

Tolla hefur tekist að skapa sér sérstöðu og markaðssetur sig með úthugsuðum hætti. Hann er með nýja vinnustofu á Esjumelum, þangað þarf að fara í gegnum iðnaðarhverfi, fram hjá steypubílum og víravirkjum áður en stórt skilti með nafni Tolla blasa við. Blaðamaðurinn upplýsir okkur um að aðstaðan sé engin smásmíði, lofthæðin draumur allra listamanna og á veggjum og trönum hanga margvísleg verk af ýmsum stærðum og gerðum, á ólíkum stað í sköpunarferlinu.

Lýsing Tolla á rekstri sínum er forvitnileg og ég vona að þeir Morgunblaðsmenn fyrirgefi mér að ég vitni nokkuð ítarlega til viðtalsins sem birtist eins og áður sagði á miðvikudaginn. Tolli segist reka gallerí í húskynnum sínum og þannig eigi hann milliliðalaus samskipti við sína viðskiptavini. „Það er enginn betri en ég í að selja mína myndlist,“ bætir hann við. Hann er ófeiminn að ræða um markaðssetningu og í viðtalinu fer hann yfir hvernig hann vinnur sitt markaðs- og sölustarf. Þannig segist hann minna reglulega á sig til að halda „vörumerkinu“ í umræðunni. Hann segir að 70-80% sölunnar hjá sér ár hvert sé netinu að þakka. „Ég er með þrjátíu þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlum. Stundum kaupi ég auglýsingu á Facebook og næ þá til tugþúsunda manna,“ útskýrir listamaðurinn.tolli


Gríðarleg afköst

Tolli segir að kaupendahópurinn sé fjölbreyttur og fólk sem kaupi af honum hugsi sig oft lengi um áður en það fjárfestir í verkum hans. Fólk á öllum aldri kaupi. „Fólk um sjötugt að minnka við sig vill kaupa verk og ung hjón vilja Tolla í brúðkaupsgjöf. Oft fjarar aðdáendahópurinn út eftir því sem listamenn eldast. Það er þakkarvert að það er ekki að gerast hjá mér.“

Það má undrast afköstin hjá Tolla sem segist búa til 100-200 myndverk á ári. Hann hefur svör við gagnrýnisröddum þar um: „Margir telja slæmt að framleiða og selja mikið, en ég er ekki sammála því. Ég hef verið gagnrýndur fyrir að mála of mikið. Það verðfelli myndirnar. En það er ekki raunin. Því meira sem ég sel því stærri verður markaðurinn og fleiri þekkja mig og verkin mín.“ Tolli segir að miklu máli skipti að listin sé sýnileg.

Tolli segist hafa setið undir ásökunum um að vanda sig ekki nóg þegar afköstin eru þetta mikil. Hann játar að vera með aðstoðarfólk sem sér um umhirðu á vinnustofunni, þrífur öll verkfæri og kaupir inn. Hann fær alla striga uppstrekkta og tilbúna og getur því nýtt tímann og einbeitt sér að listsköpun sinni. Einnig segist hann hafa stíl sem henti vel, þessi expressíoníska nálgun, upp á meiri afköst og flæði. „Í myndlist er ekki samasemmerki á milli tíma og útkomu. Picasso gerði til dæmis 90 þúsund verk á ferlinum, þegar allt er talið. Mörg þau þekktustu og verðmætustu gerði hann á örskotsstundu,“ segir Tolli en þess má geta að annar þekktur íslenskur málari, Eggert Pétursson er þekktur fyrir að fara aðra leið en hann er gjarnan marga mánuði eða upp í ár að mála eitt málverk. Líklega eru fáir listmálarar sem gangast við vinnulagi eins og því sem Tolli lýsir.

Selst vel í endursölu

Margir fjárfesta í myndlist og flestir líklega sér til ánægju en ýmsir gera það fjárfestingarinnar vegna. Tolli bendir á að rannsókn sem gerð hafi verið við Háskólann á Bifröst hafi leitt í ljós að af núlifandi íslenskum listamönnum séu verk hans best í endursölu. „Það kom mér ekki á óvart. Miðað við það magn sem ég hef sett á markaðinn þá er mjög lítið í endursölu. Fólk lætur þetta ekki frá sér.“

Vangaveltur Tolli eru áhugaverðar en hann segir að það hafi stundum verið tilhneiging að gera lítið úr því að vera meginstraums í listinni (e. mainstream). „Það er ekkert samansemmerki á milli gæða og þess að vera í meginstraumnum,“ segir Tolli. Það þarf ekki að taka fram að hann gengst við því að vera meginstraumslistamaður en telur frásögn sína þannig að allir séu læsir á verk eftir hann.toll2

Þjóðfélagsumræðan hluti markaðsstarfsins

Tolli vakti strax athygli fyrir kraftmiklar myndir, meðal annars af togarasjómönnum þó hann hafi á seinni tíma sérhæft sig í landslagsmálverkum, segist sjálfur fylgja í fótspor Georgs heitins Guðna sem hafi endurvakið landslagið í íslenska málverkinu. Tolli telur að líklega hafi hann orðið að söluvöru, slegið í gegn, í kringum aldamótin. Þar hafi hann notið þess að vera mjög sýnilegur í íslensku samfélagi. Nafn hans og ásjóna hafi verið þekkt. Þess vegna eru svo margir meðvitaðir um tilurð hans og hans myndlistar. Hreinskilni hjá listamanninum og má velta fyrir sér hvort þátttaka í þjóðfélagsumræðu sé almennt hluti af markaðsstarfi listamanna? Tolli segir að hann þurfi að vera stöðugt sýnilegur. „Það hefur verið rauði þráðurinn í minni markaðsvinnu.“ Því séu samfélagsleg mál góð fyrir viðskiptin og hann segist láta sig ýmis samfélagsleg mál varða. Auk þess að láta gott af sér leiða með þeim hætti er það líka gott fyrir viðskiptin, að hans sögn.

Blaðamaður bendir á að Tolli hefur verið duglegur í gegnum tíðina að nota hin ýmsu tilefni til að koma sér og list sinni á framfæri. „Ég hef gott aðgengi að fjölmiðlum. En ég er meðvitaður um að það þarf að vera kjöt á beinum. Það er ekki nóg að vera með sýningu. Það þarf að vera eitthvað meira. Þú þarft að tengja við eitthvað til að fá athygli.“

Breytti vörumerkinu

Þá er merkilegt að horfa til merkinga og tákna listamanna en Tolli segist alla tíð notað undirskrift sína sem vörumerki. Þar er skemmtileg lýsing: „Ég ræddi við hönnuð nýlega sem vildi breyta vörumerkinu mínu. Ég var ekki til í það. Þá benti hann á að Coke hefði breytt vörumerki sínu sextíu sinnum. Þá samþykkti ég að breyta og nú er vörumerkið unnið upp úr blýantsskrift minni, þeirri sem ég nota til að rita undir eftirprentanir og pappírsverk,“ segir Tolli í viðtalinu.

Blaðamaður spyr hvenær Tolli hafi tekið ákvörðun um að hugsa myndlist á markaðslegum forsendum og Tolli segir að það megi rekja allt aftur til þess þegar hann fór í myndlistarnám 23 ára, þá einsetti hann að gera þetta að sinni atvinnu. Eftir stutt stopp í erfiðisvinnu á Gúmmívinnustofunni hafi hann lært að það væri ekki svo slæmt að lifa af myndlist. Þetta er athyglisverð lýsing en frá Listaháskólanum heyrast sögur að þar hafi einu sinni slæðst inn hægri sinnaður nemandi en orðið að þola mikið einmelti fyrir skoðanir sínar. Einhvern veginn kemst þó markaðshugsun inn til sumra nemenda.

Tolli telur eina helstu ástæðu þess að það náðist hafi verið framkvæmdageta hans og samfélagslæsi og skýring hans er skemmtileg, einhverskonar útgáfa af marxískri markaðshyggju! „Ég elst upp í marxísku byltingarsinnuðu grasrótarumhverfi. Slíkt uppeldi gefur þér lykla að samfélaginu og kennir manni að hægt er að breyta því. Þú þarft ekki að vera fórnarlamb atburðarásar. Ef þú ert læs á samfélagið þá sérðu hreyfilögmálin og getur sem einstaklingur haft mikil áhrif. Ég næ svo bara einhvern veginn að troða marvaðannn og hef unnið sem myndlistarmaður frá 1984.“toll3

Rétta málverkið dregur að ríka kúnna

Tolli kveðst eðlilega ánægður með að hafa getað lifað af listinni og áfram beitir hann stéttagreiningu sinni. „Rauði þráðurinn í minni vinnu síðustu áratugina er fegurðin. Ég var alinn upp í að hugsa um fegurð sem smáborgaralegt viðhorf. Að við ættum að ástunda byltingarsinnaða og gagnrýna hugsun og vekja fólk til vitundar um óréttlæti heimsins. En hins vegar er fátt eins mikið og gott veganesti í vondum heimi eins og fegurð. Og ég hef tekið að mér að sinna því að gera fallega hluti. Það þurfti pung til að gangast við því.“

Tolli er fyrst og fremst landslagsmálari og markaðssetning hans gengur út á það. Stór hluti viðskiptavina hans séu erlendir ferðamenn. „Þetta eru mjög oft sterkefnaðir útlendingar sem geta leyft sér að kaupa myndlist hvar sem er í heiminum, en þeir kjósa að kaupa af mér.“

Hann segist til dæmis hafa átt gott samstarf við Fosshótel um allt land. „Þar er ég með stór málverk sem oft vekja mikla athygli og leiða fólk til mín. Til dæmis kom erlendur listaverkasafnari, sem á 40-50 verk eftir mig, hingað á einkaþotu sinni á dögunum með 18 manna föruneyti. Hann bað mig að setja upp einkasýningu í veiðihúsinu sem hann dvelur í. Sú sýning stendur yfir núna.“ Tolli segir að áhugi erlendra kaupenda sé vitnisburður um gæði myndlistar hans. „Ég hef selt málverk út um allan heim.“

Spurður um krónur og aura og hverjar tekjur hans eru af myndlistinni segir Tolli þær vera góðar. „Fyrir einu ári var ég að borga 13 milljónir króna í skatt. Það segir eitthvað. Ég hef áður farið í slíkan topp. Ég er með góðar tekjur gegnumsneitt,“ segir Tolli. Komið hefur fram í ViðskiptaMogganum að Tolli stofnaði á dögunum nýtt einkahlutafélag utan um listastarfsemina. Tilgangurinn var að aðskilja einkaneysluna frá rekstrinum.